Ahhh, djamm á Íslandi

Ég átti afmæli í gær og er ég núna orðinn 25 ára gamall. Í tilefni dagsins var ég með partí hérna í Garðabænum. Þetta verður ábyggilega eitt af síðustu partíjunum, sem ég held hér í foreldrahúsum enda er ég búinn að kaupa mér íbúð, sem ég flyt í í byrjun október.

Allavegana, þá var partíið mjög skemmtilegt. Allir mættu um 9 leytið, sem var mjög skrítið, þar sem vinir mínir hafa ekki verið þekktir fyrir það að vera stundvísir. Svo var farið í bæinn um eitt leytið. Ég fór með nokkrum krökkum á Hverfisbarinn. Þar reddaði Gunnar Narfi okkur inn, fram fyrir langa röð. Það er greinilegt að vinir mínir eru með eindæmum sjóaðir í næturlífinu, því Emil tókst að koma okkur fram fyrir röð á Nasa um síðustu helgi.

Allavegana, þá var ég að fara í fyrsta skipti á þennan stað og líkaði mér bara nokkuð vel. Hitti eitthvað af fólki, og meðal annars engan annan en Gumma Jóh. Hann er náttúrulega svo frægur í Blogg heimum að manni leið einsog maður væri að hitta Björgvin Halldórs.

Kvöldið endaði svo á stórskemmtilegan hátt, það er í leit að leigubíl. Ég blótaði því að vera ekki kominn með nýju íbúðina enda hefði ég þá getað labbað heim. Það var ekki glæta að fá leigubíl og því komst ég ekki heim fyrr en um 6 leytið.

Í morgun las ég svo þessa frétt (via Óla). Samkvæmt henni vilja menn fækka leigubílum í Reykjavík. Ég get ekki gert annað en hrósa mönnum fyrir tímasetninguna. Það er mjög líklegt að fólk fagni fækkun leigubíla daginn eftir menningarnótt.

One thought on “Ahhh, djamm á Íslandi”

  1. varstu ekki bara svona fullur! ég er bara eins og allir aðrir! :biggrin2:

    ekki er mér boðið í celeb þátt viltu vinna milljón.

Comments are closed.