Kvöldverður á Edsbacka Krog

Við Margrét áttum 1,5 árs afmæli í síðasta mánuði.  Af því tilefni borðuðum við á einum albesta veitingastað sem ég hef nokkurn tímann borðað á, Edsbacka Krog í Sollentuna (sjá myndir sem við tókum). Edsbacka Krog er einn af aðeins tveimur veitingastöðum í Svíþjóð sem er með 2 Michelin stjörnur.  Hinn staðurinn er veitingasstaður Mathias Dahlgren í Stokkhólmi (á hinum Norðurlöndunum er einn 2 stjörnu staður í Danmörku, Noregi og Finnlandi.

Ég hef aðeins einu sinni afrekað að fara á 2 stjörnu Michelin stað og það var Bagatelle í Osló.  Oaxen Krog hérna í Svíþjóð þar sem við fórum síðasta sumar og er talinn vera einn af bestu veitingastöðum heims fær ekki Michelin stjörnu þar sem hann er sveitastaður og Michelin fókuserar á borgir.

Nautakjötið

Allavegana, Edsbacka Krog mun loka í febrúar.  Eigendur staðarins voru búin að fá nóg af rekstrinum og vildu gera eitthvað nýtt.  Það er auðvitað gríðarlegt stress fólgið í því að reka Michelin stað og því ákváðu þeir að loka staðnum og gera eitthvað annað.  Ég las um þetta í nóvember og fannst ég ekki geta sleppt því að borða á þessum stað áður en hann lokaði og ákvað að panta borð fyrir janúar.  Mér tókst að fá borð, sem hafa síðan öll verið upppöntuð síðan í byrjun desember.

Við vissum ekki alveg við hverju við ættum að búast á Edsbacka.  Ég er ekki alltaf ánægður á dýrum veitingastöðum – oft er maturinn tilgerðarlegur, uppfullur af dóti sem ég ekki fíla – og ég er alveg eins líklegur til að elska matinn á götustað í Mexíkó einsog á fínum og dýrum stað.

Margrét með konfektmola

En Edsbacka Krog var frábær upplifun.  Maturinn, þjónustan, allt var frábært. Staðurinn býður í dag bara uppá fastan matseðil – annars vegar 9 rétta og hins vegar 5 rétta, sem að við pöntuðum.  Auk þeirra voru svo bornir fram litlir smakk-réttir á milli mála og svo (ótrúlega gott) brauð.  Svona leit þetta út (nota bene, ég hef aldrei heyrt um hluti sem voru bornir fram í rétt 1 og 3 – ekki von að við höfum ekki fattað hvað það var þegar að sænskur þjónninn sagði okkur frá því – ég fann orðin á orðalista Gestgjafans, sem er snilldarsíða.).

  1. Salat með kjúklingi, vætukarsa og gúrku.
  2. Humarsúpa.
  3. Nautakjöt með lauk, nautasoði og svarthreðku.
  4. Mygluostur með ávaxta- og hnetubrauði og beikon ís.
  5. Brioche, kókos sorbet og grænt te.
  6. Himneskt Konfekt.

Þetta var algjörlega frábært, borið fram með tilheyrandi vínum.  Humarsúpan var kannski það hefðbundnasta á seðlinum, annað mjög frumlegt og ótrúlega gott – sérstaklega nautakjötið.  Meira að segja beikon ísinn var góður.  Það eina sem ég gat ekki borðað voru mygluostarnir, Margrét sá um þá.

Bíðandi eftir strætó fyrir utan staðinn í snjónum.

Að fara út að borða á góðum veitingastað er með því skemmtilegasta sem ég geri, en það gerist ekki oft að maður fari á veitingastaði þar sem að upplifunin öll er svona fullkomin. En svona kvöld eru ógleymanleg.

2 thoughts on “Kvöldverður á Edsbacka Krog”

  1. Ó lord, þetta hljómar mjög vel! Ég hefði samt frekar viljað mygluost með beikonbragði og svo ís með ávaxta- og hnetubragði, en þá væri þetta ábyggilega ekki Michelin stjörnustaður

Comments are closed.