Aðeins um Icesave

Gauti B. Eggertsson, sá ágæti hagfræðingur (sem býr í Bandaríkjunum og vinnur hjá Seðlabankanum í New York) skrifar eftirfarandi hluti um Icesave málið:

Ég hef ekki kynnt mér efni icesave samkomulagsins að miklu marki, en af fréttum að dæma sýnist mér tiltekin óskhyggja annars vegar, og popúlismi hins vegar, ráða viðbrögðunum.

Landsbankinn auglýsti icesave á Bretlandi þar sem því var skilmerkilega haldið til haga að íslenska ríkið ábyrgðist innistæður upp að ákveðnu marki. Þetta var gert með vitund og vilja íslenskra yfirvalda.

Eignir Landsbankans eiga að ganga upp í þetta og sýnist mér íslenska ríkið vera fremst í röðinni þegar þær verða seldar til að borga uppí icesave. Vextir sýnast mér töluvert lægri en þeir sem bjóðast íslenska ríkinu á opnum markaði og svipaðir fjármagskostnaði langtímalána þeirra ríkja sem ætla að lána okkur til að greiða þessa skuld.

Í stuttu máli, sýnist mér, amk í fljótu bragði, þetta samkomulag vera skynsamlegt.

Einsog ég skil málið, þá hefur Gauti rétt fyrir sér. Þetta virðist vera nokkuð skynsamlegt samkomulag miðað við stöðuna sem við vorum í. Það er að mörgu leyti ósanngjarnt að þetta skuli lenda á Íslendingum, en miðað við stöðuna sé ég ekki hvaða aðrar leiðir voru færar.

Þeir sem eru ósáttir við þetta samkomulag virðast aðallega nefna þrjá hluti.

– Þetta er ósanngjarnt

Af hverju eiga þeir, sem áttu engan þátt í útrásinni, að borga fyrir Icesave?

Það er vissulega rétt. Þetta er afskaplega ósanngjarnt. En reynum aðeins að horfa á þetta frá sjónarhorni breskra þegna. Þeir lögðu inn pening á reikninga í Bretlandi, sem voru í auglýsingum, sagðir tryggðir af íslenskum yfirvöldum. Mikið var gert úr tengingunni við Ísland (Icesave nafnið til að mynda) og hún átti að auka trúverðugleika reikninganna. Þessir peningar voru svo að stórum hluta sendir til Íslands, þar sem þeir fóru í að byggja upp íslensk fyrirtæki í útrás (hversu gáfulegt sem það var).

Þetta leyfðu íslensk stjórnvöld og Seðlabanki. Í stað þess að neyða Landsbankann til að færa þetta í breskt útibú, þá létu íslensk stjórnvöld þetta viðgangast. Stjórnvöld eru fulltrúar okkar almennings, kosin af okkur. Ef að allt hefði farið vel síðasta október, þá hefðu þessi bresku innlán átt að hjálpa íslenskum fyrirtækjum og íslenskum almenningi. Svo fór ekki. Getum við þá neitað að borga þegar að illa fer?

Það er ósanngjarnt ef við þurfum sem skattborgarar í framtíðinni að borga fyrir Icesave. En okkar stjórnvöld klúðruðu málunum einfaldlega svo illa (Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, með dyggri aðstoð Samfylkingarinnar) að við getum varla gert annað en borgað.

– Það hefði átt að fara dómstólaleið

Ég er ekki lögfræðingur og veit lítið um alþjóðalög. Í Kastljósi var Sigmundi D. Gunnlaugssyni gefið tækifæri á að útskýra hvaða leið ætti að fara. Hann gat ekki gert það. Hann nefndi gerðardóm, sem að Bretar og Hollendingar höfnuðu, en lítið annað.

Ég skil líka ekki hvernig hægt er að túlka þetta Icesave á neinn annan hátt en að við berum hreinlega ábyrgð á þessum innistæðum. Hver er óskaniðurstaðan fyrir dómstólum? Er hún sú að dómstóllinn segi okkur að það sé í lagi að mismuna fólki eftir því hvort það sé Hollendingar eða Íslendingar?

Og hvað ef við töpum þessu fyrir dómstólum? Yrði þá ekki niðurstaðan enn verri en sú sem næst með þessum samningum? Það finndist mér allavegana líklegt.

