Helgin, Zapatero og hræðsluáróður

Það er magnað hvað mér tekst alltaf að fokkar upp allri rútínu þegar ég fer út fyrir landsteinana. Allt mataræði, líkamsrækt, etc fer í algjör royal fokk. Ég þarf alltaf nokkra daga til að koma mér á rétta braut.

Ég átti mjög góða helgi samt. Gerði reyndar ekkert voðalega mikið eða merkilegt. Lá í leti heima á föstudagskvöldið og það stefndi allt í það að eins yrði á laugardeginum. En þá heyrði ég í einum vini mínum og við ákváðum að hittast. Þannig að ég drakk eitthvað af þessum vodka-birgðum sem ég á uppí skáp og svo kíktum við á Ölstofuna þar sem við hittum fullt af skemmtilegu fólki og þaðan fórum við á 11-una, þar sem við skemmtum okkur konunglega þar til að staðnum var lokað.

Sem gerðist eftir klukkan 6 þannig að ég eyddi mestöllum sunnudeginum sofandi. Kíkti svo um kvöldið á tónleika á Nasa þar sem að Guffi, sem er með mér í stjórn UJR, spilaði með hljómsveitinni sinni For a Minor Reflection. Kíkti svo á Thorvaldsen eftir tónleikana.

* * *

 

Ég skrifaði stutta færslu inná UJR.is, þar sem ég fjalla um farsakenndan hræðsluáróður þeirra sem voru á móti aðild Íslands að EES. Nokkrir eru farnir að nota sömu rökin í baráttu sinni gegn væntanlegri ESB aðild okkar.

* * *

Hérna er mikið magn af efni með Leoncie. Mjög hressandi!

* * *

Zapatero vann á Spáni. Það eru frábærar fréttir!

Já, og hérna er algjörlega æðislegt lag með hljómsveit með stórkostlegt nafn:  Dark end of the street með The Flying Burrito Brothers.

Enjoy the Silence

Þetta er flottasta auglýsing, sem ég hef séð á þessu ári:

Sá þetta á undan Juno í bíó í Stokkhólmi á fimmtudaginn. Aðalástæðan er auðvitað notkunin á laginu Enjoy the Silence með Depeche Mode, sem er eitt af mínum uppáhaldslögum. Þessi auglýsing gerði það einmitt að verkum að ég hef hlustað á [þetta æðislega lag](http://youtube.com/watch?v=X0Hez25fFrg) nánast stanslaust síðan ég kom heim frá Stokkhólmi.

Jæja, ég ætla að reyna að gera mig sætan og kíkja svo út. Ómögulegt að hanga inni á laugardagskvöldi.

Serrano #4 í Hafnarfirði

Það er nóg að gerast hjá okkur á Serrano. Salan á þessu ári hefur verið ótrúlega góð og aukningin frá því í fyrra mikil þrátt fyrir það að árið í fyrra hafi verið algjört metár.

Allavegana, í næsta mánuði ætlum við að opna fjórða Serrano staðinn og hann verður við Dalshraun í Hafnarfirði. Einsog lesendur þessarar síðu vita þá keyptum við taílenska staðinn Síam síðasta haust. Sá staður var í talsvert stærra húsnæði en var nauðsynlegt og ákváðum við því að breyta húsnæðinu talsvert. Við ákváðum að minnka Síam aðeins og að taka allt plássið við hliðiná Síam og setja þar Serrano stað.

Þessar framkvæmdir eru núna komnar á fullt. Á Síam verður áfram pláss fyrir 25 manns í sæti og svo mun sá staður leggja meiri áherslu á take-away mat. Á Serrano verður svo pláss fyrir 30 manns í sæti. Framkvæmdirnar hófust fyrir rúmum 10 dögum og við stefnum á að opna staðinn í byrjun apríl. Það verður væntanlega eitthvað minna stress í tengslum við opnunina heldur en var í kringum Smáralindina.

