Þá eru bara nokkrir klukkutímar eftir af þessu frábæra ári. Ég sit hérna inní stofu á Akureyri hjá fjölskyldu Margrétar og er að fara að gera mig tilbúinn fyrir áramótapartí.
Þetta er búið að vera besta ár ævi minnar.
- Við Margrét fórum í stórkostlegt ferðalag til Indlands, þar sem við vorum í tvo mánuði. Það hafði lengi verið draumur minn að ferðast með bakpokann um Indland. Við sáum Taj Mahal, Rajasthan, Delhi, Mumbai, líkbrennu í Varanasi, drukkum te í Darjeeling og köfuðum við Andaman eyjar. Algjörlega frábær ferð.
- Við eyddum páskunum með vinum Margrétar í Danmörku, sem var mjög gaman.
- Við eyddum júlí mánuði á Íslandi í brúðkaupsundirbúningi, sem var algjörlega frábær tími.
- Vinir mínir steggjuðu mig á ógleymanlegan hátt.
- Daginn fyrir brúðkaupsdaginn héldum við grillpartí fyrir gesti í Guðmundarlundi, þar sem allir hittust í afslöppuðu umhverfi.
- Við Margrét Rós giftum okkur 23.júlí við Elliðavatn. Kristján Ágúst vinur okkar sá um athöfnina og Toggi Pop söng Þú komst við hjartað í mér, lagið sem var spilað ófá skipti sumarið 2008 þegar við byrjuðum saman. Athöfnin var ógleymanleg. Að fá svona góðan vin til að sjá um athöfnina var eitthvað sem er ekki hægt að toppa. Við höfðum reyndar gift okkur formlega nokkrum dögum áður hjá sýslumanni, en athöfnin við Elliðavatn er í okkar hugi það eina sem skiptir máli.
- Brúðkaupsveislan var í Bláa Lóninu. Þar voru saman komin eina kvöldstund nánast allir okkar nánustu ættingjar og bestu vinir. Þetta var besta kvöld ævi okkar. Skemmtiatriðin voru stórkostleg, maturinn frábær og tónlistin líka. Við vorum á dansgólfinu nánast stanslaust frá 23 til klukkan 5 um morguninn. Nokkrum sinnum þetta kvöld hugsaði ég með mér að mér hefði aldrei á ævinni liðið svona vel – að ég ætti svona stórkostlega vini og væri að giftast svona ótrúlegri konu.
- Snæja, frænka Margrétar og Jens, vinur minn, voru veislustjórar og þau voru frábær.
- Við dönsuðum brúðkaupsdansinn við Ó Þú.
- Brúðkaupið endaði á því að vinir og ættingjar sem voru eftir komu saman í hring á dansgólfinu og sungu Don’t look back in anger og Angel. Það er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma.
- Við tókum rútu með gestunum til Reykjavíkur. Við fórum út á síðasta stoppi við Lækjartorg. Ég búinn að taka af mér slaufuna í svörtum smókíng og Margrét í djammútgáfunni af brúðkaupskjólnum. Ég með svartan ruslapoka fullan af gestabókum og Margrét með ferðtösku með dóti. Við löbbuðum í gegnum bæinn klukkan 6 á sunnudagsmorgni og fólk óskaði okkur til hamingju. Það var góð stund.
- Daginn eftir héldum við brunch með fólki úr brúðkaupinu og fórum svo heim og tókum upp gjafirnar.
- Á mánudeginum reyndi ég að smíða saman bréf til gestanna og lýsa því hversu þakklát við vorum fyrir þennan ótrúlega dag. Við höfðum jú gert okkar besta til að skipuleggja allt rétt. En svo getur maður aldrei skipulagt svo margt. Auðvitað eru það gestirnir sem á endanum skipta mestu. Gestirnir voru einfaldlega skemmtilegustu gestir sem nokkurn tímann hafa komið saman til veislu. Svo einfalt er það.
