Um helgina var eitt ár frá því að við Margrét fórum á okkar fyrsta stefnumót.
Þessir 12 mánuðir hafa verið stórkostlegir. Án efa þeir bestu á minni ævi. Ég hreinlega gæti ekki hugsað mér betri kærustu.
Til að fagna þessu bauð ég Margréti í stutta ferð um lítil þorp í nágrenni Stokkhólms. Við leigðum okkur bíl og byrjuðum á því að keyra til Oaxen, sem er lítil eyja hér í skerjagarðinum. Þar borðuðum við á Oaxen Krog, sem er einn af frægustu veitingastöðum Svíþjóðar og er m.a á S.Pellegrino listanum yfir 50 bestu veitingastaði í heimi. Staðurinn er heimilislegur og kósí staður á þessari litlu eyju og eftir matinn gistum við í lítilli káettu á bát sem var bundinn við bryggju nálægt staðnum. Við fengum þar afskaplega frumlegan og góðan mat, en matseðlinum er algjörlega breytt á hverju ári.
Frá Oaxen keyrðum við svo til Mariefred þar sem við gistum á elsta gistiheimili Svíþjóðar. Þessi litli bær er þekktur fyrir Gripsholms Slott, sem er einstaklega fallegur kastali. Í Mariefred tókum við því bara rólega, skoðuðum kastalann, löbbuðum um bæinn og nutum lífsins í frábæru veðri.
Ég setti inn myndir á Flickr.
* * *
Í síðustu viku vorum við Margrét svo með gesti þegar að Helga vinkona hennar og Kjartan kærastinn hennar voru hérna í nokkra daga. Þau voru fyrstu gestirnir sem fengu að nota gesta/drasl/tölvuherbergið okkar (aðrir höfðu gist í stofunni). Við Kjartan fórum m.a. á leik með AIK á Råsunda vellinum (á meðan að stelpurnar fóru á Britney Spears tónleika), sem var nokkuð skemmtilegt auk þess sem við sýndum þeim aðeins borgina og borðuðum góðan mat.
Núna eru bara þrír dagar í Indónesíuferðina. Ég er á fullu að klára hluti í vinnunni, svo að ég geti sleppt því að hugsa um vinnuna allan daginn í Indónesíu líkt og ég geri hér.
innilega til hamingju með hvort annað, það er best í heimi að finna einhvern sem maður er svona ánægður með
Takk kærlega. 🙂