Hérna er mynd, sem ég tók núna áðan á leið heim af flugvellinum. Þarna á afgreiðslan að veraOg á seinni myndinni er svo bekkur sem verður eftir einum veggnum og snýr að útganginum. Búið er að leggja parketið á vegginn, en enn á eftir að klára aðra veggi, gólf, loft og flest annað. Sjá fleiri myndir [hér](http://www.flickr.com/photos/einarorn/sets/72157604063325810/).

Staðurinn verður með mjög svipuðu útliti og Smáralindin, þannig að hann verður væntanlega mjög glæsilegur. Hafnfirðingar geta því loksins keypt almennilegt burrito í bænum sínum frá og með næsta mánuði. 🙂

Kvöld í Stokkhólmi

And through it aaaaaaaaaaaaall she offers me protection…

Þetta lag á sennilega það sem eftir er að minna mig á ákveðna stund á ákveðnum stað í Liverpool borg með vinum mínum. Mjög skondið móment, sem rifjaðist upp fyrir mér yfir kvöldmatnum þegar þetta var spilað á veitingastaðnum.

* * *

Þegar ég ferðast einn, þá geri ég oft fulltaf hlutum sem ég elska en geri samt aldrei á Íslandi. Fínt dæmi er gærkvöldið. Þá fór ég útað borða á sæmilegum veitingastað, pantaði mér steik og hálfa rauðvín og drakk flöskuna með matnum um leið og ég las nokkra kafla í frábærri bók. Þetta var æðislegt!

Heima á Íslandi geri ég aldrei svona hluti. Stundum finnst mér æðislegt að vera einn með sjálfum mér, en heima er maður af einhverjum ástæðum hræddur við að vera einn utan heimilisins. Kannski vill maður ekki líta furðulega út. En það er samt sem áður staðreynd að kvöld einsog gærkvöldið eru svo miklu skemmtilegri en sum kvöldin sem maður á heima hjá sér, liggjandi í leti fyrir framan sjónvarpið.

* * *

Var að lesa Bush Falls eftir Jonathan Tropper, sem skrifaði líka How to talk to a widower. Einsog sú bók er Bush Falls æði. Uppáhalds-samtalið mitt í bókinni er milli Joe, söguhetjunnar (34 ára) og Jared, 18 ára frænda hans. Joe byrjar:

>What about the window girl?
Kate.
Kate. You think you’ll talk to her anytome soon?
I don’t know. As frustrating as it is, there’s something nice about this stage.
She doesn’t know you exist. I don’t think you can legally call that a stage.
I know. But I haven’t fucked anything up yet.
Point taken.

Jamm.

* * *

Í kvöld var ég á pöbb og horfði á bæði Arsenal og Man U komast áfram í Meistaradeildinni. Ég er með ofnæmi fyrir báðum liðum. Ég hefði frekar átt að vera heima, baðandi sjálfan mig í sýrubaði fullu af nöglum, hlustandi á Celine Dion.

Það hefði verið skemmtilegra.

Lost og fleira

Fyrir þá, sem eru einsog ég og ná sér í nýjasta Lost þáttinn nokkrum klukkutímum eftir að hann er sýndur í Bandaríkjunum, þá er hérna [afar athyglisverð kenning um það hvernig að þættirnir fjalli í raun um tímaferðalög](http://timelooptheory.com/the_timeline.htm) (nota bene, ef þú ert ekki kominn að nýjasta þættinum þá mun þessi síða rústa öllu fyrir þér). Síðasti þáttur um Desmond ýtir stoðum undir þessa kenningu. Ég er búinn að lesa þetta síðasta klukkutímann og þetta er skemmtilegt lesefni fyrir Lost nörda á sunnudagsmorgni. (via [Fimoculous](http://www.fimoculous.com/))

* * *

Af hverju er ég vakandi og hress svona snemma á sunnudegi? Jú, ég fór heim af djamminu í gær klukkan tvö sérstaklega til að hafa orku til þess að fara á skíði í dag. En svo er bara brjálað hvassviðri í Bláfjöllum og því planið fyrir daginn farið útum gluggann. En fótboltagláp er svo sem ekki slæmur kostur.

