iPhone símanum mínum var stolið í Indónesíu fyrir næstum því tveimur mánuðum. Síðan þá hef ég verið að nota Nokia 2760, sem er lélegur sími.
Lélegur er eiginlega ekki rétta orðið. Hryllilegur væri betra orð. Svo hryllilegur að ef ég fengi svona síma gefins með Stjörnumáltíð á McDonald’s, þá er ég ekki viss um hvort ég myndi halda honum. Það ískrar í sjálfum símanum þegar ég opna hann, ég annaðhvort heyri ekki í fólki eða þá að það er einsog það sé að tala í gjallarhorn 3cm frá eyranu mínu og svo framvegis. Á hverjum degi langar mig til þess að dúndra honum í næsta vegg. Ég meira að segja passa mig á að hafa hann ekki nærri mér þegar ég er að horfa á Liverpool af ótta við að hann myndi fjúka útum gluggann ef að mínir menn myndu klúðra góðu færi.
Síðan að ég kom heim hef ég verið með mál í gangi hjá sænska tryggingafélaginu mínu til að fá iPhone símann bættann. Þeir báðu um lögregluskýrslur og slíkt, sem ég hafði vissulega frá Indónesíu. Í dag fékk ég loksins í póstinum bréf frá tryggingafélagina þar sem mér var tjáð að þeir myndu bæta mér símann upp að fullu og ég gæti því farið útí Telia og keypt mér nýjan iPhone. Ég nánast trylltist af gleði, faðmaði Margréti og labbaði útí Telia búð áðan.
…þar sem mér var tjáð að iPhone væri uppseldur og að þeir vissu ekki hvenær hann kæmi aftur.
Ég hef komist að því á þessum vikum að ég var orðinn algjörlega háður iPhone símanum mínum. Hann er svo langsamlega besti síminn sem ég hef átt að það er nánast ekki fyndið. Ég nenni varla að fara útað hlaupa þar sem að ég get ekki notað GPS tækið í símanum mínum til að mæla hlaupið, ég meika varla langar lestarferðir lengur þar sem ég get ekki kíkt á póstinn minn – og ég enda alltaf á að bíða lengur útá lestarstöð þar sem ég get ekki notað símann til að sjá nákvæmlega hvenær næsta lest kemur. Ég hef misst af fundum þar sem ég hafði ekki dagatalið í símanum. Núna þarf ég að vera með iPod, síma og minnisbók í staðinn fyrir bara iPhone. Og svo framvegis…
Já, ég veit að þetta er væl, en ég sakna gamla símans míns.
Ég er búinn að eiga minn iPhone 3Gs í tæpan mánuð núna og ég myndi hengja mig ef honum yrði stolið, það er svo einfalt.
Ég er ekki alveg viss um að ég gangi svo langt. En þetta reynir á.
Þið eruð vælukjóar. Ég á Nokia 6220 Classic og hann er yndislegur, gerir allt sem ég þarf og ég þarf ekkert annað tæki (eins og iPod) með honum. Ef ég uppfæri hann á næstunni verður það fyrir annað Nokia-tæki, eins og E72 eða N800, sem eru væntanlegir.
Nokia rúlar.
Kristján: Hefur þú átt iPhone? (ég spyr vegna þess að ég skipti úr Nokia N95 yfir í iPhone).
Kristján hefur ekki átt iPhone. Annars myndi hann ekki tala svona. Svo einfalt er það. Væntingar manns til síma eru einfaldlega allt aðrar eftir að maður hefur notað iPhone í nokkra mánuði.
Ég á iPod Touch og hef margoft handfjatlað iPhone (þ.m.t. hjá Einari) og skoðað forrit og slíkt. Eruð þið að segja mér að skoðunin breytist eftir að hafa haft hann í vasanum í einhverja daga, frá því sem maður myndar sér við nákvæma skoðun?
Nokia fyrir mig, takk. 🙂
Já, ég er að segja þér það Kristján. Hér (NY) eiga “allir” iPhone þannig að ég var líka búinn handfjatla iPhone maaaargoft áður en ég eignaðist hann. Ég var nokkuð sáttur við minn Nokia N95, en eins og Einar segir þá breytast væntingar manns til síma stórkostlega eftir að maður eignast iPhone.
Nokia, aldrei aftur fyrir mig, takk. 😀
hahaha þetta er fáránlega fyndin umræða.
Mig langar líka í iphone
Sæll, hvaða forrit ertu að nota til að tracka hlaupin?
Ég nota RunKeeper. Eftir síðustu uppfærslur þá er það orðið algjörlega frábært forrit. Þú getur prófað ókeypsi útgáfu af því (Runkeeper Free), en ég mæli með kaupum til að styrkja forritið.