Við Margrét fórum í stutta ferð til Færeyja um síðustu helgi. Við vorum varla byrjuð að taka uppúr bakpokunum okkar þegar að við áttum flug aftur frá Stokkhólmi (24 tímum eftir að við lentum eftir Indónesíuferðina). Við flugum því til Kaupmannahafnar og þaðan til Voga í Færeyjum.
Ég hef aldrei komið til Færeyja áður, en það hefur lengi verið á dagskrá hjá mér að skoða bæði Færeyjar og Grænland. Það er í raun með ólíkindum hversu fáir í kringum mann hafa heimsótt þessi tvö lönd sem liggja Íslandi næst. Ástæða ferða okkar núna var að amma Margrétar (í föðurætt) átti 70 ára afmæli. Hún er fædd í Færeyjum, en flutti þegar hún var 16 ára til Íslands til að vinna í fiski og endaði á því að setjast þar að.
Í tilefni afmælisins var stór hluti fjölskyldunnar kominn til Færeyja (auk þess sem að stór hluti hennar býr auðvitað í Færeyjum). Við fengum að gista hjá frændfólki Margrétar í Þórshöfn. Þar eyddum við tíma með fjölskyldunni, borðuðum heil ósköp af mat og skemmtum okkur vel. Auk þess fengum við smá tíma á sunnudeginum til að keyra um eyjuna.
Ég smakkaði það sem allir segja að maður þurfi að smakka – það er skerpikjöt, sem er þurrkað lambakjöt (ekki gott), rastkjöt (öllu betra) og færeyskan bjór (góður). Og ég fékk aðeins að kynnast færeyskri gestrisni, sem er frábær.
Við keyrðum aðeins um eyjuna. Við skoðuðum Kirkjubæ, sem eru merkustu söguslóðir í Færeyjum, en þar eru meðal annars rústir dómkirkju sem var reist að hluta til árið 1300.
Einnig keyrðum við til þorpsins Sörvágur þar sem pabbi Margrétar bjó einu sinni. Það er lítið þorp þar sem núna búa um þúsund manns.
Allt landslagið sem við sáum er afskaplega líkt sumum stöðum á Íslandi. Nánast engin tré eru sjáanleg (nema í húsgörðum) og allt einkennist af miklu grasi og fjöllum.
Við gátum vissulega ekki séð mikið á þremur dögum í Færeyjum, en það var nóg til þess að manni langaði að fara þangað aftur. Ég tók slatta af myndum og er búinn að setja nokkrar þeirra inná Flickr.
Það er gaman að koma til færeyja….. og altaf gaman að lesa ferðasögunar þínar 🙂
P.s Föreyjarbjórinn er víst kominn í vínbúðir á Íslandi 🙂
Færeyjar er náttúrulega frábært land og gestrisnari þjóð hef ég ekki kynnst. Föreyjarbjórinn var mjög góður. ÞAð eru frábærar fréttir að heyra að bjórinn sé kominn í vínbúðir á Íslandi. Fáránlegt í rauninni að það hann hafi ekki komið miklu fyrr miðað við hvað það er stutt á milli eyjanna og hversu bjórinn er í raun rosalega góður. 🙂