Bandaríkjaferð 6: "Okkar kynslóð á Dylan, ykkar ekki neitt!"

*(Kominn á betri tölvu, þannig að ég held áfram á því, sem ég byrjaði á [í gær](https://www.eoe.is/gamalt/2004/09/06/03.12.20/))*

Fullkomið!

Það er eina orðið, sem getur lýst tónleikunum á laugardaginn. 30 stiga hiti og sól á baseball leikvangi í Kansas. 15.000 aðdáendur á tónleikum, sem löngu var uppselt á. Og tveir snillingar, Bob Dylan og Willie Nelson í banastuði. Þvílík og önnur eins snilld! Ég fór á þessa tónleika sem Bob Dylan aðdáandi og fór heim af þeim, sem ennþá meiri Dylan aðdáandi og auk þess mikill Willie Nelson aðdáandi.

Willie kom fyrstur á svið með 7 manna sveit og bandaríska fánann í bakgrunni (sem var svo skipt út fyrir ríkisfána Texas eftir nokkur lög). Willie var æði. ÆÐI! Hann sýnir okkur öllum að kántrí er ekki bara rusl. Kallinn er 71 árs gamall, en samt var hann brosandi allan tímann og söng og spilaði einsog engill öll sín frægustu lög. Allt frá “On the Road Again”, “Bobby McGee”, “Beer for my horses” og svo stórkostlega útgáfu af “Always on my mind”. Þvílíkur snillingur!

Dylan kom svo á svið með 4 manna hljómsveit og hann var frábær. Magnaður! Stórkostlegur! Tónleikarnir voru mjög rokkaðir og hljómsveitin tók fullan þátt í öllum lögunum. Hann fór listilega í gegnum nokkur [frábær lög](http://bobdylan.com/live/summer2004setlists.html#20040904). Byrjaði á “Maggie’s Farm”, tók svo “Stuck inside of Mobile”, Highway 61″, “Trying to get to heaven” og fullt af fleiri lögum. Hann endaði svo auðvitað á “Like a Rolling Stone” og Hendrix-legri útgáfu af “All along the watchtower”. Auðvitað sleppti hann fullt af lögum, sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér, en maðurinn hefur líka samið svo endalaust mikið af lögum að það var varla við öðru að búast. Ég hefði ekki slegið hendinni á móti því að fá nokkur róleg lög, einsog Forever Young, Simple Twist of Fate og fleiri. En allt, sem hann spilaði var snilld.

Dylan og Willie komu svo saman á svið og sungu saman “Heartland”, sem var algjörlega ógleymanlegt. Ef þetta eru ekki bestu tónleikar, sem ég hef farið á, þá eru þeir allavegana helvíti nálægt því.

Eftir tónleikana lenti ég svo með [Luke Wilson](http://www.imdb.com/name/nm0005561/) í leigubíl! Málið var að það voru engir leigubílar á tónleikasvæðinu, þannig að ég plataði leigubílstjóra, sem var að bíða eftir tveim strákum, til að taka mig með líka. Svo þegar strákarnir komu, þá voru það Luke Wilson og vinur hans, sem höfðu komið frá L.A. gagngert til að horfa á tónleikana. Við spjölluðum aðeins um tónleikana og voru þeir álíka hrifnir og ég.

*How does it feeeeeeel*

p.s. Já, og titillinn er kvót í pabba vinar míns, sem sagði þessu fleygu orð á góðri stund. Það er eiginlega honum að þakka að ég varð svona forvitinn yfir Dylan til að byrja með 🙂


Einhvern veginn fannst mér tilhugsunin við 22 tíma lestarferð ekki vera svo galin. Ég veit ekki alveg hvað ég var að hugsa, en þó var þessi 24 tíma lestarferð frá Kansas til Flagstaff í Arizona alls ekki svo slæm. Þetta er þó langt frá metinu mínu, sem er 30 tímar í rútu í Chile.

Ferðin var bara nokkuð fín. Ég svaf í gegnum Kansas en eyddi tímanum mínum í útsýnisvagninum í gegnum Colorado, Nýju Mexíkó og Arizona. Við fórum í gegnum Indjána byggðir, stoppuðum í Albaquerque og sáum mikið af mögnuðu landslagi. 24 tímar var þó fullmikið, sérstaklega þar sem mér tókst herfilega illa að sofna við hliðiná sveittri og leiðinlegri kellingu, sem leit alltaf á mig með illu augnaráði.

Núna er ég kominn til Flagstaff í Arizona og er á mjög fínu gistiheimili í herbergi með 4 strákum frá Englandi. Ætla að eyða næstu dögum í Grand Canyon og nágrenni.


Auk tónleikanna gerði ég lítið af viti í Kansas. Labbaði um, skoðaði gosbrunna (sem borgin er víst fræg fyrir) og las [bók](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/0805073396/qid=1094536009/sr=8-1/ref=sr_8_xs_ap_i1_xgl14/103-3882271-9826214?v=glance&s=books&n=507846), sem ég ætla að skrifa um síðar.

Síðustu klukkutímarnir í Chicago voru erfiðir, mjög erfiðir. Fannst ég þurf að klára ákveðin mál, sem ég hafði kannski ekki klárað nógu vel áður. En ég tala af reynslu þegar ég segi að það er auðveldara að vera særður heldur en að særa þá, sem manni þykir vænt um. Allavegana voru síðustu tímarnir með þeim erfiðari, sem ég hef upplifað á ævinni. En svona er þetta…

*Skrifað í Flagstaff, Arizona klukkan 22:42*

3 thoughts on “Bandaríkjaferð 6: "Okkar kynslóð á Dylan, ykkar ekki neitt!"”

Comments are closed.