Áramót 2014

Þvílíkt ár!

Fjölskyldumyndataka 2014

  • Við Margrét eignuðumst okkar annað barn í maí. Björg Elísa er algjör snillingur. Hún er í góðu skapi allan daginn og ég hef aldrei vitað um barn sem er jafn auðvelt að fá til að brosa og hlæja. Jóhann Orri var smá pirraður í upphafi yfir því að vera ekki lengur einn, en eftir smá vesen í byrjun er hann alveg frábær stóri bróðir, sem vill alltaf vera nálægt litlu systir sinni, knúsa hana og halda í höndina á henni. Hinn 2 ára og 8 mánaða gamli Jóhann Orri er svo núna byrjaður að mata 7 mánaða gamla systur sína.

  • Að eiga tvö lítil börn er auðvitað smá erfitt, en það hefur hjálpað ótrúlega mikið hversu auðveld þau hafa verið á þessum tíma. Maður venst þessu merkilega fljótt og í dag finnst mér það vera skítlétt þegar að maður þarf “bara” að sjá um eitt barn.

  • Ég seldi hlut minn í Serrano á árinu. Ég stofnaði Serrano ásamt Emil fyrir 13 árum en eftir að ég flutti til Svíþjóðar hef ég alltaf komið minna og minna að rekstrinum heima og því fannst mér þetta vera ágætis tímapunktur til að selja og einbeita mér að því sem ég er að gera í Svíþjóð. Einnig eftir að við breyttum nafninu á stöðunum okkar í Svíþjóð í Zócalo hafa konseptin verið að fjarlægjast hvort annað og því gat ég minna beitt mér í málum tengdum Serrano, enda hvorki auðvelt né æskilegt að stýra þessu frá öðru landi. Og Emil, sem að keypti minn hlut, er auðvitað besti aðilinn til að reka Serrano áfram, þannig að þetta barn mitt er í góðum höndum.

  • Við Margrét keyptum okkur svo inní Spaksmannsspjarir, sem að Björg tengdamamma mín á með okkur. Það er að okkar mati frábært fyrirtæki sem á mikla möguleika. Fyrirtækið hannar og framleiðir hágæða föt, sem að endast lengi og við teljum vera mikla framtíð í fatamerkjum, sem leggja áherslu á sjálfbærni. Það eru líka ný tækifæri í öllum heiminum í kringum netverslun og lítil búð á Íslandi getur auðveldlega selt sína vöru útum allan heim.

  • Við stofnuðum Zócalo stað í Malmö og salan á Zócalo var á árinu 2014 yfir 40% hærri en 2013 og 160% hærri en árið 2012 svo að hlutirnir eru að fara í rétta átt. Á næsta ári munum við opna stað í stærstu verslunarmiðstöð Norðurlandanna, Mall of Scandinavia, sem opnar næsta haust – og vonandi einhverja aðra staði líka.

    Þetta hefur alls ekki verið auðvelt ár vinnulega séð, en ég er þó sæmilega sáttur við hvernig staðan er í dag og er bjartsýnn fyrir 2015.

  • Það besta við þetta ár vinnulega séð er þó að ég hef ekki þurft að vinna of mikið. Ég fer aldrei í vinnuna fyrir klukkan 9 og er oftast búinn um fjögur. Það þýðir að ég hef geta verið ótrúlega mikið með börnunum mínum og Margréti.

    Að ala upp lítil börn í Svíþjóð með alla fjölskylduna á Íslandi er auðvitað ólíkt því að gera það á Íslandi. Við fáum sjaldan pössun svo að við erum rosalega mikið með börnunum, sem er auðvitað ótrúlega gaman þegar þau eru á þessum aldri. Félagslífið er minna, en ég myndi ekki vilja skipta því út fyrir það tækifæri að vera svona mikið með krökkunum á þessum aldri.

  • Jóhann talar bæði sænsku og íslensku og skiptir á milli tungumálanna án þess að hugsa um það. Hann er algjörlega frábær strákur, sem er fullur af fjöri og með mikið ímyndunarafl en getur líka setið heilu tímana og leikið sér í Dublo, ekki ólíkt því sem ég gerði þegar ég var lítill.

  • Við ferðuðum slatta á árinu. Áður en Björg kom í heiminn fórum við til Dubai og í haust fórum við til Flórída, Kúbu og Mexíkó einsog ég hef skrifað um á þessa síðu.

  • Við eyddum sumrinu á Íslandi og fórum meðal annars í tvö brúðkaup hjá góðum vinum okkar, héldum nafnaveislu fyrir Björgu, opnuðum Nam veitingastað, fórum í sumarbústaði í nokkrum landshlutum og áttum góða daga í Flatey.

  • Við höfum svo eytt jólunum hérna í Stokkhólmi í fyrsta skipti með allri fjölskyldu Margrétar, sem hefur verið frábært.

Ég er ótrúlega þakklátur fyrir þetta ár og þessa litlu fjölskyldu, sem ég á.