Áramótaávarp 2008

2008 er búið að vera besta ár ævi minnar.

Þrátt fyrir allt sem hefur gerst í haust á Íslandi þá breytir það því ekki að árið markaðist fyrst og fremst af því skemmtilega fólki, sem ég umgekkst og öllu því skemmtilega sem gerði. Ég er eflaust einn hinna heppnu. Ég seldi íbúðina mína í vor á góðu verði og ég bý núna í leiguíbúð með tveim vinum mínum og skulda því nánast ekki neitt. En maður minnist áranna sennilega ekki vegna efnahagsástands, heldur fyrst og fremst vegna fólksins sem var í kringum mann. Mestu góðærisárin með öllu fylleríinu voru ekki mín bestu ár og ég fékk lítið úr því að eiga fína íbúð og nýjan bíl. En núna þegar ég keyri um á 6 ára gömlum bíl og bý í leiguíbúð með öðrum, en umgengst skemmtilegt fólk og á stórkostlega kærustu, þá líður mér miklu betur en áður.

* * *

Árið hefur gengið vel í vinnunni. Emil, sem á Serrano með mér, byrjaði að vinna við staðinn í fullu starfi í upphafi ársins og það gerði mér kleift að einbeita mér að því að setja Serrano upp í Svíþjóð. Við fengum fjármögnun á það verkefni í mars og síðan þá höfum við verið að vinna með sænsku ráðgjafafyrirtæki til að finna staðsetningu fyrir fyrsta staðinn. Sú staðsetning fannst í sumar og núna er staðan sú að við ætlum að opna fyrsta Serrano staðinn í Svíþjóð 21.janúar næstkomandi.

Ég hef verið mikið í Svíþjóð á árinu til að undirbúa staðinn. Er búinn að semja við birgja, banka og alla þá aðila sem við þurfum að vinna með á staðnum. Erum einnig búin að ráða rekstrarstjóra, sem byrjar næsta vor og í byrjun janúar munum við taka viðtöl við starfsfólk fyrir staðinn. Ég er með ágæta íbúð í Stokkhólmi á leigu, en fljótlega á næsta ári þarf ég að finna nýja íbúð.

Heima hefur Serrano gengið vel og veltan tvöfaldast frá því árið 2007. Við opnuðum tvo staði á árinu, á N1 Bíldshöfða og í Dalshrauni í Hafnarfirði.

* * *

Ég ferðaðist talsvert á árinu, mun meira en í fyrra. Í byrjun ársins fór ég ásamt nokkrum vinum mínum í frábæra ferð til Liverpool þar sem við sáum mína menn vinna Sunderland. Stuttu seinna fór ég ásamt Emil til San Francisco, þar sem við heimsóttum fæðingarstað þeirrar típu af burrito, sem við seljum á Serrano. Þar smökkuðum við mikið af mat og undirbjuggum Svíþjóðar planið.

Í maí og júní ferðaðist ég svo um [Mið-Austurlönd](http://eoe.is/ferdalog/#mid-austur-2008) í algjörlega frábærri ferð. Ég fór til Líbanon, Sýrlands, Jórdaníu, Ísrael og Palestínu og upplifiði hluti sem ég hafði aldrei upplifað áður. Ég sá Petra, Jerúsalem, Damaskus, Palmyra og Beirút. Ég kynntist ótrúlegu fólki, borðaði stórkostlegan mat, upplifði nýja siði og kom aftur breyttur maður og ótrúlega hamingjusamur. Mér fannst ég vera sáttur við lífið og hvert ég stefndi.

