Aðdáun mín á rusl-sjónvarpi

flavor.jpegVarúð: Þessi færsla inniheldur mjög mikla “spoiler-a” fyrir sjónvarpsþættina “Shot At love”, “Rock of Love” og “Flavor of Love”, þar sem ég tala um sigurvegarana í öllum þáttunum.

Ég hef aldrei reynt að fela það sérstaklega að ég er verulega veikur fyrir drasl-raunveruleikasjónvarpi. Af einhverjum ástæðum (greindarskorti, athyglisbresti?) þá hef ég sjaldan þolinmæði til að fylgjast með dramatískum leiknum þáttum, en hef hins vegar nánast takmarkalausa þolinmæði þegar að kemur að raunveruleikasjónvarpi um ástarsambönd fólks.

Eftir að ég reddaði mér aðgangi að iTunes versluninni á síðasta ári, þá hef ég getað keypt mér fullt af sjónvarpsefni. Ég er með litla Apple tölvu tengda við sjónvarpið og á henni get ég horft á efnið sem ég kaupi. Ég hef notað tækifærið og keypt fullt af skemmtilegu sjónvarpsefni. Ég ætla að fjalla lauslega um þrjá af þeim þáttum, sem ég hef horft á.

* * *

Þetta eru þrír stefnumótaþættir í anda Bachelor þáttanna, en þó mun óformlegri. Allir þættirnir eiga það sameiginlegt að ein semi-fræg persóna fær að velja úr stórum hópi fólks, sem að dýrka og dáir viðkomandi. Fyrst horfði ég á Rock of Love þar sem að Bret Michaels, hinn 44 ára fyrrverandi söngvari í Poison, var að velja sér konu. Síðan horfði ég á Flavor of Love þar sem að Flavor Flav, hinn 48 ára gamli fyrrverandi rappari í Public Enemy, var að velja sér konu – og svo að síðustu Shot at Love, þar sem hin 26 ára gamla Tila Tequila velur sér maka úr hópi bæði stráka og stelpna (hún er að eigin sögn tvíkynhneigð, þó aðrir haldi öðru fram).

Umgjörðin í öllum þáttunum er svipuð. Fólkið sem sækir um í þættinum veit hver verður “bachelor-inn” í þættinum og því veljast oft í þættina fólk sem að eru miklir aðdáendur viðkomandi. Í þáttunum er reynt að gera mikið úr ferli þessara aðila, sem eru á hraðri niðurleið í tilfelli Michaels og Flav og óskiljanlegir í tilfelli Tequila (sem er aðallega fræg fyrir að eiga 2,5 milljónir vina á MySpace, sem er einmitt mun minna en ég). Allt það mest heillandi við það að deita rokk-stjörnu er dregið fram og lífstíll bachelor-sins gerður eins sjarmerandi og mögulegt er.

* * *

Ég hafði mun meira gaman af fyrri tveimur þáttunum (Flavor og Rock), sennilega að hluta til vegna þess að báðir karlarnir eru orðnir þokkalega desperate og voru í raun að leita sér að hinni sönnu ást, sem maður efaðist um í tilfelli Tilu. Þrátt fyrir að Breat og Flavor séu orðnir 44 og 48 ára, þá voru keppendurnir nær allir undir þrítugu. Þetta var sérlega pínlegt í tilfelli Flavor, sem lítur ekki út fyrir að vera degi yngri en hann er. Það var augljóst frá fyrstu stundu að allmargar stelpurnar í þáttunum voru þarna eingöngu til að hljóta frægð, en ekki vegna aðdáunnar þeirra á miðaldra poppstjörnum.

