Ég kláraði að lesa Steve Jobs ævisöguna í síðustu viku. Ég er búinn að vera að melta bókina síðan þá og líka lesið slatta af efni og hlustað á þætti um bókina.
Niðurstaða mín var svipuð og nokkurra Apple nörda, sem ég hef hlustað á – það er að bókin olli vonbrigðum. Walter Isacson, sem skrifaði bókina, var augljóslega lítið meðvitaður um tækni- og tölvumál og það er greinilegt af bókinni að hann hafði ekki áhuga á mörgu því sem Jobs var að gera. Hlutir, sem ég hefði viljað komast að, eru hundsaðir í bókinni og margt skilið eftir óútskýrt. Það er að mörgu leyti sorglegt því enginn mun nokkurn tímann hafa sama aðgang að Steve Jobs og Isacson hafði.
Það er í rauninni furðulegt hversu lítinn áhuga Isacson virðist hafa haft á því að rannsaka Steve Jobs og skapgerðarbresti hans. Jobs er augljóslega snillingur og einn merkasti framkvæmdastjóri og frumkvöðull allra tíma. En hann var líka afskaplega gallaður persónuleiki, sem var vondur við starfsfólk sitt og fjölskyldu. Maður sem sat heima á föstudagskvöldum og sendi niðrandi pósta á tölvublaðamenn bara af því að þeir væru fúlir yfir því að Apple gerðu eitthvað vitlaust. Isacson kafar aldrei dýpra og reynir að skilja Jobs eða hvað veldur þessu. Af hverju er Jobs miður sín kvöldið sem að iPad er kynntur bara af því að nokkrir aðilar skrifa á netinu að það vanti USB tengi á iPadinn?
Ég var mest spenntur yfir því að lesa um tímabilið frá því að Jobs tók aftur við Apple, því sá tími hefur verið mikið leyndarmál og lítið lekið út frá Apple. En umfjöllun Isacson um þann tíma er afskaplega takmörkuð. Farið er í gegnum söguna vöru eftir vöru, en litlu bætt við það sem við vissum ekki nú þegar.
Það eru auðvitað hlutir í þessari sögu sem eru nýjir og ég mæli með bókina fyrir alla þá sem hafa áhuga á Apple, en ég get ekki forðast þá hugsun að Steve Jobs hafi tekið ranga ákvörðun þegar hann réð Isacson í þetta verkefni og að Isacson hafi misst af einstöku tækifæri til að kafa dýpra í feril og persónu þessa merka manns.
Annars mæli ég með podcast hjá John Siracusa þar sem hann og Dan Benjamin ræða bókina og fara yfir margt af því sem mér finnst vera slæmt við bókina.