Og stuttu seinna byrjaði ég með kærustunni minni, Margréti. Það er rúmt ár síðan við kynntumst í fyrsta skipti og við höfðum hist öðru hvoru í gegnum sameiginlega vini, en við byrjuðum ekki saman fyrr en ég bauð henni útað borða í júlí. Fram að því hafði sumarið verið stórkostlegt með frábærri útilegu í Úthlíð sem hápunkt. Og restin af sumrinu var líka lygilega skemmtileg. Þetta var án nokkurs efa besta og skemmtilegasta sumar ævi minnar. Allar helgar gerði ég eitthvað skemmtilegt. Ég fór á ótrúlega skemmtilega Þjóðhátíð, í skemmtilegar sumarbústaðarferðir og útilegur og svo fór ég í brúðkaup hjá gamla herbergisfélaga mínum úr Northwestern nálægt Boston í lok sumars.

* * *

Seinni part ársins hef ég flakkað mikið á milli Reykjavíkur og Stokkhólms. Í ágúst flutti ég úr íbúðinni minni við Hagamel, sem ég hafði átt í 6 ár. Þar með má segja að ákveðnu tímabili í mínu lífi hafi lokið. Í þessari íbúð var ég búinn að upplifa ansi margt. Ég valdi hana með fyrrverandi kærustu minni, svo hættum við saman áður en ég flutti inn. Á Hagamelnum hef ég búið síðustu 6 ár, haldið öll þessi partí og verið í öllum þessum samböndum, sem ekki hafa gengið upp. Undir það síðasta var mér hætt að þykja vænt um íbúðina, ég var hættur að laga hluti sem biluðu og ég vildi bara komast í burtu. Þegar ég flutti út þá byrjaði ég að leigja með tveim vinum mínum í miðbæ Reykjavíkur. Það hefur verið skemmtilegt, enda frábært að vera nánast alltaf umkringdur fólki eftir að hafa búið svona lengi einn.

Í janúar mun ég svo flytja til Stokkhólms ásamt kærustunni minni. Hún ætlar að leita að vinnu þangað til í haust þegar hún fer í háskóla, en ég ætla að reyna að koma af stað fyrsta Serrano staðnum. Ég hreinlega get ekki beðið. 2008 er búið að vera stórkostlegt ár og ég er gríðarlega bjartsýnn á að næsta ár verði líka gott. Ég veit að þetta blogg hefur ekki verið burðugt fyrir utan kannski ferðasöguna, en ég vona að það batni á næsta ári. Mér líður ótrúlega vel við þessi áramót og bíð spenntur eftir næsta ári.

Gleðilegt ár. Takk fyrir að lesa.

Bestu lögin og plöturnar 2008

Einsog síðustu ár er hérna listi minn yfir uppáhaldsplötur mínar og lög á árinu 2008.

  1. sud-i-eyrumSigur Rós – Með suð í eyrum við spilum endalaust:  Bestu plöturnar og þær eftirminnilegustu eru ávallt þær sem maður getur tengt við ákveðna atburði eða ákveðin skeið í lífinu.   “Með Suð í eyrum” kom út um mitt sumar 2008, sem er án efa besta sumar ævi minnar. 
    Fyrri hluti plötunnar var nánast alltaf í spilun þar sem ég var, hvort sem það var í partíjum, bílferðum eða útilegum.  Ég hef átt ófá skemmtileg augnablikin þar sem ég hef sungið “Inní mér syngur vitleysingur” með vinum og kærustu í partíjum, á skemmtistöðum eða tónleikum.
    Ég uppgötvaði seinni hluta plötunnar samt ekki alveg strax.  Einhvern veginn passaði sá rólegi hluti ekki alveg við allt fjörið í sumar.  En í vetur, sérstaklega þegar ég var einn að vesenast á labbi í myrkrinu í Stokkhólmi þá passaði tónlistin akkúrat og ég byrjaði að elska lög einsog Fljótavík. Þannig að þegar ég hugsa aftur til 2008 þá mun ég sennilega hugsa um þessa plötu.  Besta lag:  Inní mér syngur vitleysingur.
  2. Bon Iver – For Emma, Forever Ago. Þetta er platan sem hefur sennilega oftast fengið að renna í gegn þegar ég er að sofna á kvöldin á þessu ári.  Á síðasta ári lokaði Justin Vernon sig af í kofa í Wisconsin í ástarsorg og bjó til þessa plötu.  Hún er frábær.  Besta lag: Re:Stacks.
  3. TV on the Radio – Dear scienceBesta lag: Stork & Owl
  4. Lil Wayne – Tha Carter 3. Besta hip-hop plata ársins með besta hip-hop lagi ársins (og nei, það er ekki A Milli).  Besta lag: Mr. Carter
  5. M83 – Saturdays = Youth
  6. Deerhunter – Microcastle
  7. Kings of Leon – Only by the night
  8. Jakob Dylan – Seeing Things
  9. Portishead – Third
  10. David Byrne & Brian Eno – Everything that happens will happen today.

