Síðustu vikur…

Það er orðið svo langt síðan að ég bloggaði síðast að ég ætla að skrifa niður einhverja punkta. Margrét er að læra fyrir próf á bókasafni útí bæ svo ég er bara einn heima á sunnudagseftirmiðdegi.

* Við fórum á 2012 í gær. Það var furðuskemmtileg mynd. Mér hefur fundist allar myndirnar hans Roland Emmerich vera leiðinlegar, en þessi var bara nokkuð góð.
* Á Serrano erum við að vinna á fullu við stað númer 2, sem mun opna í lok janúar. Staðurinn er í Sundbyberg, sem er úthverfi, norðvestur af miðbæ Stokkhólms. Þessi staður verður mun stærri og glæsilegri en sá sem við rekum í dag. Fyrir það fyrsta þá verður þetta algjörlega okkar staður, en ekki staður sem við deilum með Subway einsog við gerum í dag. Alls er hann um 150 fermetrar og þarna verða sæti fyrir um 40 manns. Við fengum plássið afhent í síðustu viku og núna eru okkar iðnaðarmenn byrjaðir að vinna í bilinu. Ég tók myndir í síðustu viku, sem sýna stöðuna í dag. Þetta verður mjög spennandi á næstu vikum.
* Við höfum haft fulltaf fólki í heimsókn og síðast voru hérna Emil & Ella og svo Eva María á sama tíma. Það var mjög skemmtilegt. Emil og Ella voru hérna mjög stutt og auk þess að elda saman hérna heima, þá borðuðum við á Pet Sounds Bar með þeim öllum, sem er virkilega góður, lítill veitingastaður hérna á Söder. Svo fórum við á National Museum í fyrsta skipti með Evu Maríu.
* Um síðustu helgi eyddum við Margrét laugardeginum í að versla í miðbænum. Stokkhólmur er að lifna við með öllum jólaljósunum eftir að nóvember mánuður hafði verið einstaklega dimmur (það voru 14 tímar af sólskini allan mánuðinn). Við keyptum meðal annars jólaskraut og svo elduðum við kalkún samanum kvöldið sem tókst vel upp. Jólaskrautið er nokkuð merkilegur viðburður því þetta er í fyrsta skipti sem að mitt eigið heimili er skreytt jólaskrauti. Það er í raun mögnuð staðreynd miðað við aldur. Margrét er búinn að þrýsta á það að fá að spila jólalög síðan um miðjan nóvember og ég hef látið undan síðustu daga.
* Ég er kominn með nýja tölvu eftir að gamla tölvan mín dó. Þetta er 15″ Macbook Pro með möttum skjá. Ég ætla að skrifa um hana þegar ég er búinn að nota hana aðeins lengur, en fyrsta vikan með þessari tölvu hefur verið frábær. Þvílíkur munur á henni og þriggja ára gömlu vélinni minni.

Þetta er ágætt í bili. Ég ætla að reyna að vera aðeins duglegri við að uppfæra þetta blogg á næstu vikum.

4 thoughts on “Síðustu vikur…”

  1. Glæsilegt, ánægður með þessa útbreiðslu hjá ykkur. Fór einmitt til Reykjavíkur um daginn og datt beint í nautakjöts burrito. Gangi þér vel!

Comments are closed.