Coronakrísa

Þessir síðustu 6 dagar hafa verið svo sturlaðir að það nær ekki nokkurri átt. Síðasta miðvikudagskvöld pantaði ég mér þriðja bjórinn eftir að Firmino skoraði gegn Atletico og var tilbúinn að fagna. En svo skoruðu Atletico mörk og mér líður einsog heimurinn hafi bara hrunið eftir það. Ég kom heim alveg ruglaður og gat ekki sofnað þar sem ég las um bandaríska pólitík á Twitter þar sem allt virtist vera að fara til fjandans.

Svo fór ég með krakkana í skólann daginn eftir og mætti svo uppá skrifstofu þar sem ég settist fyrir framan rekstrarstjórann á Zócalo og slæmu fréttirnar dældust yfir okkur. Almennt smit var byrjað í Stokkhólmi og á einum sólarhring höfðu nánast allir Zócalo staðir tæmst af fólki. Sérstaklega þeir í stærstu borgunum á Norðurlöndunum, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Svo hringdi leikskólinn og sagði mér að Einar Friðrik væri ekki nógu brjálæðislega hress til að fá að vera á leikskólanum útaf nýjum kröfum. Þannig að ég fór og sótti hann og reyndi að vinna í símanum á meðan að ég lék við hann.

Svo hefur þetta bara orðið verra og verra. Aðgerðirnar í Danmörku hafa smám saman þrengt að staðnum okkar þar og salan minnkaði um 85% á milli vikna. Í kvöld er Zócalo eini staðurinn sem enn er með opið í Tivoli Food Hall, þar sem voru fyrir viku 15 staðir opnir. Við seljum bara mat til að taka með. Enginn má sitja á staðnum. Það er eflaust ekki langt í að við lokum.

Í Stokkhólmi eru okkar stærstu staðir annars vegar í verslunarmiðstöðvum einsog Mall of Scandinavia, þar sem fáir vilja vera, eða í miðbæ Stokkkhólms þar sem við treystum á viðskipti frá fólki sem vinnur í nágrenninu. Aðalskrifstofur Spotify erum við hliðiná einum staðnum og þegar Spotify yfirmenn tóku þá skiljanlegu ákvörðun að hvetja alla til að vinna heima þá hrundi salan hjá okkur. Núna vilja sænsk yfirvöld að allir vinni heima og því má búast við að salan hrynji enn meira.

Við höfum reynt að gera okkar besta – fókusera á take-away og heimsendingar, en það hefur takmarkað gagn þegar að flestir þurfa að komast að stöðunum með almenningssamgöngum einsog lestum, sem margir vilja ekki snerta þessa dagana.

Og svo hef ég ekki hugmynd um hvað þetta endist lengi. Veira hefur fullkomlega kippt öllum rekstrargrundvelli undan veitingastöðum, sem voru allir reknir með hagnaði á síðasta ári, eru fullir af frábæru starfsfólki og reknir af sérleyfishöfum sem hafa lagt sína peninga, hjarta sitt og sinn tíma í að reka Zócalo staði.



Það að reka veitingastað er að mörgu leyti hálf sturlað. Á hverjum degi byggir maður reksturinn sinn á því að 100-400 manns velji þann daginn að koma inná nákvæmlega þennan stað af öllum þeim hundruðum staða sem hægt er að velja um. Þetta þýðir að bransinn er aldrei leiðinlegur, en það þýðir líka að þegar að fólk hættir allt í einu að koma þá fer allt í fokk strax.

Ég er ekki að kvarta – það eru bransar sem hafa það enn verra. Ég myndi ekki vilja skipta á djobbi við framkvæmdastjóra SAS eða Norwegian akkúrat núna (þrátt fyrir að launin myndu margfaldast) eða reka hótel, bar eða næturklúbb. Þá er skárra að eiga skyndibitastað.

Þar sem Margrét er að klára ritgerðina sína þá hef ég séð um krakkana að langmestu leyti síðustu daga. Alla þessa viku hefur að minnsta kosti Einar Friðrik verið veikur og því hef ég þurft að vinna þegar hann sefur og svo á kvöldin þegar allir eru sofnaðir og maður er hálf uppgefinn eftir að hafa skemmt, eldað fyrir og svæft þrjá krakka. En kannski hefur þetta líka hjálpað við að komast í gegnum þetta. Bankahrunið á Íslandi var barnaleikur á Serrano miðað við þetta ástand.

Það er búið að vera ótrúlega furðulegt að vera svona mikið heima með krakkana á meðan að það er algjört hrun á veitingastöðunum. En kannski er það ágætt að verða að hugsa um krakkana stóran hluta dagsins í stað þess að velta sér endalaust uppúr veltutölum og fréttum. Það gefur eflaust smá betri yfirsýn í lok dags. 

Núna verður maður að halda í vonina að eitthvað breytist. Við fjölskyldan erum bara hress. Við Margrét hjólum alltaf yfir á Södermalm, þannig að við sleppum við almenningssamgöngur, og ég hef unnið smá á skrifstofunni og þegar ég er heima þá lærir hún þar. Krakkarnir tala mikið um Coronavírusinn, en þau fá ennþá að fara í skóla og í dag gat Einar Friðrik loksins mætt aftur á leikskólann. Ætli hann fái ekki að fara í nokkra daga og svo verði öllu lokað. Ég vona að þið séuð öll hress – þvoið á ykkur hendurnar og hugsið vel um hvort annað.  ❤️😄