Audioscrobbler og tilfinningar

[Audioscrobbler](http://www.audioscrobbler.com/user/einarorn/) er skrítið tæki. Fyrir þá, sem ekki þekkja þá síðu, þá setur maður inn lítið forrit á tölvuna sína, sem síðan fylgist með því hvaða lög maður hlustar á. Um leið og ég spila eitthvað í iTunes á tölvunni, þá birtist það á [Scrobbler síðunni minni](http://www.audioscrobbler.com/user/einarorn/).

Scrobblerinn safnar síðan saman því, sem maður hlustar á og býr til alls kyns lista og bendir manni á hljómsveitir, sem fólk með svipaðan tónlistarsmekk, hlustar á. Með þessu hef ég uppgötvað fulltaf skemmtilegri tónlist og það er aðal ástæðan fyrir því að ég nota Audioscrobbler. Svo er þetta líka ágætis bókhald. Til dæmis get ég séð að ég hlustaði 42 sinnum á lög með Crosby, Stills, Nash & Young í síðustu viku og hef hlustað 815 sinnum á Dylan síðan ég setti forritið inn. Reyndar get ég ekki fengið forritið til að mæla iPod hlustun, þannig að þetta er býsna takmarkað hjá mér, enda hlusta ég á stóran hluta af tónlistinni minni í iPodinum mínum.

Allavegana…

Það sem er einna áhugaverðast í þessu er að geta fylgst nákvæmlega hvað fólk er að hlusta á þessa stundina. Fólk getur séð að þegar þetta er skrifað er [ég](http://www.audioscrobbler.com/user/einarorn/) að hlusta á Common, [Björgvin Ingi](http://www.last.fm/user/bjorgviningi/) er að hlusta á Foo Fighters og [Gummijóh](http://www.last.fm/user/gummijoh/) er að hlusta á Coldplay.

Það athyglisverða við þetta er að ef maður þekkir fólk vel, þá getur maður á vissum stundum fundið út í hvernig skapi fólk er. Ég veit ekki hvernig þetta er með annað fólk, en mín tónlistarhlustun fer að gríðarlega miklu leyti eftir því í hvernig skapi ég er. Á kvöldin þegar ég er þreyttur og kannski pínu dapur hlusta ég á “In the Wee small hours” með Sinatra. Síðast þegar ég var í ástarsorg hlustaði ég gríðarlega mikið á “Grace” með Buckley. Þegar ég er hress og á leiðinni á djamm hlusta ég á Scissor Sisters. Þegar ég vil gleyma mér hlusta ég á Dylan, þegar ég vil koma mér í stuð hlusta ég á Dre, Tribe Called Quest og Jay-Z.

Þannig að það er hægt að lesa ansi mikið um mínar tilfinningar bara með því að fylgjast með Scrobblernum og ég er viss um að svo er líka fyrir aðra. Að vissu leyti er þetta gallað því ég hlusta oft á Buckley án þess að vera í ástarsorg og hlusta ekki bara á Jay-Z á laugardagskvöldum. En samt þá er hægt að draga ákveðnar ályktanir út frá þessu.

Einnig gæti fólk sennilega séð í lok vinnudags hvernig dagurinn gekk. Hlustaði ég á Dylan eða Jay-Z? Er maður að gefa fólki of mikið af upplýsingum í gegnum Audioscrobbler? Kannski.

Ef þú þekkir einhvern og vilt fá viðbrögð hans við ákveðnum fréttum eða atburðum þá held ég að Audioscrobbler geti að mörgu leyti verið ákveðinn gluggi inní sálarlíf fólks. Fullt af fólki notar tónlist til að koma sér í gott skap, til að gleyma vandamálum og til að hjálpa sér þegar það er sorgmætt. Því er spurning hvort fólk sé ekki að opinbera sig um of þegar hægt er að sjá öllum stundum á hvaða tónlist það er að hlusta? Eða kannski ekki.

2 thoughts on “Audioscrobbler og tilfinningar”

  1. Takk Daði! Ég hef einmitt, eins og Einar, verið að agnúast yfir því að þetta vanti í AS. Ég spila miklu meiri tónlist á iPod en iTunes, og hef því aldrei þótt Scrobblerinn gefa nægilega góða mynd af því sem ég er að hlusta á.

    Snilld.

Comments are closed.