– Víst að samið var, þá eru vextirnir alltof háir

Í þessu magnaða Kastljósviðtali þá benti Sigmundur á að stýrivextir í Bretlandi væru 0,5%, væntanlega til þess að sýna hverslags “okurvexti” við værum að fá á þessum lánum. En Sigmundur hlýtur að vita að þótt það séu lágir stýrivextir í Bretlandi (sem eru hafðir þannig til að örva breskt atvinnulíf) þá er auðvitað ekki hægt að millifæra það á langtímalán, sem að Bretland veitir öðru landi. Einsog Gauti bendir á, þá eru vextirnir á þessu láni lægri en okkur sem þjóð bjóðast almennt séð. Þannig að rökin um of háa vexti standast alls ekki. (sjá hér annan pistil frá Gauta). Ég veit ekki hver tilgangur Sigmundar er með slíkum málflutningi.

* * *

Ég er ekkert sérlega æstur í að Icesave falli á Íslendinga – ég held að enginn sé það. En þegar ég horfi á málið þá sé ég einfaldlega ekki hvað núverandi ríkisstjórn gat gert nema akkúrat það sem hún gerði.

Það hjálpar ekki neinum ef að stjórnmálamenn gera almenningi upp falskar vonir um að hlutirnir reddist á einhvern hátt án þess að á bakvið það séu nein haldbær rök. Einnig hjálpar það engum þegar alltaf er dregin upp dökkasta mögulega mynd af því hvernig hlutirnir geta þróast.

15 thoughts on “Aðeins um Icesave”

  1. Horfðu aftur á Kastljósið… þú hefur greinilega ekki skilið allt sem Sigmundur Davíð sagði…

    Við bjóðum gerðardóm… ef því er ekki tekið þá stöndum við áfram á okkar máli… að bankatilskipun ESB varðandi innistæðutyggingar er gölluð, hún kveður ekki á um ríkisábyrgð og á ekki að ná yfir kerfishrun. Tilskipunin var innleidd í íslenskan rétt án athugasemda. Einnig máttu kynna þér rök Eiríks Bergmanns Einarssonar stjórnmálafræðings um áhirf beitingu hryðjuverkalaga á Ísland á málið.

    Af hverju ætli allir helstu lögspekingar landsins og lagaprófessorar séu á þessari skoðun?

    Ákvörðun um að greiða er pólitísk. Ef um kúgun er að ræða verður það að koma fram og þá semjum við alls ekki. Ég vil ekki vera með stjórnvöld sem láta kúga sig og það er ekki boðlegt í samfélagi þjóðanna.

    Einnig hafa fyrrverandi ráðherrar sagt að samkomulagið á minnisblaðinu hafi ekki verið fullnaðarsamkomulag og lagaprófessorar hafa sagt að þetta sé alls ekki bindandi.

    Breska pundið er nú í lágmarki… það mun hækka á næstu 7 árum… ásamt skuldbindingum Íslands. Lánshæfi Íslands mun lækka…nú þegar hefur skuldbindingin hækkað um milljarða… á 2 dögum !

    Þessi ríkisstjórn undir verkstjórn Samfylkingar er að mynda hættulega gjá í íslenskt samfélag að það verður ef til vill seint brúað… ríkisstjórn sem gætir hag fjármagnseigenda á kostnað íslenskra heimila og almennings !

    Þetta verður að stöðva !

  2. Satt best að segja fannst mér afskaplega lítið koma til frammistöðu Sigmundar í Kastljósinu í gær – það kristallast best í þessari popúlísku morfís-brellu hans með vaxtamuninn. Mér finnst það allavegana vera slappur hagfræðingur sem skilur ekki muninn á stýrivöxtum og langtímavöxtum.

    Annars sammála því sem þú segir EÖE. Því miður berum við ábyrgð á þessu – stjórnvöld sváfu á verðinum. Það er augljóst að bresk og hollensk stjórnvöld vilja ekki fara með málið fyrir gerðardóm og á meðan við neitum að borga þá stendur Evrópa, IMF og rest sameinuð gegn okkur. Við erum í algjörri spennitreyju. Að finnast það einhver stórskandall að Bretar og Hollendingar beiti þrýsingi á aðrar Evrópuþjóðir vegna málsins finnst mér vera afskaplega naive. Þannig virka bara alþjóðastjórnmál – þýðir ekkert að “senda bréf til annarra landa” eins og Sigmundur stakk upp á í gær og láta eins og það leysi allan vanda!

    Að fólk haldi svo að Steingrímur J. Sigfússon sé að hlaða undir fjármagnseigendur á kostnað almennings er svo náttúrulega brandari af bestu sort.

