Mið-Austurlandaferð 17: Tel Aviv er Tel Aviv

Þá er síðasti dagur þessarar Mið-Austurlandaferðar næstum því búinn. Klukkan er að verða fimmhér við Miðjarðarhafið í Tel Aviv. Búinn að eyða deginum á ströndinni, lesandi, horfandi á mannfólkið, drekkandi bjór, borðandi morgunmat og góðan hádegismat á veitingastöðum á ströndinni. Í kvöld ætla ég svo að mæta á einn strandbarinn og horfa á Holland vinna Ítalíu á stórum skjá á ströndinni.

* * *

Það fyrsta sem maður einsog ég hlýt að spyrja mig að eftir nokkra daga í Tel Aviv er: “Af hverju í andskotanum bý ég ekki í Tel Aviv?” Þetta er æðisleg borg!  Frjálslynd, falleg, býður uppá fullkomið veður, strendur, Miðjarðarhafið, fallegar stelpur, gott næturlíf, öflugt menningarlíf, góða veitingastaði og svo framvegis og framvegis. Þetta er einfaldlega frábær borg.

Það er líka erfitt að ímynda sér að Jerúsalem sé álíka nálægt Tel Aviv og Selfoss er nálægt Reykjavík – því borgirnar tvær gætu vart verið ólíkari. Í Jerúsalem þverfótar maður ekki fyrir trúarbrögðum – moskum, bænahúsum, kirkjum, haredi gyðingum á leið að Grátmúrnum, nunnum, rabbíum og svo framvegis og framvegis. Og Jerúsalem er íhaldsöm. Á shabbat lokar hreinlega allt. Veitingastaðir og kaffihús líka.

Ég kom hingað til Tel Aviv á föstudaginn og spurði stelpuna í afgreiðslunni hvort það væri ekki allt lokað á shabbat einsog í Jerúsalem. Hún svaraði einfaldlega “Jerúsalem er trúuð – Tel Aviv er Tel Aviv”. – Og ætli það sé ekki besta lýsingin á Tel Aviv – hún er einfaldlega Tel Aviv. Að vissu leyti minnir hún á svæði í kringum Los Angeles eða Barcelona. Mannlífið mótast að vissu leyti af nálægðinni við ströndina. Á shabbat hópast allir á ströndina og síðan nýtur fólk næturlífsins í miðborginni fram eftir morgni. Hérna virðist oft eingöngu búa ungt fólk – og borgin virðist að vissu leyti gerð fyrir ungt fólk.

* * *

Smá útúrdúr: Ég studdi Hillary Clinton í bandarísku demókrata forkosningunum, en er þó sæmilega sáttur við Barak Obama. Eftir því sem að leið á kosningabaráttuna varð ég þó alltaf spenntari og spenntari fyrir Hillary. En allavegana. Einsog flestir hér í Ísrael var ég spenntur fyrirAIPAC ræðunni hans og hún var að mörgu leyti mjög góð. Obama talaði um tímann sinn hér í Ísrael, heimsóknina á Yad Vashem (hann notaði hebreska orðið Shoa til að nefna Helförina) og hann lýsti yfir stuðningi við Ísrael og sjálfsagðan rétt Íslraelsríkis til sjálfsvarnar. En svo tókst honum að klúðra ræðunni með einum punkti þegar hann sagði að Jerúsalem yrði áfram höfuðborg Ísraels (gott) og að hún yrði óskipt (glórulaust). Með þessum eina punkti um það að Jerúsalem yrði óskipt, sem er fáránlegt að halda – því hún er mikilvæg borg fyrir Araba og að mörgu leyti mjög arabísk á stórum svæðum – missti hann aðdáun ansi margra í Mið-Austurlöndum. Óskiljanleg mistök, sem munu gera lítið til að auka stuðning Gyðinga við hann, en munu auka andúð Múslima.

* * *

Ég kann afskaplega vel við Ísraela, en þeir eru þó að mörgu leyti mjög ólíkir þeim Aröbum, sem ég hef kynnst í nágrannalöndunum og Palestínumönnum. Ég vissi alltaf að ég myndi losna við mína ísraelsku fordóma eftir smá tíma í sjálfu landinu. Einsog margir bakpokaferðalangar hef ég nefnilega ekki haft neitt sérstaklega góða reynslu af Ísraelum á bakpokaferðalögum. Það kann vel að vera vegna tímasetningarinnar á bakpoka-ferðalögum Ísraela, sem flestir fara í strax eftir herþjónustu, sem hlýtur að taka á sálina.