Bestu lög ársins.

  1. Þú komst við hjartað í mér – Hjaltalín.  Ég heyrði lagið fyrst með Páli Óskari í bílferð í sumar.  Stuttu seinna heyrði ég svo útgáfuna með Hjaltalín og á sama tíma og ég varð ástfanginn fór þetta lag að hljóma alls staðar í kringum mig.  Já, ég veit hversu væmið þetta hljómar. En þetta er í mínum huga lag ársins.
  2. Inní mér syngur vitleysingur – Sigur Rós.  Ef einhver hefði sagt við mig fyrir ári að Sigur Rós myndi eiga hressasta lag ársins, þá hefði ég hlegið.  En þessir strákar eru einfaldlega snillingar.
  3. Mr. Carter – Lil Wayne.  Ótrúlega grípandi.  Það að Jay-Z rappi nokkrar línur gerir hlutina bara betri.
  4. Sex On Fire – Kings of Leon
  5. 4 Minutes – Madonna & Justin Timberlake
  6. Viva La Vida – Coldplay
  7. Love Is Noise – The Verve
  8. I Will Possess Your Heart – Death Cab for Cutie
  9. The Day That Never Comes – Metallica
  10. Street Of Dreams – Guns ‘N Roses. Ég varð bara að setja eitthvað með GNR. Ég var búinn að bíða eftir þessari plötu síðan ég var 14 ára.

Þannig lítur þetta út. Kannski ekkert stórkostlegt tónlistarár þannig séð. Einhvern veginn held ég að eftir nokkur ár muni fáir þessara diska lifa. Kannski einna helst Sigur Rós og Bon Iver.

Jól

Í fyrsta skipti í ansi mörg ár er ég spenntur fyrir jólunum.

Þrátt fyrir alla kosti sem fylgja því að vera single, þá er það að vera kærustulaus yfir jólin ekki einn af þeim.  Í fyrsta skipti í mörg ár er ég á föstu um jólin og viti menn, ég er loksins aftur spenntur fyrir jólunum.  Ekki það að mér hafi leiðst jólin, en núna er ég hreinlega orðinn janspenntur og einhver karakter í Helgu Möller lagi. Það er hálf skrítið.

Síðustu dagar hérna á Íslandi eru búnir að vera ótrúlega skemmtilegir.  Hef skemmt mér með vinum mínum, verslað jólagjafir og notið lífsins auk þess sem ég hef unnið slatta.  Ég ætla að klára að skrifa jólakortin í dag og svo klára að pakka inn gjöfunum á morgun.  Þá er þetta mestallt komið.  Allt þetta fjör hefur auðvitað valdið því að þessi bloggsíða hefur mætt afgangi.  Svo verður sennilega áfram.

Staðan í Vallingby

Ég er nokkurn veginn búinn að pakka niður öllu dótinu mínu og er á leið heim til Íslands á morgun, þar sem ég ætla að vera yfir jólin.  Ég get ekki beðið.

Staðan á Serrano staðnum í Vallingby er ágæt.  Framkvæmdir ganga vel og flestallt tengt opnun staðarins er í ágætis málum.  Ég fór í dag og heimsótti heilbrigðisyfirvöld til að fá hjálp með nokkra punkta í þessu ótrúlega umsóknarferli um veitingaleyfi.  Ég er nokkuð bjartsýnn á að nú sé umsóknin tilbúin og því gefist nægur tími til að kanna staðinn fyrir opnun, sem við stefnum á 15.janúar.