- Við eyddum svo nokkrum dögum á Íslandi og nutum svo síðustu vikna sumarsins í Stokkhólmi. Komum svo heim til Íslands um haustið og fögnuðum því að foreldrar mínir hafa verið gift í 50 ár.
- Serrano hefur gengið vel í Svíþóð og á Íslandi. Við opnuðum stað í Svíþjóð í apríl og svo opnuðum við Nam á Íslandi í desember og höfum fengið frábærar viðtektir. Mér líður vel í vinnunni og ég hef ofboðslega gaman af því að vinna vinnuna mína.
- Fullt af vinum okkar hafa komið og heimsótt okkur til Stokkhólms. Mörgum af þeim höfum við kynnst allt öðruvísi og betur en við hefðum gert bara á Íslandi.
- Síðustu vikum ársins erum við svo búin að eyða á Íslandi. Þrátt fyrir að okkur líki frábærlega að búa í Stokkhólmi þá mun maður aldrei hafa jafn mikil tengsl við Svíþjóð og maður hefur við Ísland. Hérna höfum við notið lífsins undanfarnar vikur. Haldið matarboð með vinum, farið í skírn, farið í jólaboð, horft á Liverpool leiki með vinum og svo framvegis. Og áramótunum eyðum við hérna á Akureyri.
- Í september komumst við Margrét að því að við eigum von á okkar fyrsta barni. Á Þorláksmessu komumst við að því að það verður strákur, sem á að koma í heiminn í maí. Við getum ekki beðið.
2011 hefur verið besta ár ævi minnar. Án nokkurs efa.
Til lukku með drenginn, gleðilegt nýtt ár og takk fyrir liðin bloggár!
Sæll Einar og til hamingju með allt þetta, við þekkjumst nákvæmlega ekki neitt en ég hef lesið þetta blogg síðan 2005 (eingöngu útaf liverpool til að byrja með) Og þegar ég byrjaði að lesa þetta var ég einhleypur og tengdi við margt sem þú sagðir, var meira að segja að spá í að senda þér póst þegar þú bloggaðir um að þig vantaði einhleypa vini 😀 Síðan eru komin 2 börn og eiginkona hjá mér, og veistu að daginn sem að þú munt halda á syni þínum mun það toppa hvert einasta djamm og stuð sem að þú hefur tekið þátt í fram að þessu. Innilega til hamingju með þetta allt saman og góðar stundir í komandi framtíð.
Takk kærlega!
Sama hér og hjá Jóni Frímanni, þekki þig ekki en hitti á þetta blogg þitt í gegnum Liverpool síðuna fyrir nokkrum árum og hef fylgt því eftir síðan. Ferðasögurnar þínar hafa verið virkilega skemmtilegar og heillandi auk þess sem ég hef oftar en ekki verið sammála stjórnmálapælingum þínum og skrifum þínum um Liverpool. Mér finnst alveg magnað hversu óhræddur þú ert að prófa nýja hluti og láta drauma þína rætast hvort sem það er að flytja til framandi landa (Mexíkó og Venezuela), fara í háskólanám í BNA, opna veitingarstað erlendis og eða að ferðast þetta allt, stundum einn. Allavegana, þó það hljómi kannski asnalega, að þá má segja að þú sért manni ákveðin fyrirmynd í því hvernig á að lifa lífinu lifandi. Vil í lokin þakka þér fyrir skemmtilega síðu og óska þér til hamingju með alla þessa velgengni.
Takk Sveinn!
Það er ótrúlega gaman að lesa svona komment sem hafa komið við þessa færslu.
Má koma með áramótaáskorun á þig? Blogga meira á nýju ári! 🙂
Gleðilegt ár, og takk fyrir skrifin.
Ég er sökker fyrir brúðkaupum, og langar óskaplega að sjá mynd af brúðarkjólnum. Hann hefur ábyggilega verið fallegur úr smiðju Spakmannsspjara.
Já, ég skal reyna að skrifa oftar. Og ég mun setja inn mynd.