Þrátt fyrir þetta voru báðir karlarnir alveg einstaklega miklir aular þegar kom að því að lesa stelpurnar og áhuga þeirra á þeim. Svo fór að báðir völdu yngstu og sætustu stelpurnar í staðinn fyrir kvenkosti sem væru líklegri til að reynast þeim vel. Sem sýnir nokkuð vel hversu voðalega veikir við karlmenn erum fyrir útliti. Í báðum tilfellum þá höfðu þeir fulltaf tækifærum til að velja stelpur um og yfir þrítugt, sem virtust tilbúnar í það að finna sér ævifélaga, en í báðum tilfellum þá völdu þeir stelpurnar sem voru sætastar. Hinn 48 ára gamli Flav valdi sér hina 24 ára gömlu, Hoopz (sjá MæSpeis), á meðan að hann hafnaði stelpum sem virtust dýrka hann og dá og hefðu sennilega enst lengur með honum. Það fór líka svo að þau Hoopz og Flav hættu saman eftir nokkra daga.

Þessir þættir virka þannig að þeir eru allir teknir upp á 2-3 vikum. Svo þegar að Bachelor-inn hefur valið sér sína draumadís þá hafa þau 2-3 daga til að vera saman í felum eftir að upptökum lýkur. Þá tekur hins vegar við 2 mánaða tímabil þar sem viðkomandi mega ekki hittast á meðan verið er að klippa þættina og sýna þá í sjónvarpi. Svo er haldinn reunion þáttur þar sem þau fá að hittast aftur. Sambandið milli Flav og Hoopz náði ekki einu sinni að endast fram í reunion þáttinn.

* * *

Bret Michaels gerði nákvæmlega sömu mistök og Flavor Flav. Hann gat valið á milli fullt af stelpum, sem pössuðu ágætlega við hann og dýrkuðu hann og dáðu – en í staðinn þá valdi hann hina 23 ára gömlu Jes, sem var jú (að mínu mati allavegana) sætasta stelpan á svæðinu – og 21 ári yngri en hann.

Jes sagði Bret hins vegar upp nokkrum dögum eftir að slökkt var á myndavélunum. Því ætlar Bret að freista gæfunnar aftur í Rock of Love 2, sem að byrjar í þessum mánuði. Flavor Flav ætlar líka að freista gæfunnar í þriðja skipti í Flavor of Love 3, sem að verður sýndur í næsta mánuði. Það er spurning hvort að þeir verði eitthvað skynsamari í þessi skiptin.

* * *

Shot at Love með Tilu Tequila var svo slappasti þátturinn. Þar ætlaði Tila Tequila víst að finna út hvort hún væri hrifnari af stelpum eða strákum með því að velja úr hópi 15 lesbía (ein lesbían gefur upp þennan prófíl: Amanda is a tall, busty blonde who embraced being a lesbian after she realized she was bored with men) og 15 stráka. 14 lesbíanna voru varalita-lesbíur (einsog Tila kallaði þær lesbíur sem eru mjög kvenlegar), á meðan að ein var mjög strákaleg. Það fór svo að í lokaþættinum valdi hún á milli strákalegu-lesbíunnar og eins strákanna. Hún endaði á því að velja strákinn.

Eftir að þátturinn var búinn og Tila hafði virkað mjög spennt í reunion þættinum, þá lýsti Tila því yfir tveim vikum seinna að hún væri hætt með stráknum. Strákurinn hélt því hins vegar fram á MæSpeis síðunni sinni að hann hefði aldrei heyrt frá frú Tequila og að hann hefði ekki einu sinni geta fengið símanúmerið hennar. Þannig að ekki var nú áhuginn mikill, en það hefur þó ekki stoppað hana frá því að tilkynna það að Shot at Love 2 verði kominn í framleiðslu innan skamms.

Guði sé lof fyrir Bandaríkin.

3 thoughts on “Aðdáun mín á rusl-sjónvarpi”

  1. Vá trúi ekki að ég hafi fundið kk sem actually viðurkennir að fíla drasl-raunveruleika tv. You’re my hero

    Hljóma mjöööög góðir þættir til að horfa á í sunnudagsþynnku;) hehe

Comments are closed.