Ég tók nokkrar myndir í dag í Vallingby.  Hérna má sjá afgreiðsluborðið, sem var sett upp í morgun.  Borðið var framleitt hjá Frostverk á Íslandi og svo flutt út.  Þegar ég var að fara frá Vallingby áðan (þar sem ég var að reyna við Íslandsmet í fundarhaldi í mismunandi borgarhlutum) þá var verið að setja upp auglýsingamyndir í alla gluggana.  Þetta á að vera nokkurs konar “teaser” auglýsingar fyrir fólk sem labbar framhjá staðnum þangað til að við opnum, en það fer mikill fjöldi framhjá staðnum okkar á leið um lestarstöðina.

En allavegana, ég verð heima fram í janúar og þá er bara að vona að þeir sem eru að vinna fyrir okkur hérna í Svíþjóð klári sín verkefni svo að við getum opnað.

Endir uppsveiflunnar

Það ættu ALLIR, sem hafa áhuga á viðskiptum eða hagfræði (og þá sérstaklega bönkum og óhófi þeim tengdu) að lesa þessa grein eftir snillinginn Michael Lewis: [The End of Wall Street’s Boom](http://www.portfolio.com/news-markets/national-news/portfolio/2008/11/11/The-End-of-Wall-Streets-Boom).

Ég gæti tekið út helstu atriðin, en greinin er svo góð að það ættu allir að taka sér tíma í að lesa hana.

Hræðsluáróður

Ég fjallaði fyrir nokkrum mánuðum um þessa bloggfærslu hjá Baldri McQueen. Í ljósi umræðunnar er ekki úr vegi að rifja hana upp. Í færslunni rifjar hann upp hræðsluáróður EES andstæðinga, sem þeir þuldu upp áður en við skrifuðum undir þann samning. Sami hræðsluáróðurinn er að mörgu leyti endurunninn í dag þegar að talað er um fulla aðild að ESB.

Vonbrigði dagsins eru án efa það að Vinstri Grænir haldi sig við fulla andstöðu sína við ESB aðild. Þeir sleppa því líka (að því er mér sýnist) algerlega að tala um gjaldeyrismál – einsog það sé ekki stærsta hagsmunamál Íslendinga. Tillaga Vinstri Grænna í ESB málum snýst um tvöfalda kosningu. Að við kjósum um það hvort að við ætlum að semja. Sú kosningabarátta verður án efa kostuleg. Hörðustu andstæðingarnir munu þar gera allt í sínu veldi til að sverta ESB og gera allt til þess að fólkið fái ekki að sjá hverjir raunverulegu kostirnir eru. Menn myndu fyrirfram gefa sér sínar forsendur fyrir niðurstöðum samningaviðræðna sem væru ekki einu sinni hafnar.

Það jákvæða er þó að Sjálfstæðismenn virðast vera að komast á þá línu að aðildarviðræður séu skynsamasta leiðin og svo að þjóðin fái að kjósa um aðildina. Það er auðvitað það eina réttmæta. Við eigum skilið einsog allar hinar Norðurlandaþjóðirnar að fá að kjósa um aðild að ESB.

Radiohead í Astoria

Ó hvað ég elska þetta lag…

Ég heyrði þetta í sjónvarpsþætti áðan. Ég held að þetta hljóti að vera meðal bestu laga sem ég hef nokkru sinni heyrt á tónleikum á ævinni. Ég fletti upp tónleikunum, sem ég sá með Radiohead í Grant Park í Chicago árið 2001, og fann þar set listann. Hann er vægast sagt ótrúlega góður. Sérstaklega voru uppklöpp 2 og 3 ógleymanleg. Ég skrifaði einu sinni á þessari síðu um bestu tónleikana, sem ég hef farið á á ævinni. Þá setti ég Radiohead tónleikana í annað sætið á eftir Roger Waters í Houston.

