Indónesíuferð 4: Strandlíf

Síðustu dagar hafa einkennst af lífi nálægt ströndinni. Við höfum ferðast frá Bali til Gili eyja, svo til Senggigi á Lombok og svo hingað til Kuta á Lombok. Kuta er líka heiti á frægustu ströndinni á Bali, en við erum núna á ströndinni á Lombok, sem er nokkuð afskekkt og ekki of full af ferðamönnum eða sölumönnum.

Ubud á Bali var virkilega heillandi bær. Auðvitað ber hann þess merki að vera haldið uppi af túristum, en honum tekst samt sem áður að vera indónesískur að mörgu leyti. Allavegana eru þarna engar amerískar skyndibitakeðjur líkt og í Jakarta og í Kuta á Bali. Við eyddum alls 4 dögum í Ubud. Margrét var veik hluta tímans þar, þannig að við tókum lífinu rólegar en við höfðum upphaflega planað. En það var líka bara ágætt. Síðasta daginn þar fórum við í hjólaferð um nágrenni bæjarins þar sem við skoðuðum meðal annars Goa Gajah, helli sem var byggður á 10. öld.

Frá Bali höfðum við upphaflega ætlað okkur að fara á bát til Komodo eyju og þaðan til Flores. Hins vegar þá fannst okkur planið þá vera orðið full þétt og við ákváðum á endanum að taka hlutunum aðeins rólegar og fara hægar yfir.

* * *

Frá Ubud tókum við bíl til Padangbai á austurströnd Bali og þaðan tókum við svo hraðbát til Gili eyja. Þær eru klasi af þremur eyjum rétt undan strönd Lombok, sem eru aðallega frægar fyrir einstaklega gott aðgengi að frábærum stöðum til að kafa. Við gistum á stærstu eyjunni, Gili Trawangan. Sú eyja var ekki ólík Roatan í Hondúras þar sem ég lærði að kafa fyrir fjórum árum. Á Trawangan eru engin mótorhjól eða bílar heldur eru allar vörur og slíkt dregnar með hestavögnum. Eina gatan í gegnum bæinn er moldargata (a la Roatan) og við hana liggur samansafn af veitingastöðum, hótelum og köfunarmiðstöðvum. Við tékkuðum okkur strax inná hótel og skráðum svo strax Margréti á 4 daga PADI open water námskeið. Hún byrjaði því strax fyrsta daginn í bóklega náminu.

Næstu þrír dagar fóru svo að mestu leyti í köfun. Ég hef ekki kafað síðan í Belize árið 2005 og var ég því búinn að gleyma flestöllu og þurfti á smá upprifjun að halda. Ég fékk því bara að fljóta með í verklegu hlutunum á tímunum hennar Margrétar. Kennarinn hennar er Íri, sem var afskaplega góður. Ég fór með þeim í gegnum nokkur grunn-atriði í sundlaug og svo köfuðum við saman fjórum sinnum á köfunarsvæðum rétt hjá eyjunum. Aldrei þurftum við að fara lengra en hálftíma frá Trawangan og þá vorum við komin á ótrúlega falleg köfunarsvæði full af lífi. Reyndar er kórallinn á grynnsta svæðinu illa farinn, þar sem að veiðimenn notuðu á árum áður *dínamít* til að veiða fisk, sem að gjöreyðilagði kóralinn. Án efa ein af verstu hugmyndum, sem menn hafa fundið uppá.

Þegar maður kafar þó niður fyrir 12 metra, þá er svæðið æðislegt. Fallegur kórall og ótrúlega fjölskrúðug fiskalíf. Allt frá litlum “Nemo” fiskum til risastóra Humphead parrotfish (sem sjást bara þegar tunglið er fullt) og svo risa-skjaldbakna. Ég var næstum því búinn að gleyma hvað mér finnst í raun gaman að kafa, en núna er áhuginn svo sannarlega kominn aftur.