Ég var á [málþingi hjá UJ](http://ujr.is/2008/03/01/94/) í gær sem var bæði virkilega fjölmennt og mjög skemmtilegt. Ég fylgdist með umræðum um ESB mál, en einnig voru innflytjendamál rædd í annarri málstofu. Fyrirlestrarnir um ESB voru góðir og sérstaklega flutti Aðalsteinn Leifsson, lektor í HR, frábært erindi um hið stóra hlutverk ESB.

Við Íslendingar gleymum því nefnilega oft að ESB snýst hvorki um sjávarútvegsmál né okkar eigið rassgat, heldur að skapa og útbreiða pólitískan stöðugleika, sem var í raun nánast óhugsandi fyrir 60 árum. Jón Þór Sturluson og Ágúst Ólafur komu svo inná aðeins praktískari málefni í sínum erindum um evruna og lýðræði innan ESB. Þessi fundur var ekki til að minnka sannfæringu mína um að það er hreinasta glapræði fyrir okkur Íslendinga að taka ekki upp aðildarviðræður við ESB strax.

Einnig kom Aðalsteinn og spyrjendur útí sal ágætlega inná það sem ég held að sé helsta ástæða fyrir því að fólk er á móti ESB. Ég tel sjálfur að fyrir því séu nokkrar ástæður. Fyrst er það að forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa verið á móti aðild. Um leið og þeir skipta um skoðun, þá held ég að flokkurinn muni breytast í allsherjar ESB flokk. Ég tel nefnilega að í Sjálfstæðisflokknum sé tiltölulega lítill hópur, sem er virkilega á móti aðild og hefur sá hópur sig afskaplega mikið í frammi. Svo held ég að meginþorrinn sé fólk einsog þeir Sjálfstæðismenn sem eru í kringum mig. Fólk, sem sér voðalega lítið mæla gegn aðild, en fylgir oftast flokkslínunni vegna þess að það treystir forystumönnum flokksins. Ég tel að ef að forystumenn íhaldsins byrjuðu að tala vel um ESB, þá myndi flokkurinn fljótt breytast. Og þá munu Moggabloggararnir sem froðufella yfir landráðamönnum einsog mér vakna upp sem lítill minnihlutahópur í stórum ESB flokki.

Önnur ástæðan, sem má varla tala um, er að mínu mati þjóðremba. Við teljum okkur vera betri en önnur lönd. Við teljum (einsog ég hef heyrt marga Sjálfstæðismenn halda fram) að við sem framleiðum örsmátt brot úr prósenti af öllum gæðum heimins getum einhvern veginn náð betri viðskiptasamningum við lönd utan ESB en ESB sjálft. Við teljum okkar kerfi vera betra, að við höfum náð einhvers konar fullkomnu ástandi með EES samningnum. Við teljum að íslenskir ostar séu þeir bestu og að íslensk kjúklingabú séu á einhvern hátt betri en dönsk og að ESB aðild muni á einhvern hátt leggja allt íslenskt í rúst. Og við viljum enga Spánverja veiðandi fiskinn okkar, þrátt fyrir að við stöndum sjálf í því að ryksuga miðin útaf ströndum Afríku.

Ég upplifi mig hins vegar að stóru leyti sem Evrópubúa. Ég held að dvöl mín í Bandaríkjunum hafi gert það að verkum. Eins mikið og ég elska Bandaríkin og Bandaríkjamenn, þá tel ég einfaldlega að þær hugsanir og gildi sem ríki í Evrópu séu svo miklu nær mínum eigin. Og mig langar að vera hluti af einhverju stærra. Mér finnst frábært að vera Íslendingur og það mun aldrei breytast. En mig langar líka að vera hluti af einhverju stærra. Einsog Aðalsteinn sagði, að geta fundið til meiri samkenndar við aðra Evrópubúa. Að ég eigi smá hluta í Alpafjöllunum og ströndunum á Spáni. Við erum Evrópubúar og við ættum að mínu mati að vinna eins náið með öðrum Evrópubúum og við getum. Besta leiðin til þess er að ganga í Evrópusambandið.

