Ég er búinn að baksa við það þessa helgi að setja Snow Leopard inná tölvurnar hérna á heimilinu. Ég keypti stýrikerfið í Apple búð hérna í Stokkhólmi á föstudag.
Á fyrstu tölvunni, fartölvunni hennar Margrétar, var þetta ekkert mál. Sú tölva er ný og ekkert vesen á henni. Hins vegar lenti ég í talsverðum vandræðum með mína fartölvu. Hún er þriggja ára gömul og er farin að verða til vandræða á sumum sviðum, þó það sé í raun með ólíkindum hversu vel hún hefur reynst mér. Ég held að mér sé óhætt að segja að ég hafi notað hana í marga klukkutíma á nánast hverjum einasta degi síðustu 3 ár. Hún hefur ekki enn bilað (fyrir utan að ég skipti um rafhlöðu einu sinni). Þegar ég ætlaði að setja inn Snow Leopard lenti ég hins vegar í vandræðum þar sem að DVD drifið í vélinni er í einhverju rugli.
Ég nota DVD drifið nánast aldrei – held að ég hafi ekki notað það síðan að ég setti síðast inn einhver Apple forrit (sennilega iLife09). Drifið gat ekki almennilega lesið diskinn og hann festist í tölvunni í smá tíma. Eftir að hafa potað einhverjum vír inní drifið tókst mér þó að ná honum út og með smá basli (og aðstoð tölvunnar hennar Margrétar) þá tókst mér samkvæmt þessum leiðbeiningum(og Maclantic spjallborðinu, sem klikkar aldrei þegar maður er í vandræðum) að setja upp Snow Leopard á minni tölvu í gegnum utanáliggjandi harðan disk.
Hjá Margréti þá uppfærði ég stýrikerfið bara á eðlilegan hátt og þar virðist allt virka fínt. Tölvan er fljótari að keyra sig upp, en annars verður maður ekki var við miklar breytingar. Á minni tölvu ákvað ég hins vegar að strauja harða diskinn og byrja alveg uppá nýtt og setja bara inn forrit og skrár einsog ég þurfti (eftir að hafa tekið afrit yfir á utanáliggjandi disk).
Hjá mér kann tölvan greinilega vel við þessa fersku byrjun. Hún er mun fljótari að keyra sig upp og allt virkar hraðvirkara. Mín tölva er þó það gömul að hún getur ekki nýtt sér alla möguleikana í Snow Leopard (t.d. er skjákortið ekkert spes og því nýtur hún ekki OpenCL einsog nýrri tölvur).
Annars eru engar stórar breytingar sem ég finn fyrir. Preview (sem ég nota mikið) virkar betur og Quicktime forritið lítur betur út. Svo eru breytingar í Exposé þannig að ég er farinn að nota það í fyrsta skiptið í langan tíma.
Þessi uppfærsla kostaði þó bara 319 sek og því munu sennilega flestir drífa sig í að uppfæra. Ég held þó að flestar breytingarnar í Snow Leopard séu þess eðlis að maður mun ekki sjá þær gera gagn nema eftir einhvern tíma. Að mörgu leyti snýst kerfið um að uppfæra grunnstoðirnar þannig að forrit geti nýtt sér betur kraft tölvunnar í framtíðinni. En fyrir daglega vinnslu þá er ekki mikið sem breytist, nema jú að hraðinn er meiri.