Það voru mistök. Radiohead tónleikarnir í Grant Park eru bestu tónleikar, sem ég hef farið á.

Tölvudót

Nokkrir tæknitengdir hlutir, sem ég elska þessa stundina.

  • Gmail. Hljómar kannski fáránlega, en ég hef verið að uppgötva Gmail alveg uppá nýtt á síðustu dögum. Við keyrum allan Serrano póstinn á Gmail og höfum gert það lengi. Ég hef hins vegar notast við Mail.app á Makkanum og talið það á einhvern hátt vera betra en Gmail notendaviðmótið. Það var blekking hjá mér.

    Ég fékk mig fullsaddan í vikunni og ákvað að skipta yfir í Gmail viðmótið. Ég náði mér í Mailplane (sem að einfaldar hluti einsog “drag & drop” viðhengi og samskipti við Address book í Mac OSX, auk þess sem það býður uppá samhæfingu við OmniFocus) og tók mér smá tíma í að lesa um flýtiskipanirnar í Gmail – og eftir 15 mínútna grúsk er ég farinn að vinna svona 10 sinnum hraðar í Gmail heldur en ég var í Mail.app.

  • Text Expander. Ég er líka byrjaður að nota Text Expander á Makkanum mínum, sem er yndislegt forrit. Það sem það gerir er að þú getur sett inní það ákveðin textabrot, sem eru svo virkjuð úr hvaða forriti sem er með því að skrifa inn ákveðin orð. Þannig að til dæmis get ég skellt inn nafninu á fyrirtækinu okkar, fullu heimilisfangi og sænskri kennitölu (eitthvað sem ég er alltaf að nota í tölvupóstum) bara með því að skrifa inn “snltdk”. Þetta hljómar kannski ekki merkilegt, en þegar maður hefur komist uppá lagið með að nota þetta forrit þá skilur maður ekki hvernig maður komst af án þess.
  • iPhone. Og ég elska líka nýja símann minn. Það er svo sem ekki mikill munur á nýja iPhone og þeim sem ég rústaði heima á Íslandi. Einna helst er það GPS tækið í símanum, sem hefur hjálpað mér allnokkrum sinnum að undanförnu á labbi mínu um borgina.

    En málið er að aðstæður mínar hafa breyst umtalsvert hérna í Stokkhólmi og með því notkun mín á símanum. Í vinnunni minni hérna útí Stokkhólmi er ég talsvert meira á ferðinni og þegar ég er á ferðinni þá er ég ekki við stýrið á bílnum mínum einsog heima, heldur sit ég í strætó eða lest. Það gefur mér ótrúlega mikið af stuttum tímabilum þar sem ég get til að mynda skoðað nokkur email, lesið lengri greinar eða slíkt. Fyrir allt þetta er þessi sími ómetanlegur. Í raun myndi ég segja að minna en 10% af notkun símans míns væri til þess að hringja. Hin 90% eru til að skoða kort, svara tölvupóstum eða annað.

  • Gyminee. Já, og svo elska ég Gyminee til að halda utan um allar æfingarnar mínar. Langbesta kerfið, sem ég hef séð til að geta haldið utanum lyftingar, hlaup og alla aðra líkamsrækt.

Ódýr Big Mac á Íslandi

Tímaritið The Economist gefur árlega út Big Mac vísitöluna. Þar tekur blaðið saman verð á Big Mac í ýmsum löndum og reiknar verðið út í dollurum. Þannig fær blaðið einhverja mynd á því hvort að gengi viðkomandi gjaldmiðils sé of- eða vanmetið gagnvart dollar.

Á þessu eru auðvitað milljón gallar, til dæmis einsog það að landbúnaðarkerfi eru gríðarlega mismunandi og að skyndibiti einsog McDonald’s er lúxusvara í sumum löndum. Þannig að aðallega er þetta gert til gamans.

