Sjónvarpsgláp síðustu vikna

Ég sé að það er ansi langt síðan að ég skrifaði um sjónvarpsgláp á þessari síðu. Í stað þess að blogga þá hefur Facebook og Twitter komið í staðinn. Ég hef ekkert fjallað um sjónvarp síðan að ég hvatti alla til að horfa á Office fyrir tæpu ári. Það á auðvitað enn við í dag.

Umræða um sjónvarpsefni er samt dálítið erfið þessa dagana. Allir eru á mismunandi stað í mismunandi seríum og sá tími löngu liðinn að maður geti spjallað um sjónvarpsefni við vini sína. Líkurnar á að fólk sé á sama stað í sömu seríum eru einfaldlega mjög litlar. Mér fannst það t.d. fyndið þegar ég var að hlusta á BS Report með Bill Simmons og hann vildi ekki gefa upp plott-twist sem gerðist í fyrstu seríu af The Wire – þætti sem var sýndur fyrir 7 árum, einfaldlega vegna þess að fullt af fólki er ennþá að uppgötva þá þætti í dag.

Allavegana, hérna er gott efni sem ég hef horft á að undanförnu;

Jershey Shore: Ég er forfallinn aðdáandi raunveruleikasjónvarps, einsog oft hefur komið fram á þessari síðu. Þegar við Margrét vorum að byrja saman fannst henni þetta rosalega hallærislegt og hún lýsti vandlætingu yfir því hverslags rusl sjónvarp ég væri að horfa. 18 mánuðum seinna með mér þá er hún auðvitað orðinn forfallinn aðdáandi svona drasl-sjónvarpsefnis.

Ég fylgist vanalega með Real World og Real World vs Road Rules challenge. Einnig hef ég verið að fylgjast með einhverjum dating þáttum á VH1, en þeir hafa hrapað í gæðum að undanförnu (Ray-J er t.d. ekki nærri því jafn skemmtilegur og Bret Michaels). En ég hef einfaldlega afskaplega gaman af því að sjá hvað fólk gerir í skiptum fyrir tímabundna frægð.

Þegar ég heyrði fyrst um Jersey Shore varð ég sannfærður um að þetta yrði snilld og ég fór strax og keypti þáttinn á iTunes. Þátturinn fjallar um 8 krakka, sem fara í sumarfrí í bæ á Jershey Shore. Öll eru þau svipaðar típur – elska ljósabekki, líkamsræktarsali, sjálft sig, techno tónlist og djamm. Blandan verður stórkostleg. Í mánuð er fylgst með þeim á djamminu, og í húsinu þar sem þau búa. Ef þú hefur minnsta gaman af raunveruleikaþáttum þá er Jersey Shore tær snilld. Ég mæli líka með spjalli um Jersey Shore í þættinum BS Report á milli Bill Simmons og Dave Jacoby, sem er sérstakur sérfræðingur um rauveruleikaþætti. Fáránlega fyndnir þættir (sjá þættina 7.des og 26.jan).

Mad Men: Þetta eru sennilega bestu þættirnir í sjónvarpi í dag. Ég varð ekki alveg hooked á fyrstu þáttunum, en það gerðist smám saman. Núna erum við hálfnuð með síðustu seríuna. Þetta eru drama þættir um starfsfólk á auglýsingastofu í kringum árin 1960-65. Frábært drama.

Dexter: Við kláruðum að horfa á síðustu seríuna í Dexter fyrir nokkrum dögum. Ég fílaði alls ekki síðustu seríu á undan, en þessi sería var frábær. Nýjasta serían fjallar um eltingaleik Dexters við annan fjöldamorðingja. Dexter er líkt og Mad Men keyrt í frekar stuttum seríum (12 þættir) og það passar nokkuð vel fyrir svona seríur þar sem að plottið nær yfir alla seríuna (en ekki sér plott fyrir sérhvern þátt – ég nenni sjaldan að horfa á slíka þætti).

Curb Your Enthusiasm: Við höfum verið að horfa á síðustu seríur í þeim þætti (ég er komin á 5. seríu). Margrét getur aldrei horft á mikið meira en einn þátt þar sem hún fær svo mikinn kjánahroll yfir öllu því fáránlega sem að Larry David kemur sér í. Ég elska þessa þætti. Það er alltof lítið af góðum gamanþáttum í sjónvarpinu.

Auk þessa erum við að horfa á Office og Lost, sem var að byrja að nýju. Ég mun ábyggilega skrifa um þá þætti meira á næstu vikum.

7 thoughts on “Sjónvarpsgláp síðustu vikna”

 1. Já… Snookie er komin með kærasta og hún hefur þetta um málið að segja:

  “I am really excited to like show the public who he is. He is freaking banging. We’re the sexiest couple I have ever seen in my entire life so I am excited for everybody to see that,”

  En hún ætlar einmitt að sýna hann to the public á Super Bowl í dag. Ohhh hún er svo mikið æði!

 2. Váá hvað 5 þáttaröð af The Office er slæm.. einsog hinar voru nú góðar. Ég er að færa mig yfir í The Wire.

 3. Ég mæli með eftirfarandi:

  The Wire (fyrir alla sem enn hafa ekki áttað sig á þeirri snilld) – Goes without saying, eiginlega. En auk þess, af nýlegra efni:

  Modern Family: Fyndið, fyndið, fyndið.

  Sons of Anarchy: Var dálítinn tíma að komast inn í þessa þætti, en það borgaði sig svo sannarlega í annarri seríu, sem er ótrúlega vel skrifað drama

  Big Bang Theory: Full yfirdrifnir, eins og svona sviðs-sitcom verða svo oft, en brandararnir eru oft ótrúlega vel skrifaðir og clever. Shelden Cooper er maður sem maður elskar að hata.

 4. Ok, The Wire og Modern Family eru á dagksránni – var alltaf að bíða eftir því að einhver sænsk stöð myndi byrja á Modern Family.

  Big Bang Theory – ég hef horft á 1 þátt og mér fannst það svo hræðilega mikið sviðs-sitcom að ég gat ekki einu sinni klárað hann. Fannst þetta vera einsog 2,5 men.

  Og já, Office hefur farið mikið aftur í ár.

Comments are closed.