Allavegana, Ísraelar eru mun lokaðri en Arabar. Besta orðið, sem ég hef séð lýsa þeim er brusque. Flestir virka smá þurrir við fyrstu kynni, en það breytist þegar maður hefur kynnst fólkinu betur. Stelpurnar eru uppteknar af því að vera svalar og láta sem þeim sé sama um allt sem er í gangi í kringum þær – og flest ungt fólk virðist vera upptekið af því að líta út eins töff og mögulegt er. Þetta er mjög ólíkt Arabalöndunum þar sem maður hefur á tilfinningunni að allir vilji vera vinir manns. Ætli sú þjóð, sem líkist Ísraelum í viðhorfi einna best sé ekki… Íslendingar?

* * *

Hvað er ég búinn að gera í Tel Aviv gæti einhver spurt? Jú, ég ætlaði að fara á Diaspora safnið í morgun, en það reyndist lokað. Og jú, ég kíkti til Jaffa í smá stund, en ætli besta lýsingin sé ekki einfaldlega sú að ég hef notið lífsins. Gleymt því í smá stund að ég er túristi í ókunnu landi og einfaldlega notið góðrar helgi í Tel Aviv. Ég hef legið á ströndinni, lesið tvær bækur, horft á EM, drukkið bjór, kíkt á djammið – notið lífsins. Ég er búinn að gera nóg af því að túristast síðustu vikurnar. Ég hef séð nóg af rústum, nóg af söfnum og svo framvegis. Ég hafði alltaf ætlað mér að einfaldlega slappa af í Tel Aviv og það hef ég gert.

Hérna skín sólin og hitinn er passlegur. Ég veit að ég hef nánast ekkert talað um veðrið í þessari ferðasögu og ástæðan er einföld. Veðrið hefur verið nánast fullkomið. Og eftirfarandi segi ég án þess að ýkja hið minnasta. Ég hef ALDREI á þessum 6 vikum séð rigningu. ALDREI! Ég heyrði að það hefði rignt eina nóttina í Damaskus en það er allt og sumt. Og annað: Það hefur verið sól ALLA dagana. Hvern einn og einasta dag! Þetta er með ólíkindum magnað.

* * *

Á morgun á ég svo flug til London, þar sem ég ætla að vera í einn dag og á svo flug heim á miðvikudaginn.

Núna sit ég hérna inná netkaffihúsi ótrúlega sáttur við þessa ferð. Ég er enn með sand í eyrunum eftir dag á ströndinni, lykta af After Sun, orðinn ágætlega brúnn og mér líður afskaplega vel. Eina sem ég á eftir að gera er að setjast niður með bjór í kvöld og horfa á fótbolta. Það er ekki slæm leið til að enda tímann minn í Mið-Austurlöndum.

Skrifað í Tel Aviv, Ísrael klukkan 16.30

6 thoughts on “Mið-Austurlandaferð 17: Tel Aviv er Tel Aviv”

  1. Til að toppa þennan fína dag hjá þér vinna Hollendingar sofandi Ítali, öllum að óvörum. Það segir mér lítill fugl að þú sofnir ánægður í kvöld 🙂

  2. ég hlakka til dagsins þegar ég ferðast um þetta svæði. ég er farin að sjá ísrael fyrir mér á allt annan hátt en áður eftir að hafa lesið síðustu færslur.

  3. Já, ég sofnaði svo sannarlega sáttur þetta kvöld. Verst að ég fékk bara að sofa í þrjá tíma fyrir flugið. 🙂

    Kristín, hvað meinarðu með að þú sjáir þetta á allt annan hátt núna?

    Og ég ætla svoooo að blogga um þessa færslu sem að Kristján bendir á!

  4. ég hef svo oft staðið mig að því að tengja ísrael við eitthvað ótrúlega slæmt og tekið afstöðu með palestínumönnum. þessar færslur komu mér aðeins í skilning um ljósu punktana við landið, eins og þú nefndir að konur hafa það miklu betra þarna og það er stefnt á lýðræði. hafði gaman af því hvernig ég fór að hugsa um ísrael út frá öðru sjónarhorni og fannst rétt að láta þig vita.

Comments are closed.