Sunnudagur, Madríd og Eurovision

Ég er snillingur í að eyða sunnudögum í ekki neitt. Ég ætla að rembast við að breyta því eitthvað í dag. Margrét er að vinna, þannig að ég sit hérna í eldhúsinu og hlusta á Ghost of Tom Joad. Það eru ekki nema rétt rúmar tvær vikur í Springsteen tónleikana og ég er ótrúlega spenntur.

Ég er búinn að vera að rúlla í gegnum allt Springsteen safnið mitt. Ég er m.a.s. farinn að hlusta aftur á Born in the U.S.A., sem ég hafði einhvern veginn útilokað þar sem ég fékk svo mikið ógeð á titillaginu. En mikið afskaplega eru lög einsog No Surrender og Downbound Train frábær. Springsteen er snillingur og ég hef ekki verið svona spenntur fyrir tónleikum síðan ég sá Radiohead í Chicago.

* * *

Ég var í Eurovision grilli og partíi í gær í úthverfi Stokkhólms. Ég held að Íslendingar hafi haft gott af þessu kvöldi. Miðað við umræðuna mætti áætla að ansi margir heima haldi að allir í Evrópu hati okkur, en ég held að það sé ansi fjarri sannleikanum. Vissulega hefur orðspor okkar í viðskiptum farið ansi neðarlega, en almennt held ég að ástandið sé ekki svo slæmt. Mig minnir að ég hafi gefið portúgalska laginu hæstu einkunnina – ég verð sjálfkrafa meira hrifinn af lögum þegar þau eru ekki sungin á ensku.

* * *

Ég og Margrét fórum í helgarferð til Madríd um síðustu helgi. Einn af kostunum við að búa í Stokkhólmi er að héðan er auðvelt að taka bein, ódýr flug til allra mögulega borga. Það er nánast frelsandi að þurfa ekki að treysta á Icelandair og millilendingu á helvítis Heathrow til að komast leiða sinna.

Ég hef einu sinni áður komið til Madríd. Það eru þó um 10 ár síðan og ég man ekki mikið frá þeirri ferð. Ég fór þú á Molotov tónleika, sem var upplifun og svo fékk ég heiftarlega matareitrun af því að borða baguette með beikoni. Það var eiginlega mér að kenna því auðvitað á maður ekki að panta baguette með neinu öðru en skinku í Madríd.

Madríd er skemmtileg borg. Hún er ekki jafn falleg og Barcelona (sem ég hef komið 7-8 sinnum til), en hún er umtalsvert stærri og öðruvísi. Allavegana, við vorum þarna í fjóra daga og skoðuðum helstu túristastaði. Við löbbuðum í kringum Plaza Mayor og Plaza del Oriente þar sem að konungshöllin er. Við skoðuðum Reina Sofia þar sem að Guernica eftir Picasso er til sýnis og svo skoðuðum við Prado safnið, sem er auðvitað ótrúlegt listasafn þar sem að flestöll verk eftir Velazquez og Goya eru geymd.

Við borðuðum líka ótrúlega góðan mat. Ég gjörsamlega elska Jamón Iberico og held að mér hafi tekist að borða það fjórum sinnum í ferðinni. Svo borðuðum við á nokkuð authentic mexíkóskum stað, á frábærum tapas börum og öðrum góðum stöðum. Og við fórum á djammið á klúbbunum í Madríd þar sem Margrét afrekaði það að tala sig fram fyrir röð á tveim stöðum þar með talið einum þar sem við komumst að því að var hommakvöld (við föttuðum ekki að það voru bara strákar í 50 manna röðinni).

Frábær ferð og ég setti inn nokkrar myndir á Flickr.

* * *

Á föstudaginn förum við svo í heimsókn heim til Íslands og verðum þar í 10 daga. Ég er spenntur fyrir því.