* * *

Eftir þingið fór ég svo í partí á 7-9-13 þar sem fulltaf skemmtilegu fólki var samankomið. Ég og einn vinur minn færðum okkur svo yfir á Vegamót þar sem við vorum til 2 með skemmtilegu fólki er ég ákvað að koma mér heim til að vera hress fyrir skíðaferðina sem ekkert varð úr. Ég átti fullt af fróðlegum samræðum um pólitík og líka um áhrif þessarar bloggsíðu á mitt einkalíf. Það samtal verðskuldar eiginlega sjálfstæða færslu sem fer væntanlega í hóp með þeim milljón færslum sem ég hef lofað að skrifa á þessari síðu.

* * *

Á morgun er ég á leið til Stokkhólms þar sem ég verð fram á föstudag. Mér tókst því ekki að klára ferðasöguna frá Liverpool ferðinni fyrir þá ferð. Ó jæja.

See you soon

Í kjölfar Whitesnake færslunnar frá því í gær, þá ætla ég að gera heiðarlega tilraun næstu daga til að benda á lög, sem mér finnst vera góð og tengjast mér á einhvern hátt.

Hérna er uppáhaldslagið mitt með Coldplay

Nú er það mikið í tísku að dissa Coldplay, en ég hef ávallt verið veikur fyrir þessu bandi. Katie, fyrrverandi kærasta mín, kynnti mig fyrir þessu lagi en það hefur aldrei komið út á plötu svo ég viti Katie er snillingur og var alltaf að kynna fyrir mér nýja hluti – það var kosturinn við að vera með stelpu, sem var svona ótrúlega ólík mér. Hún kynnti mig fyrir nýjum bókum, nýrri tónlist, nýju fólk og samdi um mig ljóð, sem að snertu mig meira en nokkrar bækur eða lög höfðu áður gert. Bæði góð ljóð um góðu tímana og líka hræðileg ljóð um það hversu mikill asni ég gat verið.

Þegar ég kom heim til Íslands gaf hún mér Grace með Jeff Buckley, sem ég hlustaði á miljón sinnum og svo stuttu seinna kynnti hún mig fyrir þessu lagi með Coldplay. Ég ætlaði á tímabili að loka mig af og bíða bara eftir henni líkt og í laginu:

In a bullet proof vest
With the windows all closed
I’ll be doing my best
I’ll see you soon

En svo brást það auðvitað.

* * *

Ég er að skanna inn myndir af negatívum, sem ég á uppí skáp og veldur það sennilega þessum tveimur síðustu færslum. Hef ótrúlega mikið verið að hugsa um síðustu ár. Það fyndna við að skanna inn myndir af negatívum er að maður uppgötvar aftur myndir, sem maður hafði áður hent. Skemmtistaða-sleikir og aðrir skandalar eru enn til á negatívunum mínum þótt ég hafi eytt sjálfum myndunum fyrir einhverjum árum. Það er ótrúlega skemmtilegt að fara aftur í gegnum þetta og ég ætla að henda inn eitthvað af gömlum myndum á næstu vikum. Ég sleppi þó myndunum sem ég hafði áður hent.

* * *

Á þessari síðu, sem að WordPress benti mér á, er ég settur í hóp með Agli Helga, Sóleyu Tómasar og Henry Birgi yfir þá bloggara, sem að viðkomandi les en pirrast svo yfir eftir lesturinn. Til viðbótar er ég svo kallaður furðulegur. Ég verð að játa að þetta er magnaður félagskapur sem ég er þarna í, en ég sé ekki almennilega hvernig að skrif mín á þessa síðu geti farið í pirrurnar á fólki. Vissulega er ég oft í ham á Liverpool blogginu, en þessi síða verður rólegri með hverju árinu. Ég er m.a.s. hættur að böggast útí Framsóknarflokkinn.

