Breytingar

Um helgina kláraði ég að flytja úr íbúðinni minni í Vesturbæ Reykjavíkur. Með því má segja að ákveðnu skeiði í mínu lífi sé lokið.

Ég flutti inná Hagamelinn árið 2002. Ég hafði upphaflega valið þessa íbúð með fyrrverandi kærustu minni og ætluðum við að flytja þar inn eftir að við kláruðum háskólann í Bandaríkjunum vorið 2002. Þau plön flugu útum gluggann þegar að við hættum saman stuttu fyrir útskrift. Ég byrjaði fljótlega með annari stelpu útí Bandaríkjunum en það samband átti svosem ekki mikla möguleika þar sem ég var á leiðinni heim úr námi.

Í lok júlí 2002 flutti ég svo heim til Íslands. Íbúðin á Hagamel var þá í tímabundinni útleigu þannig að í ágúst mánuði það ár bjó ég heima hjá mömmu og pabba. Það var ekki góður tími. Ég var í ástarsorg og kominn aftur heim til mömmu og pabba, sem var ekki beint góð tilfinning þegar að ég var orðinn 25 ára gamall. Auk þess var óvissan í kringum Serrano mikil. Upphaflega planið var að komast inní Smáralind (þar sem núna er Burger King) en Smáralindarmenn drógu lappirnar lengi vel og á endanum var okkur hafnað og þeir ákváðu að bíða eftir komu Burger King. Allan þennan ágúst mánuð var ég því mest heima hjá mömmu og pabba, bíðandi eftir svari frá Smáralind sem var svo að lokum neikvætt.

Í byrjun september 2002 flutti ég svo loks inní íbúðina við Hagamel og stuttu seinna sömdum við við Kringluna um fyrsta Serrano staðinn.

* * *

Ég bjóst svosem aldrei við að vera svona lengi á Hagamel og það er á vissan hátt gott að komast þaðan. Í þessari íbúð hef ég upplifað ansi mörg sambönd við stelpur og það má segja að með tímanum hafi mér hætt að þykja vænt um íbúðina. Ég fór að tengja hana alltof mörgum minningum, sem voru ekki endilega góðar.

Stuttu eftir að við opnuðum Serrano tók ég svo að mér markaðsstjórastarf hjá Danól, sem ég var í í nærri því þrjú ár. Þegar að var farið að líða á ár númer 2 í því starfi var ég þó orðinn verulega óánægður með það hvert mitt líf stefndi. Ég vissi að ég sá mig ekki áfram í því starfi og ég var orðinn óánægður á Íslandi. Mér fannst vinirnir vera að fjarlægjast mig með hverju árinu. Allt í kringum mig var fólk að eignast börn og áhugamál vina minna fjarlægðust mín með hverju árinu. Ég treysti því æ meira á sambönd við stelpur og því fór það meira og meira í taugarnar á mér þegar ég var á lausu.

Það má þó segja að nokkur tímamót hafi orðið haustið 2006 í ferð minni til Suð-Austur Asíu. Þar var ég nýkominn útúr sambandi við stelpu og hafði ansi langan tíma til að hugsa minn gang og hvert ég væri að stefna í þessu lífi. Ég komst að því að ég var ekki sáttur við sjálfan mig og ákvað að reyna að breyta hlutunum.

* * *

Það fyrsta var að átta mig á því að vinir mínir myndu ekki breytast. Þeir höfðu einfaldlega þroskast í aðra átt og það var til lítils að pirra mig á því, heldur þyrfti ég einfaldlega að gera eitthvað til að reyna að kynnast nýju fólki. Það má segja að það hafi tekist því að ég eignaðist mjög fljótlega frábæra vinkonu og svo kynntist ég fulltaf nýju og skemmtilegu fólki, sem að ég umgengst í dag. Allt þetta ár hef ég verið svo miklu hamingjusamari með mitt líf að það er í raun ótrúlegt.

Það sem ég ákvað líka í þessari Suð-Austur Asíuferð var að ákvörðun mín um að hætta hjá Danól hefði verið rétt og að ég yrði sennilega aldrei sáttur við mína vinnu nema að við myndum reyna fyrir okkur með Serrano í útlöndum. Við Emil höfðum rætt um þá möguleika allt frá fyrsta degi, en það má segja að eftir þessa ferð hafi farið af stað alvöru vinna í þá átt. Mér var allavegana alltaf ljóst að ég yrði aldrei fullkomlega ánægður með að reka Serrano “bara” á Íslandi.

Í mars á þessu ári hætti ég svo sem framkvæmdastjóri Serrano og Síam á Íslandi og Emil tók við þeirri stöðu af mér. Ég hef síðan einbeitt mér að því að koma á fót Serrano í útlöndum.

Fljótlega eftir að pælingar okkar um útrás byrjuðu þá ákváðum við að Svíþjóð væri hentugur kostur. Bæði er Stokkhólmur borg, sem ég get hugsað mér að búa í, og einnig fannst okkur markaðsaðstæður þar á veitingamarkaði henta ágætlega fyrir Serrano. Við Emil komum hingað í lok maí í fyrra og þar má segja að mér hafi endanlega tekist að sannfæra hann um að útrás væri vel möguleg og að Svíþjóð væri frábær kostur.

