Aðeins um skattahækkanir

Ég á ansi marga vini sem eru Sjálfstæðismenn.  Það er ein afleiðing þess að vera fæddur í Garðabæ og hafa svo farið í Verzló. Það gerist því undantekningarlaust þegar að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar eru viðraðar að ansi margir á Facebook hjá mér fríka út.  Öskra hvað þetta sé hræðilegt, að þessi vinstri stjórn sé ómöguleg, byrja að uppnefna flokkana í stjórninni, segja að allt sé ómögulegt með flugfreyju sem forsætisráðherra og svo framvegis.

Fyrst gerðist þetta þegar að skattar á áfengi og tóbak voru hækkaður.  Þá þótti það nú merki um að allt væri að fara til fjandans.  Allir ætluðu að flytja burt frá Íslandi og svo framvegis.  Það sama gerist núna þegar að hærri tekjuskattur fyrir þá hæstlaunuðustu er nefndur.

* * *

Reyndar er nóg af rangfærslum þegar að fólk talar um þessar skattahækkanir (sem hafa jú ekki verið kynntar formlega).  Sumir halda að manneskja með 499.000 í laun borgi miklu minna en manneskja með 501.000 í laun en staðreyndin er auðvitað sú að samkvæmt þessum tillögum – einsog fjallað hefur verið um þær – þá borgar sá með hærri launin bara hæsta skatt af tekjunum sem eru umfram 500.000 krónur. (sjá hérna ágætis pistil um hvað þetta kostar hvern tekjuhóp)

Þessu virðast margir ekki hafa áttað sig á og með því má eflaust skýra hluta af æsingnum í sumum.  Þetta er bein afleiðing af því að þessum hugmyndum um skattahækkanir sé (að því er virðist) lekið í fjölmiðla.  Það veldur því að umræða einkennist oft af ranghugmyndum fólks þar sem að hugmyndirnar eru ekkert kynntar formlega og útskýrðar almennilega fyrir fólki.

* * *

Miðað við aðstæður líst mér ágætlega á þessar tillögur.

Aðstæðurnar eru þannig að ríkissjóður er rekinn með 150 milljarða halla.  Það gengur ekki að velta þeim vanda bara áfram til barna okkar, heldur verðum við að takast á við vandann núna.  Til þess eru tvær leiðir.  Annaðhvort að skera niður eða auka tekjur.

Ég tel að það eigi að gera meira í niðurskurði á mörgum sviðum.  Einkafyrirtæki eru að gera það á hverjum degi og það getur ríkið líka. Ég tel að ekki hafi verið nóg gert eða allavegana hefur ríkisstjórnin ekki sýnt nægilega fram á það hvar hún ætlar að spara.

En við *verðum* líka að ná í frekari tekjur fyrir ríkissjóð.  Annað kemur hreinlega ekki til greina, nema að við fórnum algerlega okkar heilbrigðis- og menntakerfi.  Og við náum bara í auka tekjur fyrir ríkissjóð með hærri sköttum og gjöldum.

Ríkisstjórnin hefur lagt til ýmsa skatta.  Mér fannst til dæmis skattar á álver vera góð hugmynd.  En af einhverjum óskiljanlegum ástæðum þá berst SA bara fyrir hagsmunum mannfárra verksmiðja, en ekki fyrir hagsmunum mannaflsfrekari smærri fyrirtækja.  Því virðist ríkisstjórnin ætla að draga í land með þá skatta og hækka frekar tryggingargjald (maður hlýtur að velta því fyrir sér hvað minni fyrirtæki séu almennt séð að gera í SA).  Einnig hafa verið lagðir á ákveðnir neysluskattar, sem ég er almennt séð mótfallinn – en ég get ekki mótmælt mikið í því ástandi sem núna er.

* * *

Og svo eru það skattar á laun.  Ég er búinn að rökræða við fulltaf fólki á netinu síðustu daga.  Mörgum finnst ekkert jafnræði í því að fólk borgi mismikla skatta og sumir vilja meira að segja flatan krónuskatt.  Slíkar hugmyndir finnst mér fráleitar.