* * *

Eftir síðustu köfunina og eftir að Margrét var komin með PADI skírteinið tókum við svo lítinn bát til Lombok. Lombok er eyja, svipuð að stærð og Bali – og rétt hjá henni, sem fær þó aðeins brot af þeim ferðamönnum, sem koma á Bali. Öll eyjan er mun íhaldsamari. Hér eru múslimar í meirihluta (með tilheyrandi bænaköllum og slæðum fyrir konur) og mun minna er um vestræn áhrif (minna af Coca Cola og slíku). Við byrjuðum á því að keyra ótrúlega fallega leið frá Bangsali (þar sem að báturinn frá Gili endaði) til Senggigi, sem er nokkuð þekktur strandbær hér. Þar slöppuðum við af (eftir þrjá daga á kafi) í sólbaði.

Í dag fengum við okkur svo bíl sem keyrði okkur frá Senggigi til Kuta, sem er strandbær á suðurhluta eyjarinnar, sem liggur að Indlandshafi. Á leiðinni stoppuðum við í Sade, hefðbundnu Lombok þorpi, þar sem við fengum að skoða hvernig lífið gengur fyrir sig. Auk þess að fá færri túrista þá er Lombok mun líkari Jövu en Bali. Bali og Gili eyjarnar virkuðu á mann einsog eins konar paradís, en á Lombok líður manni meira einsog maður sé kominn aftur til Indónesíu. Hérna eru vegirnir aftur slæmir, fátæktin aftur gríðarlega áberandi, múslimar í meirihluta, og lífið snýst ekki um að dekra við útlendinga. Það er líka alltaf gott að koma aftur á staði þar sem að túristar eru ekki útum allt.

Kuta á Lombok er enn tiltölulega lítið sóttur strandbær nema aðallega af brimbrettafólki. Það kann þó að breytast enda hefur fasteignafyrirtæki frá Dubai uppi áform um að byggja hér risahótel og golfvelli. Það er frekar magnað eftir að hafa heimsótt bæi þar sem að fólk nær bara einni uppskeru á ári vegna þess að það hefur ekkert vatnsveitukerfi fyrir akrana, að í smá fjarlægð skuli standa til að byggja golfvelli, sem að drekka í sig vatn einsog þeim sé borgað fyrir það. En svona er þetta víst.

Við vitum ekki alveg hvort við verðum hérna í Kuta í einn eða tvo daga í viðbót en leiðin mun allavegana liggja næst aftur til Bali þar sem við ætlum að eyða nokkrum dögum áður en við fljúgum til Borneo í þriggja daga ævintýraferð á vit Órangútan apa.

Skrifað í Kuta á eyjunni Lombok í Indónesíu klukkan 18.52

4 thoughts on “Indónesíuferð 4: Strandlíf”

  1. Sæll Einar,
    Gaman að fylgjast með þessu hjá ykkur, já enda sérstaklega gaman fyrir mig þar sem ég er á leiðinni til Indonesia núna í Október:-)
    Þannig að lesa þessi ferðablogg hefur hjálpað mér mikið í því að ákveða hvað ég vil gera þarna:-) Já eitt af því er köfun, þú mælir þarna með PADI námskeiði hjá einhverjum Íra, er nokkur möguleiki að þú getir reddað mér emaili eða heimasíðunni hjá honum?
    ÁJ

  2. Hæ Ásgeir.

    Hann Phil sem að kenndi mér verður mjög líklega ekki þarna ennþá í október. Hann býr á Tælandi en kom til Indónesíu til að kenna á high season núna í sumar. En ég mæli með skólanum sem að við fórum í. Hann er mjög pro og eini skólinn á Indónesíu sem er búin að fá einhver sérstök verðlaun frá PADI.

    Hér er slóðin: http://www.hotelombak.com/facilities/vila-ombak-diving-academy.html

    Gangi þér vel 🙂

  3. Tókuð þið einhverjar myndir í köfuninni? Maður fær bara í magann að hlusta á allar köfunarsögurnar ykkar. Gott að heyra að allt gengur vel hjá ykkur.

    Kv. Borgþór og fjölsk.

Comments are closed.