Ástir á MæSpeis og í Séð & Heyrt

Ó, það er svo rómó að skoða forsíðuna á Séð & Heyrt þessa vikuna, sem ég rakst á útí Melabúð (smellið á myndina til að fá stærri útgáfu).

MySpace ást

Tvennt er athyglisvert við þessa frétt. Fyrir það fyrsta, þá virðist vera einhver von fyrir þá þúsundir erlendra karlmanna, sem að hanga á MæSpeis síðum íslenskra stelpna (sérstaklega þeirra ljóshærðu). [Fyrst þessi ástarsaga](https://www.eoe.is/gamalt/2007/04/17/17.05.07/) og svo núna er það sjálf Ungfrú Ísland. Ég ætti kannski að eyða enn meiri tíma á MySpace 🙂

En án alls gríns, þá finnst mér seinni punkturinn við þetta mál vera hálf krípí – eða allavegana miðað við þær forsendur sem ég gef mér (sem ég veit ekki hvort eru réttar). Við greinina er slatti af myndum. Þar á meðal myndir af Jóhönnu með stjúpmömmu sinni og eftir að hún var krýnd Ungfrú Ísland. Þær myndir eru sagðar vera teknar af Birni Blöndal, en að aðrar myndir séu “úr safni”.

Þetta “úr safni” finnst mér hálf skrýtið þar sem ég get hreinlega ekki séð annað en að hinar myndirnar séu myndir teknar af MySpace síðu Jóhönnu. Þarna er stór mynd, sem ég get ekki betur séð en að sé [prófíl mynd Jóhönnu](http://www.myspace.com/jaywe) þessa stundina (þau að leiðast á ströndinni). Sú mynd er klárlega tekin af netinu þar sem hún er í mjög lélegri upplausn í Séð & Heyrt. Ég verð því að efast um að Jóhanna hafi látið S&H fá myndirnar – þar sem hún á væntanlega myndirnar í hærri upplausn í sínu einkasafni.

Hinar myndirnar sem eru í greininni eru svo alveg dæmigerðar MæSpeis myndir (meira að segja ein mynd sem er tekin í spegli – gæti ekki verið meira MæSpeis!). Til að mynda er mynd af stráknum í mjög grófri upplausn. Jóhanna er með lokað á sinn prófíl, nema fyrir vini, þannig að ég get ekki sannreynt að myndirnar séu allar á MySpace síðunni hennar.

Nú má vel vera að þetta sé allt rangt hjá mér – en einsog þetta lítur út fyrir mér þá hefur einhver frá Séð & Heyrt komist inná **lokaðan** MæSpeis prófíl hennar Jóhönnu (sem er væntanlega ekki ýkja erfitt), lesið ferðasöguna hennar og tekið svo myndirnar hennar og búið til úr því blaðagrein.

Mér finnst þetta alveg óheyrilega krípí.

3 thoughts on “Ástir á MæSpeis og í Séð & Heyrt”

  1. Já, þetta er svona svipað og þegar Séð og Heyrt fjallaði um fyrri ástarsöguna. Þá voru myndirnar allar teknar af síðunni hjá gaurnum og undir stóð ‘úr safni’. Ætti ekki frekar að standa ‘stolnar myndir’?

    Annars dreymdi mig þig í nótt Einar. Þú varst að hjálpa mér úr drullupolli (já, ég var að koma af Hróa). Frekar spes miðað við að ég hef aldrei hitt þig.

  2. Jamm, þetta “safn” hjá Séð & Heyrt er ansi magnað. Ég hallast að þetta “safn” sé “allt internetið”.

    Magnað að ég skuli birtast í draumum lesenda. Ég hef heyrt þetta áður. Skrif mín hafa greinilega mikilfengleg áhrif.

    Djók!

  3. Það er ekki flókið fyrir þá sem hafa nennu að komast inná lokaða myspace prófíla. Það hefur verið þekktur böggur lengi.

Comments are closed.