Ég hef alltaf talið að sanngjarnasta skattkerfið í velferðarþjóðfélagi sé að þeir sem eru með hæstu launin borgi hlutfallslega mest.  Þeir sem eru með lægstu launin borgi hlutfallslega minnst.  Ég get ekki séð annað en að þessi skattahækkun stuðli nákvæmlega að því.  Þeir sem eru með lægstu launin fá annaðhvort skattalækkun eða halda sömu skattprósentu.  Þeir sem eru með há laun borga hærri skatta.  Einstaklingur með 600.000 borgar 16.900 aukalega á mánuði. Sumir vilja meina að 5-600.000 krónur séu í raun frekar litlar tekjur. En ef 600.000 eru litlar tekjur þá eru 300.000 væntanlega ennþá minni tekjur og varla er sanngjarnt að fólkið með 300.000 beri þyngri byrðar. Meirihluti landsmanna er eftir allt með tekjur langt undir 600.000 krónum.

Enn sem komið er hefur enginn í þessum umræðum mínum á netinu geta bent á sanngjarnari leið til að skapa auknar tekjur fyrir ríkissjóð.  Einu rökin sem menn virðast hafa er að þetta muni minnka skatt-tekjur ríkissjóðs.  Það má vel vera að einhverjir kunni að vinna minna og að einhverjir svíki undan skatti.  En að svona hófleg skattahækkun muni leiða til allsherjar svindls tel ég vera afskaplega ólíklegt.

Þeir sem eru á móti þessari skattahækkun, sérstaklega ef þeir eru stjórnmálamenn að atvinnu, verða að benda á hvaða leiðir til tekju-aukningar hjá ríkisstjóði séu sanngjarnari. Ég hef allavegana ekki fundið þær.

10 thoughts on “Aðeins um skattahækkanir”

 1. Það er auðvitað alltaf erfitt að taka á svona málum og auðvitað sýnist sitt hverjum í þessu. Mér persónulega líst ákaflega illa á þetta og finnst Ríkisstjórnin vera búin að standa sig skelfilega hreint. Það er ekki þar með sagt að maður sé sjálfur með lausnir á hverju strái og við þessu öllu, ef ég hefði slíkar, þá væri ég líklegast búinn að bjóða fram krafta mína fyrir kosningar eða í áhrifastöður.

  Skuldir sem litu ágætlega út fyrir 2 árum síðan eru í dag stökkbreyttar og þessar “úrlausnir” sem boðið er uppá, ja það eru hreinlega ekki neinar úrlausnir. 17 þúsund kall á mánuði extra, ofan á þá neysluskatta sem settir eru á hitt og þetta, og ofan á hækkun lána og afborganir á þeim, það er bara eitthvað sem ég er ekki að ná hvernig eigi að bæta ástandið. Á meðan vita allir hversu mikið væri hægt að megra í ríkisútgjöldum. Eins og bent hefur verið á, þá eru fræðimenn engan veginn sammála um að hækkun tekjuskatts þýði auknar tekjur í kassann, og alls ekki í sömu hlutföllum og skattahækkunin er.

  Því miður þá hefur maður ekki trú á því að það sé mikið af fóki á hinu háa Alþingi sem veit hvað það er að gera. Ég hef lengi verið talsmaður þess að mynda þjóðstjórn, þar sem menn veljast í embætti eftir hæfni en ekki hvar í pólitík þú ert. Auðvitað eru ráðgjafar á hverju snæri, en oft virðist það vera þannig að hlustað sé á ráðleggingar eftir flokksskírteinum.

  Ég er sem sagt engan veginn sammála þér Einar Örn með að þetta sé sanngjörn leið, því ég held að hún eigi eftir að draga dilk á eftir sér og verða til þess að fjölga gjaldþrotum næstu árin því erfitt verður að vinda þetta niður aftur. Það var ekki bjart framundan, en ef þetta fer svona í gegn, þá sér maður nánast enga ljóstýru.

 2. Á meðan vita allir hversu mikið væri hægt að megra í ríkisútgjöldum

  Já, eflaust. En málið er bara að það verður aldrei nóg. Það mun aldrei duga að ætla bara að spara í ríkisrekstrinum. Til þess er þetta alltof stórt fjárlagagat. Þetta eru 150 milljarðar.

  Það verður einhver að borga þetta, þessi fjárlagahalli mun ekki bara hverfa. Og ég tel að það sé eðlilegast og sanngjarnast að þeir sem séu með hæstu launin geri það.