Íslendingar hafa oftast verið meðal allra hæstu landanna í könnuninni ásamt löndum einsog Noregi. Í júlí í ár vorum við með einn dýrasta Big Mac-inn í heimi.

Það hefur auðvitað allt breyst núna. Ég tók saman kostnaðinn á Big Mac miðað við núverandi gengi í dag og skoðaði hvernig hlutirnir hafa breyst í nokkrum löndum (nota bene, ég geri ráð fyrir að Big Mac hafi ekki hækkað síðan í júlí í þessum löndum og ég tók verð á Big Mac á Íslandi úr verðkönnum sem var gerð 11.nóv).

Fyrsti dálkurinn sýnir verð á Big Mac í gjaldmiðli viðkomandi lands. Annars dálkurinn sýnir verðið í dollurum (á gengi gærdagsins) og þriðji dálkurinn sýnir svo hvort að þetta gefi í skyn að gjaldmiðlinn sé ofmetinn (plús tala) eða vanmetinn (mínus tala) gagnvart dollar. Svona lítur þetta því út í dag.

Semsagt, í dag geturðu á Íslandi fengið Big Mac á lægra verði en í Bretlandi og á nánast sama verði og í Bandaríkjunum!!! Það hélt ég að ég myndi aldrei sjá. Það munar aðeins 13% á verðinu á Big Mac á Íslandi og í Brasilíu.

Big Mac kostar semsagt í krónum á Íslandi 560 krónur. Til samanburðar þá kostar hann 680 krónur í Svíþjóð, 702 krónur í Danmörku og 835 krónur í Noregi.

Framkvæmdir hefjast

Á þessari ágætu mynd, sem var tekin í gær í Vallingby, úthverfi Stokkhólms má sjá byrjunina á framkvæmdum við fyrsta Serrano staðinn hérna í Svíþjóð.

Við erum semsagt að deila stað með Subway. Við erum á lestarstöðinn í Vallingby, sem er við innganginn í [Vallingby City](http://www.vallingbycity.se/), sem er stór verslunarmiðstöð. Á myndinni er verið að smíða vegg á milli staðanna, sem á að vera á meðan að á framkvæmdum við Serrano staðinn stendur. Við erum búin að flytja út heilan gám af dóti frá Íslandi, þar á meðal sérsmíðað afgreiðsluborð, parket og fleira – sem var hagstæðara að kaupa á Íslandi vegna gengismála. Sjá fleiri myndir frá bygingu staðarins hér. Ég mun uppfæra þetta albúm eftir því sem meira gerist.

Ég er búinn að vera hérna í Stokkhólmi síðan á fimmtudaginn og það er búið að vera mikið að gera. Við ákváðum fyrir um tveim vikum að fresta opnuninni aftur til 15.janúar til að gefa okkur betri tíma í að klára marga hluti sem þarf að huga að. Hins vegar eru framkvæmdirnar við staðinn hafnar og þeim á að ljúka um miðjan desember. Eftir það þá höfum við ágætis tíma til að klára mál tengd heilbrigðisyfirvöldum (sem eru talsvert strangari en heima á Íslandi), prufukeyra staðinn og þjálfa starfsfólk.

* * *

Almennt séð eru Svíar mjög jákvæðir gagnvart Serrano. Hvort sem það er í bönkunum, auglýsingastofum eða birgjum þá líst mönnum vel á hugmyndina og fólk hefur trú á þessu. Þá virðist engu máli skipta að hugmyndin sé íslensk. Það verður að teljast jákvætt.

Ég hef það annars bara ansi gott fyrir utan það að kærastan mín er heima á Íslandi. Ég er búinn að koma mér ágætlega fyrir hérna í íbúðinni og mér finnst ég þekkja næsta nágrenni ágætlega. Ég bý í íbúð á Södermalm í mjög skemmtilegu hverfi og er íbúðin umkringd börum og alls kyns veitingastöðum, sem ég mun sennilega seint ná að prófa alla.