Indónesíuferð 8: Ferðalok

Við Margrét komum aftur til Stokkhólms snemma í morgun eftir ansi langt ferðalag frá Bali. Fyrst flug frá Bali til Jakarta (þar sem að vegabréfið beið eftir mér), svo frá Jakarta til Bangkok og eftir dálitla bið (og sjúskaðan hamborgara) þar þá flugum við frá Bangkok hingað til Stokkhólms. Rúmlega 27 tímar frá hóteli á Bali til íbúðarinnar okkar á Södermalm.

Myndirnar eru komnar inná tölvuna, en ég á eftir að laga þær til, merkja og slíkt. Þetta voru alls um 1.500 myndir, en þeim mun fækka verulega á næstunni. Ég setti þó inn eina fína mynd af órangútunum, sem við sáum á Borneó og voru klárlega einn af hápunktum ferðarinnar.

(smella hér til að sjá stærri útgáfu).

Þetta er búin að vera frábær ferð. Það er vissulega öðruvísi að vera ekki einn á ferðalagi einsog ég hef verið undanfarin ár – og verð ég að segja, betra. Við Margrét höfum aldrei verið svona mikið saman (24/7 allan tímann) en þetta gekk alveg ótrúlega vel. Fyrir henni var ansi margt framandi við svona ferðalög – skítug hótel, pöddur og eðlur, sjúskaðir veitingastaðir og svo framvegis – og ég geri mér grein fyrir að ekki allir myndu vera jafn opnir fyrir þessum nýjungum einsog hún var í ferðinni. Fyrir þá sem ekki vita þá hefur hún líka skrifað (að mínu mati mjög skemmtilegt) ferðablogg í þessari ferð.

Indónesía er skemmtilegt land og við náðum aðeins að sjá smá brot af því í þessari ferð. Við fórum þó nokkuð hratt yfir – sáum eyjurnar Jövu, Bali, Lombok, Gili Trawangan og Borneo. Það þýðir að við eigum eftir merkilegar eyjur einsog Sulawesi, Flores, Tímor og Papúa – auk þess sem við sáum bara lítinn hluta af t.a.m. Borneo.

Ég mæli með Indónesíu – fólkið er indælt, landið er frekar ódýrt og maturinn er góður. Það er lítið mál að eyða afskaplega litlu í mat og gistingu þarna, en svo er líka ansi auðvelt að eyða gríðarlegum fjárhæðum – fer bara eftir því hvað fólk vill. Það sem stendur uppúr í þessari ferð er að mínu mati: Borobodur, Ubud á Bali, köfun á Gili Trawangan og órangútar á Borneó.

Ég vona að þið hafið haft gaman af þessum ferðasögum – og að mér hafi tekist að koma til skila mörgu af því sem gerir Indónesíu að svo heillandi landi.

Takk.

*Skrifað á eyjunni Södermalm í Stokkhólmi, Svíþjóð klukkan 16.24*

7 thoughts on “Indónesíuferð 8: Ferðalok”

  1. Takk fyrir skemmtileg skrif. Ég er strax kominn með hugmyndir um hvað mig langar að gera næst þegar ég hef tækifæri. Ég held ég verði að sjá Órangútana.

  2. orangútar eru það næst sætasta í heimi á eftir bræðrum mínum.

    Bromo var líka ein af “stendur upp úr” upplifunum þessarar ferðar

  3. Frábært ferðablogg hjá ykkur báðum, hlutirnir birtast manni ljóslifandi. Búið að vera hreint út sagt meiriháttar að geta fylgst með þessu öllu saman í gegnum tölvuna.
    Ég er farin að hlakka til næsta ferðalags hjá ykkur 🙂
    kv,
    Sigurjón Arthur

  4. Velkominn í menninguna,.. og takk æðislega fyrir flott ferðablogg. Gaman að lesa bloggið hennar Margrétar,.. fá hitt sjónarhornið upp á yfirborðið.

    Kv. Borgþór og fjölsk.

  5. Virkilega gaman að renna yfir þessar frásagnir. Þetta virðist hafa verið hin besta ferð, sambland af ævintýrum, magakveisu, dýralífi, skrautlegum rútuferðum og seinkunum. Ég fór um Jakarta fyrir nokkrum árum en stoppaði stutt við en fór á einhverja eyju þar hjá og skemmti mér konunglega. Sé núna að maður þarf að fara aftur til að gera þetta almennilega.

    Bestu kveðjur,
    Ágúst Ólafur

  6. Hæ hæ bæði tvö:-)
    Vil bara kvitta fyrir mig, búið að vera frábært að fylgjast með þessu hjá ykkur:-)
    Takk Margrét fyrir uppisýngarnar um köfunina, ég er komin í samband við þá og ég er mjög sáttur:-)
    ÁJ

  7. Jamm, Ágúst – það er alveg þess virði að gera eitthvað meira en í Jakarta. Það er ótrúlega margt að sjá í þessu landi.

    Og Ásgeir, ekkert mál. Vonandi að ferðin þín verði góð.

Comments are closed.