  Úrlausn skuldavanda er svo allt annað mál.

 3. Já, ég er sammála því að þetta er fín grein. Ég er ekki mikið að velta fyrir mér hvernig nákvæmlega þetta er útfært – ég er ekki að segja að lausn ríkisstjórnarinnar sé sú eina rétta. Ef sama markmið næst með auðveldari lausn – það er auknar tekjur fyrir ríkissjóð og að þeir tekjulægstu borga ekki meiri skatt – þá er ég sáttur.

 4. Það er alveg dæmalaust furðuleg nálgun ykkar ,,jafnaðarmanna” að telja að það sé einhver sanngirni fólgin í því að sá sem með einum eða öðrum hætti hefur náð sér
  i góð laun, eigi að greiða hærri skatta en sá sem hefur ekki þessi ,,betri laun”
  Skattkerfi okkar er nú þegar þannig að sá sem er með miljon á mánuði skilar fleiri krónum í ríkiskassan en sá er hefur 100 eða 200 þúsund krónur. 37% af miljón eru fleiri krónur en 37 % af hundraðþúsundkalli. En hlutfallslega eru þessir aðilar jafnir. Eins og
  þeir að sjálfsögðu eiga að vera. Að ætlast til að sá er hærri laun hafi eigi að greiða hærri prósentu, bara af því að það er af meiru að taka en hjá hundraþúsundkallsmanninum. Það er hæpin nálgun á einhverju jafnræði eða jöfnuði.

  Vinstri menn hafa árum saman tönglast einhverju sem þeir kalla félagslegt ,,réttlæti”.
  Þeir síðan telja sig umkomna að skammta réttlæti úr hnefa til þeirra sem lægstir eru.
  Lífseig er sagan um Hróa Hött sem rændi frá þeim ríku og gaf fátækum. Það hefur þá veirð félagslegt réttlæti á ferð en ekki ótíndur þjófnaður Hróa. En af því að stolið var frá þeim ríka, sem hlaut að hafa hagnast á kostnað hins fátæka,þá var þetta gott og blessað. Þjófnaðurinn var því allt í einu orðin að góðverki og réttlætismáli.

  Eftir því sem ég eldist og huxa meira um þessa afstöðu vinstri manna og reyni að skilja hana þá sannfærist ég meir og meir um að hún er röng. Eina niðurstaðan sem ég kemst að er sú að um sé að ræða djúpstæða öfund og biturð í garð þeirra sem
  skara framúr eða komast á annan stall en meðaljónin. Rífa skal þann hinn sama niður
  strax með því að taka af honum þann launaávinning sem hann hefur aflað sér með
  menntun og sérþekkingu sinni. Aðra ástæðu get ég ekki fundið eftir að hafa hugsað
  þetta í mörg ár. Jöfnun mann í gegnum skattkerfið er ávísun á að allir verði jafn-fátækir en ekki jafn-ríkir, ef svo má að orði komast. Hvatinn til að skara frammúr
  hverfur og það getur ekki verið gott fyrir nokkurt þjóðfélag í heild sinni.

 5. Innsköttun í lífeyrissjóði er ágætis leið. Kannski byrja á því að innskatta séreignalífeyrissparnað (enda greiða hann líklega síður þeir sem eru á brúninni) en svo má líka skoða lögbundinn lífeyrissparnað.

  Að hafa opið fyrir greiðslur úr séreign var snjallt úrræði hjá stjórninni. Eiginlega eina snjalla úrræðið á þessu pásu-ári. Árið virðist í heild hafa farið í afskaplega mikið rugl en ekki undirbúning á ströngum hallalausum rekstri, sem er skilyrði fyrir framtíðina.

  Annars þá er ég hægri maður í pólitík og ég tel að þessi skattahækkun sé nokkuð vel útfærð, enda virka ekki hefðbundin hægri-rök (t.d. tekjumeiri menn setja peninga&menn í vinnu og stækka því kökuna). Ástæðan fyrir því að þau virka ekki er að of margir í þessum hópi eru skuldsettir uppfyrir rjáfur.

 6. Ég tel að það séu fullt af fleiri leiðum heldur en aðeins hækkanir á tekjuskatt sem gætu skilað auknum tekjum í ríkissjóð og lækkun útgjalda ríkissjóðs.

