Midsommar í Stokkhólmi

Af því að ég hef ekki bloggað lengi, þá nokkrir punktar.

* Hérna í Svíþjóð er midsommar-helgi, sem er merkiðsviðburður á hverju ári. Stokkhólmur breytist í draugaborg þegar að allir sem mögulega geta, flýja borgina uppí sveit. Við Margrét urðum eftir. Þegar ég fór með plast útí endurvinnslugám var afskaplega skrýtið að labba um Götgötuna. Gatan sem við búum við er nefnilega full af lífi alla daga og alla nætur. En ekki í dag. Nánast allt lokað og fáir á götunni.
* Við nýttum okkur þetta frí í að taka íbúðina í gegn. Við vorum að fá nýjar innréttingar, sem við tókum uppúr kössum. Svo setti ég saman svefnsófa í aukaherbergið þannig að næstu gestir hérna munu fá almennilegt rúm til að gista í. Við tókum líka til í allri íbúðinni, hentum gríðarlegu magni af rusli og slíku. Ég er hálf uppgefinn eftir þetta allt. Ætla að fá mér bjór í verðlaun fyrir allt þetta umstang.
* Við erum búin að sjá tvær grínmyndir í bíó síðustu tvær vikur: I love you Man og The Hangover. Sú fyrri er talsvert betri, en þær eru báðar góðar. Það er svo sjaldgæft að ég hlæji mikið í bíó þannig að það var ánægjulegt að sjá tvær grínmyndir með svo stuttu millibili. Í gær reyndum við að horfa á The Darjeeling Limited í sjónvarpinu með slæmum árangri. En ég fatta heldur ekki Wes Anderson myndir. Kannski er ég ekki nógu klár.
* Ég er búinn að uppfæra iPhone-inn minn í 3.0 stýrikerfið. Þetta er engin bylting, en samt þá er þetta fín uppfærsla, sem að býður kannski uppá fleiri möguleika þegar að hin ýmsu fara að nýta sér möguleikana til fulls (einsog það að geta notað Maps inní sjálfu forritinu – einn af þessum litlu hlutum sem skipta svo miklu máli fyrir forrit einsog það sem ég nota fyrir metró- og strætókerfið hérna í Stokkhólmi). Fyrir utan það sem allir hafa talað um (copy, paste), þá var ég aðallega spenntur fyrir litlu hlutunum, einsog að kerfið höndlar wi-fi heita reiti (einsog Telia HomeRun) mun betur en áður. Eins virðist Safari vera hraðvirkari, sérstaklega í JavaScript þungum síðum einsog Gmail og Google Apps.

Annars getum við vonandi nýtt helgina í einhverja útiveru því að veðrið hérna undanfarna daga hefur ekki verið skemmtilegt. En það á víst að breytast á sunnudaginn, en frá og með þeim degi á að vera sól og 20 stiga hiti marga daga í röð. Það verður skemmtileg tilbreyting. Við förum í matarboð á morgun, en annars er helgin ótrúlega lítið skipulögð sem er nýtt fyrir okkur því að vanalega er annaðhvort Margrét að vinna, eða við þá búin að skipuleggja dagskrá. Það verður fínt að njóta lífsins í rólegheitunum.

One thought on “Midsommar í Stokkhólmi”

  1. Oh, eg eeeeelska Wes Anderson. En eg er sammo med grinmyndirnar.

Comments are closed.