Íbúðir, Paul's boutique og The Wrestler

Punktar!

  • Þar sem ég er að leita mér að húsnæði í Stokkhólmi, þá hef ég óvenju mikinn áhuga á fasteignamálum þessa dagana. Í þessari borg er alveg ótrúlegt magn af gömlum, fallegum byggingum. Ein íbúðin, sem við Margrét skoðuðum var til að mynda í húsi á Gamla Stan, sem var byggt árið 1680. Ég hef alltaf verið ótrúlega hrifinn af gömlum húsum og því er þetta spennandi borg fyrir mig. Ef okkur tekst að semja við bankann, þá erum við vongóð um að geta keypt okkur íbúð einhvers staðar í Vasastan eða hér á Södermalm, þar sem við búum núna í pínkulítilli leiguíbúð.
  • Talandi um íbúðir, hérna getur þú keypt íbúðina hans Jóns Ásgeirs á Manhattan fyrir aðeins 25 milljónir dollara. Sjá frétt í NY Times.
  • Paul’s Boutique er víst næstum því 20 ára gömul og Pitchfork gefa endurútgáfu hennar 10 í einkunn. Ég hef ekki hlustað á hana í næstum því 5 ár samkvæmt iTunes. Það er magnað. Ég hlustaði því á hana í morgun. Mikið ótrúlega er þetta góð plata. Ég uppgötvaði hana ekki fyrr en mörgum árum eftir að hún kom út, en ég hef samt alltaf haldið gríðarlega mikið uppá hana.
  • Við sáum The Wrestler í gær, sem er frábær mynd. Það eru auðvitað allir búnir að tala um Mickey Rourke og hversu góður hann er, þannig að væntingarnar okkar voru miklar, en hann stendur algjörlega undir þeim. Besta mynd, sem ég hef séð síðustu mánuði. Ég er líka búinn að sjá Vicky Cristina Barcelona, sem er fín Woody Allen mynd.
  • Lokalagið í myndinni heitir The Wrestler. Það er frábært lag, samið og sungið af meistara Bruce Springsteen og er af nýju plötunni hans Working on a Dream, sem mér finnst líka vera afskaplega góð.

Margrét er að vinna í allan dag en ég í fríi. Það er enginn fótbolti í sjónvarpinu, þannig að ég veit varla hvað ég á að gera. Ég er búinn að hlaupa úti í miklum kulda í morgun og er núna að drekka morgunkaffið mitt. Ætli ég fari ekki bara á kaffihús og reyni að skrifa email til fólks, sem ég hef dregið alltof lengi að skrifa. Það er sennilega ágætis hugmynd.

2 thoughts on “Íbúðir, Paul's boutique og The Wrestler”

  1. Uppgvötaði Paul’s Boutique árið 1994. Þvílík snilld. Beasty Boys komu á hárréttu augnabliki og björguðu hip-hopinu fyrir hvíta manninn.

    “Humpty Dumpty was a big fat egg
    He was playing the wall and then he broke his leg”

Comments are closed.