Brúðkaup eftir tvær vikur

Í þessum mánuði ætlum við Margrét Rós að gifta okkur.

Ég hef áður skrifað á þessu bloggi um það hvernig við trúlofuðum okkur í Róm í ágúst á síðasta ári. Við vissum alltaf að þegar við myndum trúlofa okkur þá vildum við láta brúðkaup fylgja ári seinna og við það ætlum að standa.

Síðustu daga hefur Margrét verið á Íslandi en ég í Svíþjóð. Í heila 10 daga höfum við verið í sitthvoru landinu, hún heima hjá mömmu sinni og ég og Suarez einir í Stokkhólmi. Þetta er svo sem ekki langur tími en í þau þrjú ár sem við höfum verið saman þá höfðum við aldrei verið svona lengi í sundur.

Þessi tími var að mörgu leyti gagnlegur. Ég þurfti engar frekari staðfestingu á því, en mér finnst ekkert rosalega gaman að búa einn. Ég þarf vissulega minn tíma einn. Mér finnst stundum gott að koma heim þegar að enginn er heima, eða fá að hafa hálft kvöld þar sem ég er bara í tölvunni eða gera eitthvað þar sem ég er einn í heiminum. Ég hef alltaf haft þá þörf og mun sennilega alltaf hafa.

En slíkt verður gamalt. Það var gaman fyrstu kvöldin að þurfa ekki að hafa áhyggjur af sumum hlutum og geta eytt kvöldinu í að spila xBox. En eftir 2-3 kvöld var ég alveg kominn með nóg.

* * *

Ég hef ekki skrifað mikið um mínar tilfinningar síðan ég byrjaði með Margréti. Þetta blogg var smá þekkt sem blogg um stelpur og tilfinningar mínar. Mér fannst áður gott að fá útrás fyrir mínar tilfinningar og pirring. En síðustu 3 árin hafa bara verið svo góð að ég hef ekki þurft á því eins mikið að halda. Í stað þess að pirra mig á því að íslenskar stelpur séu svo ómögulegar þá situr við hliðiná mér besta, klárasta og sætasta stelpa sem ég þekki.

Ég var einu sinni örlagatrúar – ég hélt að allt baslið með kvenfólk og öll samböndin sem ég var í myndu á endanum leiða til einhvers góðs. En með árunum hef ég algjörlega hætt að trúa á Guð og ég hef líka hætt að vera örlagatrúar. Ég hef hætt að halda að eitthvað gerist bara af því að maður reyni hundrað sinnum, eða að á eftir erfiði fylgi einhver hamingja bara af því bara.

Það var engin trygging fyrir því að ég myndi finna manneskju einsog Margréti. Ég vann mér það ekkert inn með því að deita fullt af stelpum og lenda í alls kyns basli. Nei, ég hitti hana nánast fyrir tilviljun. Reyndar hefði nokkuð margt í mínu lífi þurft að vera öðruvísi til þess að ég hefði ekki hitt hana, en það var samt tilviljun að við hittumst á hárréttum tíma í okkar lífi. Ef við hefðum hist fyrr hefðum við alls ekki passað saman og hver veit í hvaða stöðu við hefðum verið ef við hefðum hist síðar.

Og það er líka fullt af strákum og stelpum, sem hafa farið í gegnum svona mörg furðuleg sambönd einsog ég og svo ekki endað með hinum fullkomna maka. Ég var bara heppinn að ég náði í mína og ég veit það vel. Ég vann mér ekki inn það að hitta hana, heldur var bara svo heppin að hitta hana og komast að því að henni fannst á endanum ég jafn æðislegur og mér finnst hún. Það er merkilegt og eitthvað sem ég er ótrúlega þakklátur fyrir.

* * *

Nánast allan tímann, sem við höfum verið saman, hef ég vitað að mig langaði til að giftast Margréti. Mér finnst það hálf ótrúlegt á tímum hversu vel við pössum saman. Að henni finnist ég svona fyndin og að mér finnist hún svo fyndin. Að við höfum svona lík áhugamál. Að mér finnist hún svona klár og áhugaverð og að henni finnist það sama um mig. Að henni finnst ég sætur þegar ég vakna og að mér finnist hún sæt þegar að hún vaknar. Að hún skuli alltaf vita hvað ég er að hugsa. Ég veit bara vel að það eru ekki margar persónur sem myndu passa svona vel fyrir mig.

Þessir 10 dagar sem ég hef verið einn á Götgötunni hafa rifjað það upp fyrir mér að mér fannst aldrei neitt frábært að búa einn. Ég átti svo sannarlega frábær ár þegar ég bjó einn á Íslandi. Ég kynntist ótrúlegum vinum, ég átti fjölmörg söguleg djömm og ég mun ávallt eiga frábærar minningar frá því að verið á á Vegamótum eða labbað heim af djamminu og frá partíjum og öðru skemmtilegu. En svo komu alltaf sunnudagskvöldin einn heima í þynnkunni þegar það vantaði alltaf eitthvað og mér fannst erfitt að sofna. Þannig voru þessir síðustu 10 dagar – eintóm sunnudagskvöld. Ég sofnaði oft miklu seinna, þar sem það vantaði alltaf eitthvað um kvöldið – kvöldið var hálf tilgangslaust þegar að Margrét var ekki þarna með mér.

* * *

Eftir rétt rúmar tvær vikur ætlum við að gifta okkur á Íslandi. Við erum búin að bjóða til veislu og bjóða þangað stórkostlegum hópi af vinum og fjölskyldu. Margrét er búin að heiga heiðurinn af skipulagningunni, þótt að ég hafi líka hjálpað til.

Ég get ekki beðið eftir deginum. Ég verð 34 ára í næsta mánuði og ég er ekki neinum vafa um hverjum mig langar til að eyða restinni af ævinni með.

10 thoughts on “Brúðkaup eftir tvær vikur”

  1. Þú ert frábær Einar! Er búin að tárast yfir mjög mörgu tengdu þér þessa helgina, en engar áhyggjur, bara gleðitár! Og það er alveg satt, ég veit ekki um neinn sem passar svona vel fyrir Margréti eins og þú gerir!

  2. Takk fyrir að deila þessum hugrenningum og tilfinningum með okkur Einar!

    Mér finnst eins og það hafi verið í gær sem við keyrðum til og frá stórkostlegri útilegu í Úthlíð og umræðuefni bílferðarinnar var einmitt lífsins tilgangur og ástin.

    Margrét og þú eruð einstaklega heppin með hvort annað og þú hittir svo naglann á höfuðið með Vegamót og allar góðu stundirnar þar! Þetta er jú allt spurning um stað og stund!

    Ég hlakka mjög til að sjá ykkur í næstu viku og ég veit að næstu tvær vikur verða sögulegar!!

    Kær kveðja, Tommi

Comments are closed.