Here I go again on my own

Helgin var frábær!

Á föstudaginn fór ég í fyrsta skipti í langan tíma í leikhús. Bauð stelpu með mér á Kommúnuna í Borgarleikhúsinu. Það leikrit var ágætt – fínasta afþreying sem skilur svo sem ekki mikið eftir sig. Það að fara í leikhús er eitthvað sem ég ætla alltaf að gera meira af, en klikka alltaf á, svo ég var eiginlega ánægður með þá staðreynd að ég væri yfir höfuð staddur í leikhúsi og verkið skipti minna máli. Hvað varðar deitið, þá virkaði það ekkert sérstaklega vel.

Ég hef aldrei skilið af hverju sumir segja enga “deit” menningu ríkja á Íslandi. Ég get sjálfur vitnað fyrir að þessi menning lifir ágætu lífi, þar sem ég hef farið á allmörg slík undanfarin ár. Ég var orðinn hálf þreyttur á þessu hefðbundnu veitingastaða-deitum, þannig að leikhúsið var tilraun til þess að brjóta það upp. Það gekk misjafnlega. Sumir þurfa bara að mæta á eitt deit á ævinni en mér virðist vera ætlað það hlutskipti að verða fyrsti jarðarbúinn til að fara á deit á öllum veitingastöðum á Íslandi. Þetta er eiginlega orðið hálf vandræðalegt, því ég vil helst ekki fara á fyrsta deit tvisvar á sama staðnum – finnst það asnalegt þar sem ég á til að tengja veitingastaðinn við góðar minningar af kvöldinu. Sumir staðir einsog Einar Ben og Apótekið tengjast of sterkum minningum og því gæti ég varla séð mig fara á deit þar aftur. Þannig að ég fagna alltaf þegar að nýjir veitingastaðir opna.

Ég hef þó aðeins boðið þrem útlenskum stelpum á deit um ævina og uppúr þeim hafa sprottið þrjú af langlífustu og bestu samböndunum mínum. En ætli það sé ekki full mikil einföldun að kenna þjóðerni um þetta allt saman?

* * *

Á laugardaginn náði ég að sofa út og svo kom vinur minn og horfði með mér á Liverpool sigur, sem er alltaf indælt. Stuttu seinna kom svo vinkona mín í heimsókn og við enduðum á því að eyða eftirmiðdeginum öllum og fram á nótt í að spjalla og horfa á vídeó. Góð leið til að eyða laugardegi án áfengis.

Á sunnudag fór ég svo með vinkonu minni á snjóbretti í Bláfjöllum. Við ákváðum fyrir nokkrum mánuðum að prófa snjóbretti og í þessu frábæra veðri gátum við ekki frestað því lengur. Þegar ég var lítill var ég mikið á skíðum en hef hins vegar aldrei prófað snjóbretti. Við fórum því saman í kennslu þar sem við vorum í kaðlalyftunni í Bláfjöllum.

Einsog ég hafði verið varaður við, þá datt ég sirka 100 sinnum þessa fyrstu klukkutíma. Til að byrja með gat ég ekki einu sinni staðið kjurr á brettinu því ég datt alltaf aftur á rassinn. En smám saman kom þetta og í lok tímans gat ég komist niður “brekkuna” án þess að detta. Ég get vel séð hvernig þetta getur verið skemmtilegra en skíði og er spenntur fyrir því að fara aftur sem fyrst.

Myndin sem er hér til hliðar var einmitt tekin á sunnudaginn. Það var vissulega sólskin þegar við mættum í Bláfjöll, en svo byrjaði að snjóa. Á myndinni er ég einmitt á rassinum, sem er ákaflega lýsandi fyrir daginn. Elín, vinkona mín og snillingur, tók myndina.