  3. Ég er svo sammála Einar! Það er bara svo erfitt að horfast í augu við raunveruleikann.

    Svo gersamlega þoli ég ekki hvað Íslendingar gleyptu við þessu “hryðjuverkalaga” dæmi hjá Geir Haarde. Þetta eru ekki hryðjuverkalög, þetta voru lög um frystingu fjármuna. Meðal annars er hægt að nota þau gegn hryðjuverkamönnum, en Ísland féll ekki undir þann hatt.

    Það er reyndar kannski bara pínu flott pólitískt trikk hjá Haarde að taka svona til orða á örlagastund. Íslendingar vildu trú þessu og trúa því greinilega enn að við höfum verið beitt hryðjuverkalögum í Bretlandi!

  4. Ekkert komið fram að vanda, hvorki hér né annars staðar sem hnekkir lagalegri stöðu Íslands í IceSave… ekki einu sinni ódýr kennslustund í alþjóðastjórnmálum!

  5. Að sama skapi er ekkert komið fram um það hvað gerist ef við höfnum því að semja við Breta og Hollendinga.

    Hafna samningum og heimta dómstólaleið.
    Bretar og Hollendingar segja nei.
    ????
    Lán frá nágrannaþjóðum í uppnám? Hvað með EES?

    Og ef:

    Bretar og Hollendingar segja já.
    Ísland tapar málinu – alls ekki útilokað, enda virðast íslenskir fræðimenn vera þeir einu sem hafa þann skilning að Ísland sé í rétti.
    Hvað þá? Hærri vextir? Borga strax? Ísland gjaldþrota?

    Það þarf að segja eitthvað innihaldsríkara en “hey, við borgum ekki og ætlum að fara dómstólaleiðina”.

  6. afhverju létum við ekki bretana hafa landsbankann og allt sem honum fylgir og þeir sæu um að koma eignum hans í verð og innheimta. sigurjón fyrrverandi bankastjóri segir fullum fetum að eignir landsbankans dugi fyrir icesave skuldbindingunum og vel það. málið leyst!

  7. Sammála öllu því er Einar hefur hér um mælt

    Agnar, varðandi:
    “Ákvörðun um að greiða er pólitísk. Ef um kúgun er að ræða verður það að koma fram og þá semjum við alls ekki. Ég vil ekki vera með stjórnvöld sem láta kúga sig og það er ekki boðlegt í samfélagi þjóðanna.”

    “Kerfishrun” eða ekki, Ísland kemst ekki hjá því að greiða þessar skuldir. Held að enginn vilji vera með stjórnvöld sem láta kúga sig en er ekki stóri sannleikurinn sá að hvaða ríkisstjórn sem er mundi höndla málið með svipuðum hætti?

    Það er auðvelt að rífa kjaft þegar maður situr ekki í Stjórnarráðinu og þarf að finna bestu leiðina úr vandanum :O)

    Því miður virðist sem stór hluti þjóðarinnar sé ekki enn búinn að viðurkenna hverjir komu þjóðinni í þessa stöðu, einstaklingar kenna Steingrími um ástandið frekar en að velta því fyrir sér hvort að atkvæðum sem þeir greiddu Sjálfstæðisflokk síðustu 20 árin megi kannski að e-u leyti kenna um ástandið. Einkennilegt þetta sjálfstæðisflokks-syndróm, undarleg fötlun

    Að lokum
    Niður með nýfrjálshyggjuna – Frjálshyggjumenn = flatliners

  8. Er þetta alltaf sami besservisserinn, sem bendir mér á það þegar ég segi “víst” í staðinn fyrir “fyrst”? Þetta hlýtur að koma á endanum hjá mér.

  9. fyrst bretar vildu ekki sjá Landsbankann, segir það ekki að hann sé ekki eins verðmætur og samfylking og vg halda fram?

  10. Þeir vilja ekki Landsbankann vegna þess að þeir þurfa tryggingu fyrir því að þeir fá allt greitt, líka EF landsbankinn dugir ekki fyrir þessu.

    Það erum “við” sem skuldum. Venjulega er það þannig að þeir sem skulda þurfa að færa fleirri fórnir en þeir sem lána.

  11. Svo ég svari spurningu þinni þá er þetta ekki sami besserwisserinn, því það var ég sem benti þér einhvern tímann á þetta. Fer greinilega í taugarnar á fleirum en mér þessi leiða málvilla. Þú hlýtur að fara að ná þessu. 🙂

Comments are closed.