Síðan þá höfum við verið í samskiptum við ráðgjafafyrirtæki sem hefur hjálpað okkur við að finna mögulegar staðsetningar fyrir Serrano í Stokkhólmi. Sú vinna gengur ágætlega en hún tekur líka tíma. Í dag og í gær höfum við svo verið á fundum með hinum ýmsu aðilum varðandi mögulegar staðsetningar í borginni. Það er ekkert klárt með það ennþá, en þetta lofar góðu.

* * *

Þannig að á næstu vikum eða mánuðum mun ég flytja til Svíþjóðar til að reyna að fylgja þessu verkefni eftir. Það er dálítið furðulegt því að mörgu leyti hef ég sjaldan verið jafn ánægður með mitt líf heima á Íslandi. Ég er búinn að kynnast frábærri stelpu og fulltaf öðru skemmtilegu fólki. Fyrirtækið gengur vel og það er ótrúlegt að bera það saman í dag við það fyrirtæki sem ég byrjaði hjá í fullu starfi fyrir rétt tæpum tveimur árum.

En Serrano mun semsagt á næstu mánuðum opna sinn fyrsta stað í Stokkhólmi. Það er ótrúlegt að hugsa til þess en í dag er þetta sennilega ekki lengur spurning um hvort heldur hvenær.

*Skrifað í Stokkhólmi, Svíþjóð klukkan 16.30*

20 thoughts on “Breytingar”

  1. Æ-i já – gaman að lesa! Án þess að ætla að hljóma of væmin þá held ég samt að okkur verði stundum að líða illa til að geta notið þess að líða vel. Því í vandamálunum leynast oft tækifæri!
    Til hamingju með útrásina, stelpuna, vinina og allt hitt sem á eftir að ganga vel!
    Kudos

  2. Oh, frábært, til hamingju! Ég er samt mest svekkt yfir því að þið hafið ekki ákveðið að koma til Cambridge hehe…

  3. Góð og hreinskilin færsla. Gott að sjá að þú ert ánægður og til hamingju með það.
    Er það svo ekki Osló næst? Þar sem ég dvel þar að meðaltali eina viku í mánuði, alein, hef ég örugglega hugsað það svona sirka trilljón sinnum, hvað það væri nú mikið æði að geta skroppið á Serrano og fengið sér fahitas burrito.. enda besti skyndibiti í heimi 🙂
    Gangi þér vel.

  4. “Um helgina kláraði ég að flytja”

    uuhhh klárlega ýkjur dagsins!

    En færslan er fín og ég er stolt af þér að láta draumana rætast 🙂

  5. Takk! 🙂

    Og jú, ef allt gengur upp, þá væri Osló ekki slæmur kostur. En ég ætla ekki alveg að tapa mér í yfirlýsingunum strax.

  6. virkilega góð færsla..
    frábært hvað þú hefur aldrei staðnað og virkilega farið á eftir draumunum..
    & alveg kominn tíma á blessss á hagamelinn ;p
    ég hlakka til að heimsækja þig til Svíþjóðar:)

  7. ég fór á serrano áðan og það voru 11 í röðinni en 1 á subway;)

    hlakka til að heyra um svíþjóðarævintýrið elsku netkæró!

  8. Ég hef lesið bloggsíðuna þína mánuðum saman. Niðurstaða mín er sú að þú sért alkóhólisti í afneitun og sennilega samkynhneigður. Þó geri ég mér grein fyrir því að þú munt, eins og sakir standa, taka þessum skilgreiningum fjarri.
    Samkvæmt bloggi þínu eru allar konur ómögulegar og alltaf ertu að jafna þig eftir fyllerí eða að bjarga sjálfum þér frá fylleríum. Þetta er harður heimur Einar Örn…þar til þú hefur viðurkennt sjálfan þig sem homma og gengist við sjúkdómi þínum.

    Alúðarkveðjur
    -Gulli netvinur

  9. Fannst þetta ekki flott hjá þér að skrifa þetta Gunnlaugur …. Og Einar ef þú varst ósáttur við þetta þá áttiru bara ekkert að svara honum, fannst þetta ljótt og nasty…

    Það sem ég þekki af Einari það er nú voðalega lítið en ég veit eitt, drengurinn er svakalega feiminn haha og fljótur að roðna =Ö)

    En Einar hafðu það gott í Svíþjóð og vonandi líður þér sem allra best =)

  10. hahah – ég tók þessu sem gríni – var það ekki svo?

    E-r fyndinn vinur? Ef ekki þá á viðkomandi bágt…!

  11. Ekki svo ég viti. Ég allavegana þekki engan Gunnlaug.

    En allavegana, bæði kærastan mín og meðeigandi minn á Serrano hlógu upphátt að þessu, þannig að þetta er nú ekki mikið mál. Mér fannst þetta allavegana ágætlega fyndið.

  12. Frábært, til lukku báðir tveir. Sendi familíuna mína sem býr þarna fyrir utan Stokkhólm pottþétt til ykkar til að prófa ÞEGAR þið opnið.

    Og ég öfunda þig nett að fá að búa í Stokkhólmi, flott borg. Var einmitt líka pínu forvitin að vita hvert förinni væri heitið úr frábæra Hagamelnum (ég elska amk þessa götu og þetta hverfi).

    Bara zzzpennandi, eins og ég hef sagt þér, hef bullandi trú á ykkur með þetta verkefni til frambúðar.

Comments are closed.