Ég gerði svo þau mistök að fara í fótbolta um kvöldið eftir þetta snjóbrettabrölt og frammistaða mín þar var ekki merkileg.

* * *

Toyota umboðið er búið að valda því að ég er með Here I go Again með Whitesnake á heilanum. Það lag er spilað í nýju LandCruiser auglýsingunni. Dálítið fyndið þar sem textinn í laginu er hálf sorglegur og spilar ekki beinlínis inná þá ímynd, sem ég hef af fjölskyldu- og úthverfabílnum LandCruiser. Coverdale er í einhverri ástarkreppu og er að sætta sig að vera einn á ný eftir misheppnað samband.

Just another heart in need of rescue
waiting on love’s sweet charity
and I’m gonna hold on for the rest of my days
cause I know what it means to walk along the lonely street of dreams.

And here I go again on my own
going down the only road I’ve ever known.
Like a drifter I was born to walk alone.

Myndbandið við lagið er tímalaus eitís snilld. Ég spilaði þetta hátt þegar ég var lítill.

…And I’ve made up my mind, I ain’t wasting no more time. But here I go again.

Dog Man Star

Í kvöld skrifaði ég leikskýrslu eftir sigurleik hjá Liverpool.  Ég man ekki hvenær það gerðist síðast.

* * *

Stundum gleymi ég plötum í mörg ár. Jafnvel plötum sem ég dýrkaði einu sinni og dáði. Þannig var það um eina af mína uppáhaldsplötum þangað til að ég heyrði óminn af The Wild Ones á Ölstofunni fyrir tveim helgum. Ég man að ég var búinn með nokkra vodka-í-sóda, en ég sagði samt vinkonum mína einhverja óljósa romsu um það hvað ég dýrkaði og dáði þetta lag.

Einhvern veginn hafði Dog Man Star týnst í safninu mínu og því þurfti ég að kaupa hana aftur í gegnum iTunes. Og síðan það gerðist hef ég hlustað á hana nær stanslaust. Betri plata til að hlusta á í myrkrinu er vandfundinn. The Asphalt World er eitt af bestu lögum allra tíma (sjáið vídeóið – kaflinn sem byrjar á 5:40 er STÓRKOSTLEG SNILLD – sjá hérna líka live útgáfu). Þegar þessi plata kom út var ég 17 ára að ganga í gegnum eitt versta skeið ævi minnar og eyddi ófáum klukkutímunum liggjandi uppí rúmi, hlustandi á þessa mögnuðu plötu.

Ég er enn bitur yfir því að Butler og Anderson skuli ekki hafa getað unnið saman áfram. Fyrir ykkur, sem hafið ekki enn uppgötvað þessa plötu, hlaupið einn hring í stofunni, setjist svo aftur niður við tölvuna og hlaðið henni niður á löglegan eða ólöglegan hátt. Þið eigið ekki eftir að sjá eftir því.

Ferðasaga: San Francisco

Ég er á því að ferðasögur á þessu bloggi séu langbestar þegar ég skrifa þær á staðnum. Þegar ég kem heim, þá gleymist ferðin, stemningin dettur úr sögunni, almenn leti kemur yfir mig og á endanum verða þær stuttar og slappar.

Núna er svo farið að styttast ískyggilega í næstu ferð, sem verður til Stokkhólms í byrjun mars.

Þannig að ég gefst upp á því að skrifa spennandi og skemmtilegar ferðasögur um síðustu tvær ferðir og skelli þessu öllu saman í eina færslu.

* * *

Ég og Emil fórum semsagt í vikulanga ferð til Bandaríkjanna. Við flugum til New York með Icelandair með tilheyrandi þrengslum og slæmum mat. Við lentum alltof seint og því leit út fyrir að við myndum missa af tengifluginu til San Francisco. Okkur tókst að sannfæra einhverja starfsmenn á flugvellinum um að hleypa okkur í Bandaríkjamannaröðina í vegabréfseftirlitinu og náðum í töskurnar á mettíma.

