Ferðin til San Francisco var frábær. Ég er núna á síðustu 13 mánuðum búinn að fylgjast með tveim bestu vinum mínum frá háskóla-árunum giftast stelpum sem voru með okkur í skóla.
Í fyrra fylgdust við Margrét með brúðkaupi Ryan, fyrrum herbergisfélaga míns, og Kate – sem bjó með okkur á sama dorm-i fyrsta árið í skólanum. Það brúðkaup var frábært. Athöfnin fór fram undir berum himni í litlum bæ rétt hjá Boston. Athöfnin var einföld, einlæg og skemmtileg. Hún var ekki á neinum trúarlegum nótum – þannig að ekkert var lesið uppúr Biblíunni, heldur frekar fókuserað á að tala um brúðhjónin, fjölskyldur þeirra og slíkt. Ættingjar komu m.a.s. upp í athöfninni og héldu stuttar ræður. Lögin sem voru flutt í athöfninni voru svo skemmtileg dægurlög, sem að allir gátu sungið viðlagið við. Veislan var svo ótrúlega persónuleg og skemmtileg með frábærum ræðum (þar á meðal héldu brúðhjónin langa ræðu sem var stórkostleg) og dansi.
* * *
Dan var besti vinur minn í háskóla. Hann bjó aðeins neðar í ganginum í dorm-inu okkar. Á ganginum okkar voru aðallega strákar sem höfðu búið í dorm-inu í 2-3 ár. Við fjórir (herbergisfélagi Dan þar með talinn) vorum þeir einu á fyrsta ári. Við Dan urðum fljótlega mjög góðir vinir. Hann bjó svo annað árið með Ryan (á meðan að ég flutti með fyrrverandi kærustu minni í íbúð frá campus) og svo leigði hann sér íbúð síðustu tvö árin, þar sem að ég var tíður gestur – og bjó í raun með þeim síðustu tvo mánuðina mína í Bandaríkjunum.
Þetta voru vissulega frábærir tímar og þá sérstaklega síðasta sumarið þar sem að ég var ekki í vinnu, heldur naut bara lífsins með nokkrum vinum mínum.
* * *
Við Margrét komum á miðvikudaginn til San Francisco eftir gríðarlega langt ferðalag frá Stokkhólmi. 9 tímar til Philadelphia, 3 tímar þar og svo 5 tímar til San Francisco. Strax daginn eftir að við komum var svo haldið steggjapartí fyrir Dan. Ég var sóttur á hótelið okkar klukkan 7 og við keyrðum svo 5 strákar í norð-austur framhjá Sacramento og að rafting stað, þar sem við fórum á rafting niður American River. Ég hef áður farið með góðum vinum í rafting á Austari Jökulsá, en þessi rafting ferð var allt öðruvísi. Fyrir það fyrsta var veðrið æðislegt, um 25 stiga hiti og við gátum því verið bara í stuttbuxum og bol. Auk þess var þessi á mun rólegri og því var þetta frekar afslappandi ferð, við dýfðum okkur í ána ekki vegna þess að bátnum hvolfdi, heldur eingöngu vegna þess að okkur var svo heitt.
Um kvöldið fórum við svo útað borða á mjög vafasaman þýskan veitingastað, sem heitir Schnitzel Haus, þar sem að bjórinn var drukkinn í allt að tveggja lítra stórum glösum (einsog stígvél í laginu) og á klósettinu voru ælubitar á setunni. Þaðan héldum við svo á klúbbarölt, sem best er að segja ekki mikið meira frá. Ég afrekaði þó í fyrsta sinn á ævinni að ferðast um í limósínu. Það var ágætis tilfinning að keyra um San Francisco á slíku farartæki.
* * *
Restina af tímanum í San Francisco nutum við svo lífsins. Tommi vinur okkar býr þarna og við hittum hann þrisvar. Fórum á djammið á föstudeginum, löbbuðum hálfa borgina með honum á laugardeginum og svo hittum við hann á mánudagskvöldinu á California Pizza Kitchen, sem var eini keðju-veitingastaðurinn sem ég þurfti nauðsynlega að fara á, enda eru þar bestu pizzur í heimi.
Auk þess löbbuðum við um borgina, frá Mission til Castro, um miðbæinn og á ströndinni. Borðuðum burrito á Mission taqueríu og fleira. Á laugardagskvöldið var svo rehearsal dinner á mexíkóskum stað í miðborginni þar sem að flestir brúðkaupsgestir mættu.
* * *
Brúðkaupið var svo á sunnudeginum. Ég var grooms-man í brúðkaupinu. Brúðkaup í Bandaríkjunum eru á marga vegu ólík þeim heima. Fyrir það fyrsta þá eru vinir brúðhjónanna virkari þáttakendur í undirbúningnum og athöfninni. Dan var með fjóra grooms-man og Carrie með fjórar brides-maids, sem hjálpuðu þeim. Ég sem grooms-man mætti á æfingar fyrir brúðkaupið á föstudeginum, hjálpaði við að skipuleggja bachelor partíið og svo vorum við fjórir allir í því að hjálpa Dan á brúðkaupsdaginn. Við hittumst fyrir brúðkaupið, héldum honum félagsskap fyrir brúðkaupið og reyndum að draga úr stressinu. Í sjálfri athöfninni stóðum við svo við hlið þeirra brúðhjóna.
Einsog athöfnin hjá Kate og Ryan var þessi skemmtileg. Pabbi Dan og systir sungu í athöfninni gamalt Stevie Wonder lag (og allir sungu með). Í veislunni var svo mikið dansað. Ég hélt ræðu, sem fékk góðar undirtektir og fólk hló mikið – sem að var ótrúlega gaman (auk þess sem ég fékk mikið hrós á eftir). Eftir veisluna vorum við svo langt fram eftir nóttu í partíi á einu hótelherbergi.
Frábært brúðkaup og frábær ferð.
Skrifað í flugvél yfir Bandaríkjunum klukkan 12.51 – 8.september 2009.
Þið getið farið að leigja út íbúðina ykkar í Stokkhólmi,.. eruð þið ekki síðan að fara heim á klakann í dag? Talandi um “frequent flyers”.
Eruð þið búin að sækja um inngöngu í Mile-High klúbbinn?
Skemmtið ykkur vel í brúðkaupinu hjá Emil og Ellu.
Kv. Borgþór