Ég, pabbi

Ég og sonur minn útá svölum
Ég og sonur minn útá svölum
Litli strákurinn okkar Margrétar á 6 vikna afmæli á morgun. Hann fæddist á Danderyd spítala í úthverfi Stokkhólms þann 29. apríl klukkan 15.

Fæðingin gekk hratt fyrir sig. Margrét vakti mig klukkan 9 um morguninn og hafði þá misst vatnið. Við byrjuðum því að undirbúa okkur og áttum að vera mætt uppá spítala klukkan 13. Hins vegar voru hríðirnar orðnar það miklar að við þurftum á endanum að stökkva út úr húsi á mettíma án þess að ná að klára allt – ég kláraði að borða morgunmatinn minn í leigubíl uppá spítala.

Margrét fæddi á BB deildinni á Danderyd, sem líkist Hreiðrinu á Íslandi. Allt er gert til þess að staðurinn líkist ekki spítala og okkur leið vel þarna allan tímann. Fæðingin gekk ótrúlega vel. Við höfðum æft hvað ég ætti að gera í fæðingunni og sá undirbúningur kom sér vel. Ég hafði ætlað að vera til staðar – vera rólegur – og gera það sem ég gat gert til að hjálpar. Ég hef auðvitað aldrei séð Margréti líða aðrar eins þjáningar, en mér fannst ég aldrei vera eins gagnslaus og ég hafði verið hræddur við – langt í frá, því mér leið eftirá einsog ég hefði í alvörunni hjálpað til. Margrét stóð sig massíft vel í fæðingunni. Hún hafði ákveðið fyrirfram að nota enga deyfingu og það tókst henni að standa við.

Það er ekkert sérstaklega merkilegt við að það fæðist barn á einhverjum spítala í úthverfi Stokkhólms. En að við Margrét höfum skapað þetta barn saman og fá hann svo nýfæddan og leggja hann á bringuna á mér var ótrúlega magnað. Þetta ferli allt saman varð einhvern veginn allt raunverulegt.

Við vorum á spítalanum í tvo daga og sváfum þrjú saman í herbergi á meðan að Margrét komst í gang með brjóstagjöf og við lásum kveðjur sem við fengum á sms og Facebook. Tókum þessu rólega og vöndumst tilfinningunni að nú værum við orðin lítil fjölskylda.

* * *

Fyrstu vikurnar átti ég svo sem ekkert alltof langar stundir með stráknum. Hann vaknaði, borðaði og sofnaði aftur. Ég hélt varla á honum nema að hann væri sofandi. Og í raun voru einu stundirnar okkar saman þegar að ég skipti á bleyjum eða klæddi hann. Eins skrýtið og það kann að hljóma, fyrir þá sem eiga ekki barn, þá fannst mér bleyjuskiptin merkilega skemmtileg. Tilhugsunin við að skeina einhverju barni út í bæ er ekki spennandi en þegar að um son minn er að ræða þá eru bleyjuskiptin allt í einu orðin að stund þar sem við feðgarnir erum einir saman og getum myndað tengsl.

Eftir viku tvö eða þrjú hefur stundunum okkar saman farið fjölgandi því núna er hann meira vakandi og getur legið hjá mér. Smám saman fær maður sem pabbi tilfinninguna fyrir því að maður hafi raunveruleg áhrif. Það er ótrúlega góð og merkileg tilfinning að einhver lífvera sé svona háð manni. Að það eitt að taka hann upp úr rúmi og faðma hann geti fengið hann til að hætta að gráta er yndislegt.

Það er líka dálítið skrítið þegar að maður hugsar út í það að maður hafi ekki fengið neina sérstaka þjálfun fyrir þetta foreldrahlutverk. Það er magnað að sjá konuna manns allt í einu breytast í mömmu og sjá hana brillera í því hlutverki frá degi eitt. Ég þorði varla að halda á börnum fyrir nokkrum vikum síðan, en núna finnst mér ekkert mál að halda á stráknum með annari hendi þegar að við fikrum okkur inná klósett í myrkrinu til að skipta á bleyju.

* * *

Karlmenn segja oft að besti dagur ævi þeirra hafi verið fæðingardagir barna sinna. Oft segja menn þetta þegar þeir eru hræddir við að gera of mikið úr einhverju sem skiptir ekki of miklu máli – sigri á fótboltamótum eða öðru slíku. Þá má ekki segja að sigur liðsins í Meistaradeildinni hafi verið besti dagur ævinnar og því redda menn sér oft með því að segja “já, nema auðvitað dagurinn sem að barnið mitt fæddist”.

Dagurinn sem að sonur okkar fæddist var ekki besti dagur ævi minnar, þannig séð. Brúðkaupsdagurinn okkar Margrétar toppar allt og mun eflaust gera lengi.

En vissulega var þetta stórkostlegur dagur því þetta var byrjunin á einhverju frábæru – þetta var í raun dagurinn sem að allt breyttist. Mér finnst í raun allir dagarnir síðan hafa verið enn betri en fæðingardagurinn vegna þess að ótrúlegustu hlutir verða betri núna. Það er betra að fara að sofa með hann í vöggu við hliðiná rúminu okkar. Það er skemmtilegra að labba um Södermalm með hann í vagni. Það er skemmtilegra að vakna á morgnanna og sjá hann sofa við hliðiná Margréti.

Ég var alltaf smá stressaður yfir því hvort ég væri tilbúinn í þessar breytingar á mínu lífi. Var ég tilbúinn að fórna því frelsi sem maður hafði áður? Frá því að strákurinn fæddist hef ég ekki efast um það í eina sekúndu að ég var tilbúinn. Auðvitað er frelsi manns minna, en það er svo margt annað nýtt sem lítið barn færir manni. Þannig að jafnvel þegar að hann liggur öskrandi með magaverki uppí rúmi við hliðiná manni klukkan 5 um morgun þá efast maður ekki í eina sekúndu um hversu frábært það er að eignast barn.

Á sama hátt er ég sannfærður um að skemmtilegustu stundirnar séu allar eftir. Ég get ekki beðið eftir því að fá að tala við son minn, sýna honum það sem mér finnst skemmtilegt og mikilvægt og með tímanum kynnast honum sem einstaklingi og læra af honum. Ég get ekki beðið.