Áramót 2013

Þetta ár hefur verið magnað.

  • Jóhann Orri hefur breyst úr smábarni í lítinn og ótrúlega skemmtilegan strák á árinu. Hann er í dag 20 mánaða gamall, hleypur útum allt, klifrar uppá allt (þó það tímabil sé reyndar eitthvað að líða undir lok í bili allavegana) og getur sagt fulltaf orðum og skilið flestallt sem við segjum við hann auk þess sem hann hefur sjúklega mikinn áhuga á lyklum og bílum.

    Hann er nánast alltaf í góðu skapi og fer létt með að heilla ömmur, afa og heilu boðin full af fólki með því að vera hress, skemmtilegur, forvitinn og áhugasamur um annað fólk.

  • Við opnuðum Zócalo á árinu. Við breyttum 5 Serrano stöðum í Zócalo á tveim vikum í apríl og opnuðum svo 3 nýja staði síðasta sumar, alla í miðbæ Stokkhólms. Það eru núna 3 stærstu staðirnir okkar. Þetta hefur verið gríðarlega erfitt en lika skemmtilegt. – Zócalo hefur fengið góðar viðtökur, salan er meira en tvöfalt meiri í nóvember en hún var í mars, svo að við getum ekki verið annað en ánægð. Við fengum svo í september verðlaun sem skyndibitastaður ársins í Svíþjóð samkvæmt FastFood Magazine. Við fengum einnig inn tvo sænska fjárfesta í fyrirtækið.
  • Þetta ár hefur því verið algjör rússibanaferð vinnulega séð. Plús það að við opnuðum Serrano stað á Akureyri og í byrjun næsta árs munum við opna Serrano og Nam staði. Þannig að á einu ári verðum við búnir að opna 11 veitingastaði.
  • Kottke segir að bloggið sé dautt. Ég hef skrifað þrisvar sinnum á þessa síðu á árinu, þannig að hvað mig varðar hefur hann nokkuð rétt fyrir sér.
  • Við höfðum uppi stór plön með frí. Fyrir árið vorum við ákveðin að fara í brúðkaupsferð á árinu og í sumar vorum við ákveðin að ferðast um Alpana. En hvorugt varð að veruleika, aðallega vegna anna í vinnu. Við eyddum þó góðum tíma á Íslandi og fórum þrjú saman til Istanbúl um páskana. Það er algjörlega frábær borg, sem ég mæli hiklaust með. Ég var í Istanbúl 2005 og sá besta fótboltaleik allra tíma, en hafði lítinn tíma til að skoða borgina. Núna gátum við Margrét og Jóhann Orri hins vegar notið borgarinnar. Skoðuðum Topkapi höllina, Aya Sofia, Bláu moskuna, nutum mannlífisins og borðuðum ótrúlega góðan mat. Frábær borg.
  • Það sem er þó besta við þetta ár var alltaf að sækja Jóhann Orra á leikskólann. Að sjá hann lifna við og hlaupa í áttina til mín þegar ég kom og sótti hann er einfaldlega eitt það allra magnaðasta við það að vera pabbi. Ég elska þessar stundir okkar.
  • Og það er líka ótrúlega frábært að eftir erfiða daga í vinnunni að geta komið heim til bestu eiginkonu í heimi, sem er alltaf til í að hlusta á mig kvarta um það sem hefur gengið illa eða gleðjast þegar að vel gengur. Ég er óendanlega heppinn að eiga Margréti Rós og Jóhann Orra.
  • Og til að bæta oná þetta allt þá eigum við Margrét Rós svo von á okkar öðru barni í maí. Það verður fjör. Lífið er gott og aldrei betra en í kringum jólin þegar við eyðum hverjum degi og hverju kvöldi með okkar vinum og fjölskyldu hérna heima á Íslandi.

Gleðilegt ár.

One thought on “Áramót 2013”

Comments are closed.