Áramótaávarp 2007

Þar sem ég gerði upp árið í jólakortum til vina minna, þá hef ég verið að hugsa um þetta ár nokkuð mikið síðustu vikur. Við áramót finnst mér alltaf ágætt að skoða aðeins mitt líf.

Ég var búinn að impra á því aðeins í [stuttri tónlistarfærslu](http://eoe.is/gamalt/2007/12/11/23.29.18/) hvað ég væri mikið hamingjusamari um þessi áramót en ég var fyrir ári og tveim árum. Fyrir ári var ég í raun enn að jafna mig á nokkuð erfiðu sambandi og í raun má segja að ég hafi tekið mig saman í andlitinu í kjölfar þess að ég skrifaði [áramótapistilinn fyrir ári](https://www.eoe.is/gamalt/2006/12/31/17.20.39/#comments). Það fyrsta í því var að hætta að treysta á sambönd við stelpur. Ég var orðinn þreyttur á því að eignast vini í kringum sambönd við stelpur, sem svo slitnuðu um leið og samböndin slitnuðu.

Mér fannst ég því þurfa að eignast nýja vini. Vinir mínir úr barnaskólum og Verzló hafa allir verið í samböndum í fjölmörg ár og því hlaut það að gerast að þeirra áhugamál fjarlægðust mín. Alltof lengi lét ég þetta fara í taugarnar á mér og lét pirringinn bitna á þeim, í stað þess að gera eitthvað í mínum málum. Mér fannst því við síðustu áramót að ég þyrfti að kynnast nýju fólki.

Og á þessu ári hefur það tekist. Ég lærði að dansa salsa á ný og eignaðist um leið bestu vinkonu sem ég hef átt. Og ég fór að taka virkari þátt í félagsstarfi, þar sem ég um leið eignaðist frábæran vinahóp. Fyrir þetta er ég ótrúlega þakklátur og þetta er gríðarlega stór þáttur í því af hverju mér líður vel í dag.

* * *

Árið hef líka markast afskaplega mikið af vinnu. Ég byrjaði í lok síðasta árs að vinna eingöngu sem framkvæmdastjóri Serrano. Á þeim tíma hefur gríðarlega margt gerst í rekstri staðarins. Við opnuðum í janúar nýjan stað á Hringbraut, sem hefur gengið frábærlega frá upphafi. Í nóvember opnuðum við svo [glæsilegan stað í Smáralind](http://eoe.is/gamalt/2007/11/12/18.15.02/) sem byrjar líka gríðarlega vel.

Í tengslum við þetta höfum við farið í gegnum mikla vinnu til að bæta staðinn. Í Smáralindinni unnum við með hönnuði til að hanna heildarútlit staðarins, sem mun nýtast okkur í framtíðinni. Einnig hef ég lagað ýmislegt í rekstri staðarins og því hvernig staðirnir ganga í gegnum hvern dag. Auk þess höfum við svo breytt ýmsu í matnum og meira mun gerast í þeim málefnum á næstu mánuðum.

Allt hefur þetta skilað alveg frábærum niðurstöðum. Salan í Kringlunni hefur aukist áfram á árinu og hinir nýju staðir hafa verið viðbót við þann stað. Í desember vorum við til að mynda að afgreiða nærri því fjórfalt fleiri viðskiptavini en í desember í fyrra. Einnig keyptum við taílenska veitingastaðinn Síam, sem við ætlum okkur stærri hluti með á næsta ári.

* * *

En þessi mikla vinna hefur líka gert það að verkum að ég hef nánast ekkert komist til útlanda á árinu og hef í raun bara tekið mér 3 frídaga allt árið. Ég fór þó í [frábæra ferð til Liverpool](http://www.kop.is/gamalt/2007/03/08/11.02.39/) þar sem ég sá Liverpool spila við Man Unitd og slá Barcelona útúr Meistaradeildinni.

Emil og ég fórum svo [til Stokkhólms](http://eoe.is/gamalt/2007/05/22/16.11.42/) og um verslunarmannahelgina fór ég til [Skotlands](http://eoe.is/gamalt/2007/08/09/20.42.53/).

Lengsta ferðin var svo til Bandaríkjanna. Ég og Birkir yfirkokkur á Serrano fórum til Austin þar sem við skoðuðum fjöldan allan af veitingastöðum. Ég tók mér svo smá frí þar sem ég eyddi frábærri helgi með [vinum mínum í Chicago](http://eoe.is/gamalt/2007/07/02/16.33.05/) þar sem við fórum á Cubs leiki og nutum þeirrar æðislegu borgar. Svo kom ég við í Washington DC þar sem ég heimsótti Genna og Söndru, vini mína.

* * *

Og jú, ég var í einhverjum samböndum með stelpum á þessu ári. Ekkert þeirra entist þó lengur en einn mánuð. Allt mjög fínar stelpur, sem mér fannst ég á endanum ekki passa nógu vel við. Ólíkt fyrri árum sé ég þó eftir afskaplega fáu í þessum málefnum á árinu.

En mér líður semsagt afskaplega vel við þessi áramót. Nánast allt í mínu lífi er miklu betra í ár heldur en í fyrra og því get ég ekki annað en verið ánægður með árið 2007. Það eina sem skyggði á árið voru veikindi í fjölskyldunni minni, sem að vonandi eru yfirstaðin núna. Ég er líka mjög spenntur fyrir næsta ári. Ég er með gríðarlega spennandi plön í vinnunni, sem ég mun eflaust fjalla um á þessari síðu á næstunni og vonandi fæ ég líka tækifæri til að ferðast á ný. Það hefur nauðsynlega vantað góðar nýjar ferðasögur inná þessa síðu.

2008 skal vera gott ár.

Gleðilegt ár. Takk fyrir að lesa.

6 thoughts on “Áramótaávarp 2007”

 1. Vonadi rætist það hjá þér 😉 gleðileg árið.. kem til með að skoða þetta blogg annað slagið á því næsta.. 🙂

  Kveðja frá Eskifirði Kristján R

 2. Eftir að hafa nærri gengið í gröfina og einnig skautað á bleikum skýum er ég loks að feta veginn þarna einhversstaðar á milli. Þekki orðið ansi mörg stig og einkenni. Eftir að hafa lesið þessa færslu sé ég eitt alveg kýrskýrt….

  …þetta var versta áramótaskaup allra tíma!

  …ó og þú ert greinilega í góðum málum, ég er venjulega ekki hrifinn af naflaskoðunum á bloggi en þetta er hinn huggulegasti nafli og þú ert augljóslega vel saman skrúfaður.

  Ég hinsvegar gæti verið dauður í næsta mánuði en núið er helvíti fínt.

 3. Gleðilegt nýtt ár, vinur, og skemmtileg lesning hjá þér. En megir þú bara hafa það sem allra best á nýju ári. Mbk., Guðjón.

Comments are closed.