Ég er búinn að vera heima hjá mér í allan dag að reyna að jafna mig eftir nefaðgerð, sem ég fór í í gær.
Það hefur lengi angrað mig að miðnesið í nefinu er svo hræðilega skakkt að það hefur veruleg áhrif á öndun. Ég er lengi búinn að draga það að gera eitthvað í málinu, en í febrúar ákvað ég að fara til læknis til að skoða þetta. Hann bókaði mig strax í aðgerð, en af einhverjum ástæðum komst ég ekki að fyrr en í gær. Ég fór því á Borgarspítalann þar sem ég var svæfður og miðnesið lagað í um klukkutíma langri aðgerð.
Ég vaknaði eftir aðgerðina verulega ruglaður í hausnum og nokkuð kvalinn. Fékk þá morfín í æð, sem er einhver al magnaðasta tilfinning, sem ég hef upplifað. Dofnaði allur upp og verkurinn í hausnum hvarf á fáránlega skömmum tíma – einhverjum sekúndum. Eftir að hafa verið í einhverja tvo tíma í “vöknunarherberginu” var mér svo skutlað niður. Hjúkkan sagði mér að þrífa blóðið aðeins úr andlitinu og fá mér vatn, sem heppnaðist ekki betur en svo að það leið yfir mig við vaskinn. Vaknaði á gólfinu með tvo hjúkrunarfræðinga yfir mér.
Svo var ég þarna að jafna mig alveg þangað til kærastan mín kom að sækja mig.
Það þarf kannski ekki að taka það fram, en mikið ofboðslega er gott starfsfólk á þessu sjúkrahúsi. Það er nokkuð mögnuð tilfinning að láta stjana svona við sig af fleiri fleiri starfsfmönnum á spítalanum. Ég, sem hef verið nokkuð frískur alla ævi, hef ekki lent í því áður.
* * *
Nóttin var vissulega hræðileg, en mér líður talsvert betur núna. Er búinn að hanga í tölvunni, lagandi myndir, skoðandi blogg og slíkt. Hef líka aðeins reynt að fylgjast með því sem er að gerast í vinnunni.
Ég tók mig til og setti inn myndirnar frá Vesturbakkanum. Á þessari mynd er ég í Nablus á Vesturbakkanum.
Það þýðir að ég er næstum því búinn að setja inn allar myndirnar frá Mið-Austurlandaferðinni. Núna er bara Ísrael eftir. Ferðasögurnar frá Palestínu eru hér: [Punktar frá Palestínu](http://eoe.is/gamalt/2008/05/28/19.34.40/) og [Jeríkó](http://eoe.is/gamalt/2008/05/27/16.51.21/).
Ég fór í miðnesisaðgerð líka fyrir ca 5 árum, alveg ótrúlega mikill munur – get ekki sagt að þetta sé neinn unaður á meðan á því stendur samt! En að fara úr 35% súrefnisnýtingu m.v. það sem eðlilegt er, er mikill munur – sérstaklega ef maður þykist vera söngvari.
Er ekki merkilegt að fólk fer í nefaðgerðir sér til gamans?!?
Það var nú kominn tími til að þú lagaðir þetta skelfilega miðnes! Nú er bara að láta setja sílikon í rasskinnarnar og þá ertu orðin fínn!
Kv. Borgþór
Gaman að heyra, GeimVEIRA. Ég er að verða verulega pirraður núna á fjórða degi. Á að losna við þetta drasl úr nefinu á mér á morgun.
Og já, rass-aðgerðin hlýtur að vera næsta skref, Borgþór.