Kærastan mín bendir á að í dag er eitt ár síðan að hún flutti hingað til Svíþjóðar og við byrjuðum í raun að búa saman. Við höfðum jú búið saman í kommúnunni á Njálsgötu með vinum okkar, en hlutirnir breyttust vissulega þegar við byrjuðum að búa saman ein hérna í Stokkhólmi. Þetta er búið að vera frábært ár.
* * *
Byggingarvinnan á staðnum í Sundbyberg gengur mjög vel og við áætlum að opna 27.janúar. Það eru rétt rúmar tvær vikur þangað til og ég held að sú dagsetning muni bara standast. Ég skrifa kannski meira um þær breytingar sem verða þegar að nær dregur að opnun, en ég og Anders rekstrarstjóri vorum útí Sundbyberg í dag og þar tók ég nokkrar myndir, sem ég setti inná Flickr.
Eini gallinn er að við munum ekki geta selt áfengi frá fyrsta degi þar sem að ég þarf að sækja *þriggja daga* námskeið um sölu á áfengi áður en við fáum áfengisleyfi. Það verður ábyggilega hressandi.
* * *
Annars er lífið hérna í Stokkhólmi búið að vera fínt síðan við komum heim frá Íslandi. Margrét er á fullu að læra undir próf og ég á fullu við að undirbúa opnunina. Á kvöldin hef ég svo tekið því frekar rólega, enda þurfti ég á allavegana mánaðarlangri afvötnun að halda eftir þessa Íslandsferð. Eini gallinn við þennan tíma hérna í Stokkhólmi er þessi mikli kuldi sem hefur verið hérna. Ég hef ekki enn treyst mér út að hlaupa og labbið á skrifstofuna er ansi hreint kalt í þessu veðri. En það er sennilega nóg að ég kvarti yfir þessu veðri á Facebook – þetta er nú ekki svo alvarlegt.
Hef orðið þess heiðurs aðnjótandi að fylgjast með ævintýrum þínum – og svo ykkar – og óska ykkur alls hins besta. Taka ber fram, að það er aðeins í gegnum þetta vefsvæði.
Gerir þitt af kæruleysislegri fagmennsku. Svona eins og halda með Liverpool.
ps. Það má vera meira lesefni í Hafnarfirði. Síðast var aðeins viku gamall Fjarðarpóstur.
Við mætum þann 27:a í Sumpan! Hvar er þetta nákvæmlega?
Takk Ak. Við skoðum þetta með lesefnið.
Davíð, þetta er Landsvägen 52 í Sundbyberg – alveg við lestarstöðina. Við hliðiná Pressbyrån.