Apple búð

Á laugardaginn fórum við Hildur í Woodfield verslanamiðstöðina en þar var einmitt verið að opna Apple búð. Þessi búð er sú fimmta í röðinni af búðum, sem Apple er að koma upp í stærstu borgum Bandaríkjanna. Þeir álíta þetta mikilvægt skref í að ná stærri markaðshlutdeild.

Þegar við komum að búðinni var biðröð fyrir utan og þurftum við að bíða í um korter eftir því að komast inn, en hleypt var inn í hópum. Búðin er mjög flott. Einsog allt frá Apple var hönnunin á búðinni afskaplega einföld og smekkleg. Við skoðuðum þarna nýjustu tölvurnar og horfðum á kynningar fyrir mörg skemmtileg forrit einsog iMovie og iDVD.

Það má ætla að flestir, sem hafi verið á staðnum fyrsta daginn hafi, einsog ég, verið Mac notendur. Hins vegar má áætla að í framtíðinni muni margir PC unnendur heillast af Mac tölvum eftir heimsókn í þessar búðir, því fólk gerir sér best grein fyrir kostum Mac tölva þegar það fær að prófa þær. Það var einmitt stór kostur við búðina, það er að manni var velkomið að fikta í öllu. Maður gat flakkað um á netinu, eða skoðað stýrikerfið, eða klippt saman myndbúta í iMovie og svo framvegis.