24

Ég sá að Gummijóh (sem hefur verið að hræða lesendur með jákvæðum skrifum sínum um Apple undanfarið, 1 2) er að tala um 24, sem var greinilega verið að frumsýna á Stöð 2 heima á Íslandi.

Við Hildur höfum fylgst með þessum þáttum síðan þeir voru frumsýndir hérna í nóvember og erum sammála um að þetta sé langbesti þátturinn í sjónvarpinu hérna úti. Ég var líka duglegur í jólafríinu að mæla með þættinum fyrir alla, sem ég þekkti.

Hérna úti er búið að sýna 7 þætti, þannig að klukkan er orðin 8 um morgun, en allir þættirnir gerast á sama sólahringnum. Þetta eru alveg magnaðir þættir. Hildur fékk konu í vinnunni til að taka upp þættina, sem voru sýndir um jólin og því horfðum við á þrjá síðustu þættina seinasta þriðjudag. Spennan hefur haldist í öllum þáttunum. Ég veit ekki um neinn annan sjónvarpsþátt, sem hefur haldið mér jafn spenntum, nema kannski Twin Peaks.

Það er samt nokkuð magnað að þættirnir eru ekki mjög vinsælir hérna úti. Þættir einsog JAG, Frasier og NYPD Blue, sem eru sýndir sama kvöld eru mun vinsælli. Þetta er skrítinn heimur….

En allavegana, horfið á 24. Snilldar þættir!!!