Ég er kominn inní nýju íbúðina mína á Södermalm í Stokkhólmi. Þessa íbúð er ég að leigja af Svía í 6 mánuði. Hann ætlar að eyða vetrinum í Indónesíu á brimbretti á meðan að ég ætla að reyna að eyða tímanum í að setja upp Serrano stað hérna í borginni.
Mér líður hálf skringilega að vera að reyna að koma mér fyrir hérna. Ég er búinn að heimsækja Stokkhólm það oft undanfarin ár að ég er farinn að þekkja borgina ágætlega, en það breytist ansi mikið þegar maður er kominn með eigin íbúð og þarf að versla í matinn og láta einsog maður eigi heima hérna. Ég er búinn að fylla ísskápinn af eggjum og öðrum matvörum sem mér finnst vera nauðsynlegar og ég er búinn að kaupa mér líkamsræktarkort fyrir næstu mánuðina, þannig að helstu nauðsynjar eru komnar.
Ég ætla að eyða vikunni hérna í Stokkhólmi á ýmsum fundum. Bæði með hugsanlegum birgjum, sem og auglýsingastofum og aðilum, sem gætu hjálpað okkur að byggja fyrsta staðinn okkar.
Ástandið á Íslandi hefur valdið því að við höfum þurft að hugsa suma hluti öðruvísi. Við vorum fyrir löngu búnir að fjárfesta það miklum fjárhæðum í þetta verkefni að það hefði verið of dýrt að hætta við, en við höfum þurft að aðlaga okkur. Eitt af því er að við munum til dæmis láta framleiða afgreiðsluborðið heima og svo flytja það tilbúið út til Svíþjóðar. Það sparar auðvitað gjaldeyri og skapar vinnu heima fyrir auk þess sem þetta var eiginlega eina leiðin til þess að klára borðið fyrir opnun hérna úti.
* * *
Ég hélt uppá afmælið mitt ásamt meðleigjendunum mínum tveimur á Njálsgötunni á föstudaginn. Við ákváðum að sameina afmælin okkar og það var svo sannarlega vel heppnað. Við héldum það í sal útá Seltjarnarnesi og það var meiriháttar stuð þar sem að yfir 100 manns komu. Við dönsuðum þar til þrjú og kíktum svo í bæinn eftir það. Á laugardaginn fórum við Margrét svo í innflutningspartí þar sem við vorum ekki alveg jafn hress og kvöldið áður.
Annars er veðrið hérna í Stokkhólmi fínt og mér líst bara nokkuð vel á framhaldið hérna í Svíþjóð. Bjartsýna áætlunin er núna að opna fyrsta staðinn okkar 1.desember. Til þess að það takist þarf þó eitthvað að breytast í gjaldeyrismálum heima. Ef þau mál leysast á næstu tveim vikum ætti það þó vonandi að ganga.
Skrifað í Stokkhólmi, Svíþjóð klukkan 21.03
Gangi þér æðislega vel í Stokkhólmi, Svíarnir eru ekkert smá heppnir að geta bráðum borðað á Serrano 🙂
Ég hlakka ekkert smá til að sjá þetta allt… Er orðin mega spennt eftir þennan lestur.
Mér finnst smart að hefja útrás núna. Baráttukveðja!
Takk 🙂
spennó!!!
og flott að lækka hjá síam, nú vantar bara síam í reykjavík;)
Gangi þér rosa vel úti!!
tek undir að það var gott framtak að lækka hjá Síam:)
Tek undir það að lækkunina Síam, ekki undir hækkunina hjá Serrano:)
Já, það eru ólíkar aðstæður á þessum stöðum.
Á Síam gátum við leyft okkur að lækka verðið, þar sem álagningin þar var hærri fyrir. Á Serrano er álagningin oná hráefnið hins vegar svo lág að við þolum illa hækkanir á aðföngum, sem hafa skollið á hver á fætur annari síðustu vikur.
Ég verð nú að segja að þessi lækkun á Síam var nú ekkert til að hrópa húrra fyrir, held að staðurinn sé enn sá dýrasti á landinu með tælenskan götumat(eins og þú kallar þetta sjálfur). T.d. er Krúa Thai í miðbæ RVK með flesta rétti á 1100-1300 og ekki er það slakur staður. En þess má nú geta að Krua Thai er með vandaða tælenska rétti sem þú finnur bara á veitingahúsum í Tælandi, allavega samkv. minni reynslu þá er götumaturinn þar frekar einfaldari og meira óspennandi.
Siam er engu að síður með mjög góðan mat og enginn hætta á að vera svikinn þar. Eina sem er að er að staðurinn er í ekki í sama verðflokki og aðrir tælenskir staðir í sama gæða flokki.
Að mínu mati eru gæði réttana á Síam þrepi fyrir ofan Krua Thai, þótt að mér þyki sá staður vissulega góður (og hef skrifað um það oftar en einu sinni á þessari síðu). Sósurnar á Síam eru vanalega bragðsterkari (berðu t.d. saman panaeng eða ostrusósu) og við notum einnig hærri klassa af kjöti en þar. Einnig er meira kjöt í réttunum á Síam en á Krua Thai.
En það er auðvitað smekksatriði og ég ætla svo sem ekki að standa í þrætum við fólk, sem er mér ósammála um það.
Varðandi það að þessi lækkun hafi ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir…
Við keyptum staðinn fyrir rúmu ári og höfum ekki breytt uppskriftunum neitt. Við vorum vissulega í vandræðum í byrjun að ná nákvæmlega sömu gæðunum og áður, enda var staðurinn keyrður af einum kokki, sem var ekki auðvelt að læra öll handbrögð af. En allavegana, við keyrum á nákvæmlega sama gæða hráefni og það eina sem við gerðum var að auka magn af kjöti í sumum réttum.
Þegar við keyptum staðinn í júlí í fyrra kostaði t.d. kjúklingur í Massman 1790 krónur í take-away. Í dag kostar sami réttur 1.490. Það er 17% lækkun. Ef þú finnur önnur eins dæmi um verðþróun á Íslandi á þessu sama tímabili, þá mun ég svo sannarlega hrópa húrra fyrir því.