Bæ bæ geisladiskar

Í tengslum við nýja parketið, sem ég ætla að setja á íbúðina, hef ég verið í brjáluðu tiltektarstuði í dag. Ég erfði nefnilega þann ágæta kost frá pabba mínum, að eiga auðvelt með að henda hlutum.

Partur af þessum hreingerningum var sú merkilega ákvörðun mín að pakka öllum geisladiskunum mínum (sem eru alveg fáránlega margir) oní kassa og svo niður í geymslu. Ég hef nefnilega varla hlustað á geisladisk í meira en ár. Öll tónlistin, sem ég á, er komin á Makkann minn í bestu gæðum og ég nenni ekki að hlusta á geisladiska lengur. Núna hlusta ég bara á tónlist í gegnum iTunes, sem er besta forrit í heimi. Í heimi, segi ég og skrifa!! Ég er svo með snúru fram í stofu, þar sem tölvan er tengd við græjurnar í stofunni. Svo er hægt að nota símann minn sem fjarstýringu. Alger snilld.

Ég held meira að segja að sumir nýjustu diskarnir mínir hafi aldrei verið spilaðir í geislaspilara. Um leið og ég keypti þá setti ég þá beint í tölvuna og breytti þeim í AAC skrár. Síðan fóru diskarnir uppí hillu, þar sem þeir tóku óþarfa pláss.

iTunes tónlistarsafnið mitt er núna orðið alveg fáránlega stórt, alls um 16.900 lög, sem eru samkvæmt forritinu 47 dagar af tónlist! Áður fyrr reyndi ég alltaf að hafa geisladiskana mína í röð og reglu en ég hafði fyrir löngu gefist upp á því.

Núna er hins vegar allt í röð og reglu í iTunes og forritið heldur m.a.s. utan um það hvaða lag ég hef hlustað oftast á (Last Goodbye með Jeff Buckley, 41 skipti). Reyndar er sú tölfræði aðeins rúmlega hálfs árs gömul en verður sennilega mun áhugaverðari í framtíðinni. Mér þætti til dæmis gaman að vita hvað ég hef hlustað oft á Wonderwall, Comfortably Numb, One Day með The Verve og fleiri lög, sem ég hef hlustað alltof oft á í gegnum tíðina.

5 thoughts on “Bæ bæ geisladiskar”

 1. iTunes er alveg stórkostlega góður hugbúnaður og alveg makalaust að það hafi ekki komið neitt Winblows-samhæft forrit sem kemst nálægt því. Þú ert ekki með iPod sem er með vöggu? Það eru víst margir sem nota hana til að tengja line-out við græjurnar hjá sér, en þá væntar reyndar fjarstýrimöguleikann.
  Ég var reyndar að reyna að láta mér detta í hug einhver þráðlaus lausn en það skársta í þeirri stöðu er væntanlega WiFi kort í XBox eða PS2 en það er algert overkill.

 2. Það er kominn slatti af tækjum, sem stream-a tónlist úr tölvu yfir í græjur. Sum eru meira að segja Wi-Fi.

  Einhvern veginn finnst mér þó ekkert þeirra vera alltof spennandi. Er alltaf að vonast til að Apple komi með eitthvað killer tæki, sem myndi redda þessu öllu.

  Í raun ætti maður bara að þurfa að vera með eitt tæki, sem væri í einu DVD spilari, útvarp og gæti stream-að tónlist úr tölvunni. Þá væri gaman!

  Og reyndar á ég iPod með dock. Held mig samt við mína lausn eitthvað áfram. 🙂

 3. Ok, kannski sleppa “alltof”. En mikið djöfull hef ég hlustað oft á þessi lög. Miðað við að ég hef hlustað í 41 skipti á Last Goodbye, þá býst ég við að til dæmis Wonderwall sé komið vel yfir 200 skipti, bæði í útvarpi og af diski.

  Það myndi þýða að ég hef eytt næstum því 14 klukkutímum í að hlusta á Wonderwall. Ég er eiginlega að vona að þetta playcount dæmi haldist og þá get ég séð eftir 20 ár hversu oft ég hef hlustað á mín uppáhaldslög. Það verður eflaust mjöööög fróðlegt. 🙂

Comments are closed.