Mið-Austurlandaferð 18: Endalok

Ég er kominn heim.  Kom í gærkvöldi með flugi frá London eftir að hafa eytt einum degi þar í að versla og hitta systur mína.

Er að henda myndunum inná tölvuna mína – þær eru sennilega hátt í þúsund talsins og því mun taka tíma að laga þær og flokka.  Þessa fyrir neðan tók ég í Wadi Rum eyðimörkinni í Jórdaníu.  Þarna er ég að horfa á sólsetur yfir eyðimörkinni, sem var gríðarlega fallegt (myndavélinni var stillt upp á steini – smellið til að sjá stærri útgáfu)

Horft á sólsetur í Wadi Rum

Þetta var frábær ferð. Sennilega besta ferðalag, sem ég hef farið í síðan ég ferðaðist með vinum mínum um Suður-Ameríku fyrir 10 árum. Algjörlega ógleymanlegir staðir, yndislegt fólk, ótrúlegur matur og frábært veður hjálpaði til við að gera ferðina svona vel heppnaða.

Hápunktarnir:

  • Sýrlendingar – Vinalegasta fólk, sem ég hef kynnst
  • Jerúsalem – ótrúleg borg með milljón merkilegum stöðum
  • Stelpur í Tel Aviv
  • Damaskus – yndisleg borg, sem að alltof fáir heimsækja. Umayyad moskan ein og sér nægir sem ástæða fyrir heimsókn, en þegar maður bætir við lífinu, fólkinu og matnum þá er það orðinn frábær pakki.
  • Götumatur í Ísrael – Shawarma laffa var það fyrsta sem ég lærði í hebresku. Ótrúlega góður matur, sama hversu veitingastaðirnir voru shabby.
  • Baalbek í Líbanon – Skemmtilegustu rómversku rústirnar
  • Petra í Jórdaníu – Ótrúlegar fornminjar

Þrátt fyrir að eiginlegri ferðasögu sé hér með lokið, þá á ég eftir að skrifa eitthvað meira um þetta ferðalag á næstu vikum.  Það eru nokkrar sögur ósagðar og svo langar mig líka til að skrifa um pólitík og trúmál tengd þessari ferð – og eins almennar ráðleggingar varðandi ferðalög til þessara landa. Hvort ég hef orku til þess að klára þau skrif veit ég ekki.  En ég mun allavegana setja inn myndir á næstu dögum eða vikum.

Það frábæra við þessi ferðalok er líka að mér líður ótrúlega vel við heimkomu varðandi mitt líf.  Eftir síðustu ferðalög hef ég alltaf komið heim fullur efasemda um það hvert ég er að stefna og hvort ég sé ánægður með mitt líf.  Það að vera úti í svona langan tíma einn gerir það auðvitað að verkum að maður hugsar mikið um sinn gang.  Oft hef ég því komið heim ákveðinn í að breyta öllu í mínu lífi.

En núna við heimkomuna er ég sáttur við hvert ég stefni.  Vinnan virðist hafa tilgang og ég sé hvert ég stefni þar.  Og í einkalífinu finnst mér hlutirnir líka vera á réttri leið.  Þannig að eina áhyggjuefnið við heimkomu er að ná af mér einu eða tveimur aukakílóum, sem fylgdu því að borða shawarma, endalaust af arabísku brauði og öðru góðgæti.  

Ég vona að þið hafið haft gaman af því að lesa þessar ferðasögu. Ég vona allavegana að mér hafi tekist að koma því á einhvern hátt til skila hversu frábært þetta ferðalag, þessir staðir og þetta fólk voru.

Takk.

Skrifað í Vesturbæ Reykjavíkur klukkan 23.14

18 thoughts on “Mið-Austurlandaferð 18: Endalok”

  1. Vildi bara þakka þér kærlega fyrir að deila þessu (og öllum hinum) ferðalagi með okkur sem kíkjum hingað inn 🙂
    Dáist að þér að leggja í svona langt ferðalag einn 🙂 vildi að ég hefði þor í þetta haha hlakka til að sjá restina af myndunum sem þú setur á netið.