VIð tók síðan æsilegt spretthlaup á milli terminal-a á JFK. Þegar við komum hinsvegar að JetBlue deskinu komumst við að því að flugið var farið. Okkur tókst samt að komast í flug til Oakland, sem er einmitt næsta borg við San Francisco. Við tók yndislegt flug til Oakland. Hér er skemmtilegur samanburður á JetBlue og Icelandair.

Lengd flugs:
Icelandair: 4171 kílómeter
JetBlue: 4133 kílómetrar

Valmöguleikar í myndefni:
Icelandair: 1 gömul bíómynd
JetBlue: 40 gervihnattastöðvar og svo 5 nýjar bíómyndir on-demand (gegn 5 dollara gjaldi)

Pláss fyrir lappir
Icelandair: Hóflegt fyrir 5 ára börn og dverga
JetBlue: Mjög gott

Verð
Icelandair: 55.500
JetBlue: 20.644

Skál fyrir Icelandair og íslenskri einokun!!!

* * *

Allavegana, við komumst til San Francisco og lentum þar um 2 leytið um morgun og herjuðum strax inná uppáhalds-hamborgarastaðinn minn, Carl’s Jr og fengum okkur yndislega hamborgara og fórum svo að sofa.

Á laugardeginum hittum við Grace vinkonu mína. Við Grace vorum góðir vinir þegar við vorum bæði skiptinemar í Venezuela. Hún býr í L.A. en kíkti á okkur á laugardeginum. Við eyddum mestum deginum á rölti um Mission hverfið, sem er hverfi innflytjenda frá Suður- og Mið-Ameríku. Um kvöldið borðuðum við svo á frábærum fínum mexíkóskum stað.

Á sunnudeginum hittum við svo Dan vin minn. Hann var minn besti vinur á háskólaárunum mínum og höfum við hist nokkrum sinnum síðan ég útskrifaðist. Við ákváðum að hittast á bar fullum af New England stuðningsmönnum og horfa á úrslitin í Ameríkudeildinni í NFL fótbolta, sem að New England vann.

* * *

Tilgangurinn með ferðinni til San Francisco var tvíþættur. Í fyrsta lagi að fara í ákveðna stefnumótunarvinnu fyrir Serrano. HIns vegar var planið að skoða slatta af veitingastöðum. Burrito er auðvitað upphaflega mexíkóskur matur, en sá matur sem við seljum á Serrano er ekki fáanlegur í Mexíkó, heldur er hann útgáfa af þeim mat sem að mexíkóskir innflytjendur byrjuðu að selja á taquerias stöðum í Mission hverfinu.

Í því hverfi eru því tugir af stöðum sem selja burritos og við gerðum góða tilraun til að borða á sem allra flestum stöðunum. Við það fengum við slatta af hugmyndum og einhverjar breytingar munu verða á Serrano í kjölfarið á þessari ferð okkar.

* * *

Á þriðjudagskvöldinu fögnuðum við svo afmæli Carrie, kærustu Dan á bar í Mission hverfinu þar sem við gátum fylgst með fullum Dan, en hann er einmitt ásamt Borgþóri vini mínum, allra fyndnasti maður á fylleríi sem ég þekki.

Á miðvikudeginum flugum við svo til Boston. Þar kíktum við á nokkra veitingastaði, versluðum og löbbuðum um borgina. Á fimmtudagskvöldinu kíktum við á djammið með Jenu, stelpu sem að gisti hjá mér í gegnum Couchsurfing síðasta sumar. Fluginu okkur heim var seinkað um einn dag þannig að við nýttum tækifærið og fórum á leik með Boston Celtics þar sem þeir unnu Minnesota Timberwolves í fínum leik.

Æ, þetta varð eiginlega lengra en ég ætlaði. Ég skrifa um Liverpool ferðina seinna.