Ég er í huganum búinn að byrja á um það bil 10 greinum um þessa kreppu. Einhvern veginn hefur mér alveg fundist vanta sögur frá þeim sem standa í því að reka fyrirtæki í þessu ástandi. Það er slíkt of-framboð af kverúlöntum, sem að besservissa um allt milli himins og jarðar í þessu ástandi, en einhvern veginn hefur mér fundist vanta eitthvað frá þeim, sem eru að reyna að reka sín fyrirtæki áfram í þessu ástandi. Mig langaði líka til að skrifa um það góða, sem gætu orðið til úr þessu ástandi: Fókus á smærri fyrirtæki, að okkar hæfasta fólk vinni ekki allt í bönkum og að neyslugeðsýkin minnki kannski pínu.
Ég hef heyrt afskaplega mikið af sögum um það hvernig fyrirtæki eru að lenda í vandræðum vegna þessa allsherjar klúðurs í gjaldeyrismálum þjóðarinnar, en af einhverjum ástæðum heyri ég það miklu frekar frá vinum og fjölskyldu heldur en úr fjölmiðlum eða á bloggsíðum. Kannski eru þeir sem standa í rekstri einfaldlega of uppteknir við að redda málunum til þess að tjá sig.
Ég skil ekki af hverju Davíð Oddson er enn seðlabankastjóri. Ég bara get hreinlega ekki skilið það. Ég hef aldrei haft neina sérstaka óbeit á honum og þegar ég var fyrst að byrja að spá í pólítík þá var ég Sjálfstæðismaður og hélt uppá Davíð. En hann hefur hins vegar ráðið nánast öllu síðan að ég fermdist og sú stefna sem hann hefur rekið í gegnum einkavæðingu bankanna og þá gjaldeyris- og vaxtastefnu sem hann hefur rekið í Seðlabankanum, hefur beðið svo stórkostlegt skipbrot að það er með hreinustu ólíkindum að hann skuli ekki hafa sagt af sér. Hversu miklu rugli þurfum við að vera í í peningamálum til þess að við skiptum um stjórn þar? Vissulega var þetta ekki allt honum að kenna, enda hefur enginn haldið því fram. Gaurarnir sem unnu í bönkunum áttu ekkert að hugsa um okkar hag (umfram okkar eignir þar inni), heldur bara sitt rassgat og eigenda bankanna. Þannig virkar kerfið. En Seðlabankinn á að hugsa um mig. Hann á að sjá til þess að eignir okkar, sem eru skráðar í krónum, rýrni ekki stórkostlega. Það hefur honum mistekist. Og vegna þess eiga forystumenn í bankanum að víkja.
Af hverju segir aldrei neinn af sér á þessu landi? Af hverju er fjármálaráðherra dýralæknir, viðskiptaráðherra heimspekingur og Seðlabankastjóri lögfræðingur? Myndi þetta ganga upp einhvers staðar annars staðar?
* * *
Ég er að rembast við að stofna fyrirtæki í Svíþjóð. Ég hef eytt talsverðum tíma í að kynna mig og mitt fyrirtæki þarna úti og haldið uppi reglulegu sambandi við ýmsa aðila. Núna þarf ég sífellt að sannfæra þá um að ástæðan fyrir að ég geti ekki millifært peninga á þá sé ekki vegna peningaskorts heldur vegna þess að ekki sé hægt að millifæra af gjaldeyrisreikningi á Íslandi yfir á reikning í Svíþjóð.
Hverslags ástand er þetta eiginlega?
Annars virðast Svíarnir sýna þessu skilning. Einn aðili sem vinnur fyrir okkur sagði mér að hann hikaði við að skrá tíma á okkur, vegna þess að hann heyrði á hverjum degi hversu hræðilegt ástandið væri á Íslandi. Hann fékk móral yfir því að rukka íslenskt fyrirtæki. Kannski hjálpar það að við höfum kynnt okkur vel og að fólk þarna úti hefur trú á okkur. En það er alveg ljóst að ef við hefðum ekki byrjað á þessu verkefni fyrir einhverjum mánuðum, þá væri mun erfiðara að kynna okkur sem marktækt fyrirtæki þegar það kæmi í ljós að helsta afrek okkar væri það að hafa meikað það á Íslandi.
Ég fór annars á fund hjá Samfylkingunni í gær og þar klappaði ég ekki almennilega fyrr en að Jón Baldvin hélt þrumuræðu yfir ráðherrum flokksins. Jón Baldvin vildi tvennt af þrennu: Hjálp frá IMF, Davíð burt og Ísland í ESB. Ef það næðist ekki fram, þá hefði flokkurinn ekkert erindi í ríkisstjórn. Ég gæti vart verið meira sammála.
* * *
Ég er hins vegar þrátt fyrir kreppuna búinn að eiga frábært sumar og frábært haust.
Ég hætti við að fara út til Bandaríkjanna í skemmtiferð um þarsíðustu helgi en hef þess í stað farið útá land þrjár helgar í röð. Ég fór um síðustu helgi með kærustunni minni á Geysi, þar sem að kærasti vinkonu minnar býr. Núna um helgina var ég svo í partí-i á föstudagskvöld og fór svo uppí sumarbústað með fulltaf skemmtilegu fólki daginn eftir. Við borðuðum góðan mat og skemmtum okkur fyrir svipaðan pening og tveir bjórar hefðu kostað á djamminu í miðbænum. Næsta helgi lítur svo afskaplega vel út. Og í næstu viku fer ég út til Stokkhólms, þar sem að málefni Serrano í Svíþjóð munu vonandi mjakast áfram.