  2. Hef verið mjög óduglegur við að kommenta við þessar færslur hjá þér, en hef samt lesið hvert einasta orð. Vel kominn heim – ég skil vel að þér hafi fundist þessi ferð stórkostleg. Ég hugsa að ég sé breyttur bara af því að lesa færslurnar úr ferðinni hjá þér, hvað þá þú sjálfur sem fórst út og allt. 🙂

  3. Ég trúi ekki að besta shawarmað sé í Ísrael! En vonandi að þetta verði til þess að Serrano-Síam veldið bæti við arabískum shawarma stað við. Og bjóði upp á almennilegan hummus (sem bragðast ekki einsog Smörvi!!) og babaganush og falafel… Af hverju fær maður hvergi almennileg falafel hérna?? Fjórða conceptið má svo endilega vera beyglustaður, svona New York Deli… Plís, Einar, PLÍÍÍÍÍÍÍS!!!

    🙂

  4. Takk takk, búið að vera mjög gaman að lesa um löndin og þjóðirnar sem að þú hefur heimsótt. Vakti minn áhuga á mörgu.
    Verður gaman að fá myndir við staðina.
    Takk enn & aftur 🙂

    Nema

  5. ótrúlega skemmtilegt, fékk fyrir hjartað þegar ég las færsluna þína 9 júní þar sem þú værir að fara heim á morgun (minnir mig) þar sem ég hefði lesið 3 mínútum fyrr um risa flugslys sem varð í Súdan þann 10. …. tók mjög langan tíma að átta mig á hvar þú værir í heiminum. En velkomin heim og ég hlakka til næstu reisu hjá þér.

    kveðja
    Maja

  6. Já, takk fyrir þessar skemmtilegu sögur Einar. Þú lést mig byrja að lesa um sögu þessara landa strax eftir að ég las færslurnar þínar.

    Þú ert sem sagt ekki bara að skemmta heldur einnig að fræða og vekja áhuga.

    kv
    Gylfi

  7. Velkomin heim…

    Þér tókst svo sannarlega að rífa mig útúr hversdagsleikanum með frábærum lýsingum á ferðalagi þínu.

    Farðu bara aftur og farðu sem oftast! Nei, djók. -gott að fá þig heim…og ekki síst þar sem þú komst með sólina með þér í handfarangrinum…þá er nú ekki annað hægt en að vera sáttur.

  8. Velkominn heim!

    Þetta ferðablogg þitt er búið að vera alveg fáránlega skemmtilegt og er ég búin að vera dyggur lesandi 🙂

  9. Hæ Einar 😉

    Takk fyrir ad vera svona duglegur ad skrifa, thad er gaman ad geta lesid um aefintyrin thin og ég hlakka til ad sjá meira af myndum 🙂

    Langt sídan ég sá thig, ég vona ad thú hafir thad gott og allt gangi vel hjá tér 😉

  10. Takk takk fyrir frábæra pistla, þú ert frábær penni og náðir að lýsa þessu á mjög skemmtilegan hátt, allavega las ég pislana alla upp til agna.
    Velkomin heim.
    kv
    Kolla

  11. Velkominn heim,..

    Ferðasögurnar voru skemmtilegar og mér leið eins og ég væri á ferðalagi með þér. Fór alltaf heim og sagði ferðasögur af Einari fyrir svefninn. Nú tekur við annað ævintýri á heimaslóðum og síðar landvinningar á erlendri grund. Hlakka til að lesa “the uncut version”.

    Borgþór

  12. Þú ert greinilega á réttri hillu í lífinu þegar þú ferðast. Bestu þakkir fyrir að deila öllu þessu með almúganum sem situr heima fyrir framan tölvuna og lætur sig dreyma…
    Es. Skil manna best þetta með kaffið en ég veit ekki hvaðan þú ætlar að taka þessi tvö aukakíló?

Comments are closed.