35

Í dag er ég 35 ára. Það eru nákvæmlega 5 ár síðan ég skrifaði þetta á þrítugs afmælinu mínu.

Ég hugsaði aðeins hvað ég ætti að skrifa á þessa bloggsíðu við þetta tilefni. Hvar stend ég í dag? Hvernig er mitt líf? Ég gæti skrifað færslu um það að á síðustu fimm árum hef ég ferðast til Mið-Austurlanda, Egyptalands, Indónesíu, Indlands og fleiri landa. Serrano staðirnir, sem voru tveir fyrir fimm árum, verða eftir um mánuð orðnir sjö á á Íslandi og fimm í Svíþjóð. Ég hef flutt til Stokkhólms og bý á frábærum stað í miðri borginni.


En það sem skiptir máli varðandi þessi fimm ár er auðvitað að ég hef kynnst ótrúlega mörgu frábæru fólki. Fólk, sem ég þekkti varla fyrir fimm árum, eru meðal minna bestu vina í dag. Og jú þetta…

17.ágúst 2007 vaknaði ég einn í herberginu mínu á Hagamel. 17.ágúst 2012 var ég vakinn af Margréti Rós. Það að hitta hana fyrir rúmum fjórum árum er það besta sem hefur komið fyrir mig. Við giftum okkur fyrir rúmu ári á besta dagi lífs míns. Og við hliðiná henni lá Jóhann Orri, rétt tæplega 4 mánaða strákur, sem mér þykir alveg ofboðslega vænt um og sem kemur mér á óvart á hverjum degi.

Því þegar að illa gengur í vinnunni, þegar að liðið manns tapar og þegar veðrið er vont, þá skiptir það mestu máli hverjir bíða manns heima. Þau tvö bíða mín og því get ég stoltur sagt að þessi síðustu fimm ár hafi verið frábær og að ég hafi gert ansi margt rétt. Fyrir það er ég þakklátur.

3 thoughts on “35”

  1. Ég veit ekki hversu oft ég hef fengið gæsahúð og hamingjutár við að lesa þetta blogg 🙂 Aldrei hætta!

    🙂

Comments are closed.