  1) Mismunandi skattlagning á arð eftir því hvort að um er að ræða “skammtímaarð” eða “langtímaarð” – þ.e. ef um er að ræða arð frá félagi sem aðili á aðeins til skamms tíma (t.d. innan við ár) þá skulu slíkar tekjur skattleggjast að sömu prósentu og aðrar tekjur. Hins vegar væri hægt að skattleggja langtímaarð (þ.e. arð af fjárfestingum sem aðili á í meira en ár) með lægri prósentu

  2) Sala á hlutabréfum. Ef um er að ræða kaup og sölu á hlutabréfum sem fer fram með stuttu millibili (ágætt að miða líka við ár í þessu tilfelli) þá væru tekjur sem af slíkri sölu mynduðustu skattlagðar sem venjulegar tekjur. Ef hins vegar um væri ræða söluhagnað af hlutabréfum sem viðkomandi hefur átt í lengri tíma (meira en ár) þá væru slíkar tekjur skattlagðar af lægri prósentu. Þessu til rökstuðnings vil ég segja það að ef aðilar stunda það að kaupa og selja hlutabréf þá má velta því fyrir sér hvort það sé ekki í atvinnurekstri og ætti að teljast til atvinnurekstrartekna. Þannig eru tekjur sem einstaklingar hafa af kaupum og sölu á atvinnuhúsnæði skattlagðar sem atvinnurekstrartekjur EKKI sem söluhagnaður. Af hverju á ekki það sama að gilda um hlutabréfaviðskipti?

  3) Hvernig væri að fara að rukka árangurstengd skólagjöld við HÍ? kannski með svipuðu fyrirkomulagi og LÍN hagar útborgun námslána. Það myndi koma í veg fyrir að hundruðir einstaklinga héngu í 6ár+ í 3 ára BA/BS námi. Af hverju áttu að geta hangið í námi endalaust ef þú nennir ekki að sinna því?

  4) Hvernig væri að fara að gefa fólki bara rétt á að taka eina BA/BS gráðu frítt. Þannig gætu aðilar ekki farið ókeypis í lögfræði þegar þú værir búin að útskrifast úr hjúkrunarfræði. Af hverju á að vera ókeypis að fara mörgum sinnum í háskólann?

  5) Skylda atvinnulausa til að mæta í sunda á hverjum degi – eða stimpla sig einhvern veginn inn. Þannig myndi fullt af fólki sem er að vinna svart ekki geta mætt og þar af leiðandi ekki fá bæturnar.

  6) Fella niður barnabætur og gefa frekar skattafslátt vegna barna eða að tekjutengja barnabætur? Eða fella niður barnabætur ef fólk er með tekjur yfir einhverju ákveðnu marki.

  Þetta eru bara hugmyndir. Skattar á Íslandi eru tiltölulega lágir miðað við aðrar Evrópuþjóðir og ég hef aðeins eitt á móti þeim hækkunum sem lagðar hafa verið til. Mér finnst fyrir neðan allar hellur að hjón fái ekki að telja fram tekjur sínar saman. Þ.e.a.s. jú hjón eru skylduð til að skila saman framtali og bera ábyrgð á skattgreiðslum hvors annars. Hins vegar eru breytingarnar settar þannig fram að ef annað hjóna er með háar tekjur og hitt hjóna engar tekjur þá greiðir tekjuhái aðilinn samt hátekjuskatt.

  Mér finnst það líka alltaf merki um ákveðna þröngsýni að sjá bara hækkun á skatta á tekjur og launafólk. Hækkun á neyslusköttum eru jú ekkert annað en viðbótarskattar á mig og þig.

  Mér finnst að þessi ríkisstjórn þurfi að draga hausinn upp úr moldinni og horfa í kringum sig eftir NÝJUM lausnum. Eins og ég segi, það er allt í lagi að hækka skattana lítillega eins og verið er að gera, en það er engann veginn nóg og alls ekki eina lausnin sem í boði er.

  Lifðu vel Einar, það er rosalega gaman að blogginu þínu.

 7. Eins og ég segi, það er allt í lagi að hækka skattana lítillega eins og verið er að gera, en það er engann veginn nóg og alls ekki eina lausnin sem í boði er.

  Það er alveg rétt. Ég hef aldrei haldið öðru fram.

  En já, takk.

Comments are closed.