Green Day og fleira

Ég var að fatta það að ég hef nánast ekkert skrifað hingað inn af viti síðan að ég kom frá Íslandi. Þar sem að ég er einn heima þá ætla ég að reyna að bæta úr því. Ég var að koma inn eftir hausthreingerningu hérna í húsinu þar sem við gengum frá sumarhúsgögnunum, settum grillið niður og ég reytti ósköpin öll af arfa á milli þess sem ég spjallaði við nágrannana.

Helgin er annars búin að vera róleg. Ég og Margrét fórum útað borða á litlu argentísku steikhúsi hérna á Söder í gærkvöldi, þar sem við fengum fínan mat. Ég var furðu hress miðað við hversu leiðinlegur Liverpool leikurinn fyrr um daginn hafði verið.

Síðasta helgi var nokkuð skemmtilegt. Emil var hérna í heimsókn í fyrsta skipti síðan í vor. Við eyddum slatta tíma á flakki um borgina til að skoða þær staðsetningar sem koma til greina fyrir nýja Serrano staði. Á laugardagskvöldinu fórum við svo útað borða með nokkrum vinkonum Margrétar á East. Við höfum farið áður á þann stað og verið gríðarlega ánægð, en vorum óheppin í þetta skiptið. Eftir það fórum við svo á djammið á Ambassadeur, sem er fínn klúbbur sem er ólíkur flestum klúbbum í Stokkhólmi að þar er (ótrúlegt en satt) stundum góð tónlist spiluð. Margrét og ég vorum reyndar tvö á djammi á þessum sama klúbbi helgina áður þar sem var meiriháttar gaman.

* * *

Við Margrét fórum svo á Green Day tónleika í Globen á sunnudaginn. Margrét gerir tónleikunum ágæt skil á síðunni sinni. Þetta voru frábærir tónleikar. Síðustu tónleikar sem ég fór á í Globen voru með Oasis og munurinn á þessum tveim hljómsveitum var gríðarlegur. Oasis nenntu þessu varla og virtust bara vilja klára settið sem fyrst. Green Day höfðu hins vegar gaman af þessu. Þeir spiluðu öll sín bestu lög (hérna er hægt að sjá set-listann (26 lög – geri aðrir betur) – ég hefði í raun bara bætt Jesus of Suburbia við) og þeir virtust njóta hverrar mínútu. Spilamennskan var frábær og Billie Joe gerði allt sem hann gat gert til að ná stemningunni upp eins mikið og hægt er í Globen, sem er ekki auðveldasti staður í heimi til að halda tónleika á.

Það eru sennilega einhver 14 ár síðan að ég heyrði fyrst í Green Day þegar að Björn Arnar, sem var samferða mér í Verzló flesta daga spilaði diskinn fyrir mig. Ég hlustaði gríðarlega mikið á þann disk og svo á Insomniac, sem kom á eftir. En svo missti ég áhugann og í fleiri ár hlustaði ég lítið á sveitina. Alveg þangað til að ég keypti mér American Idiot nokkrum mánuðum eftir að sú plata kom út. Hún er í miklu uppáhaldi hjá mér enda algjörlega frábær plata. Nýja platan, 21st century breakdown er svo líka fín, þótt hún nái ekki sömu hæðum og American Idiot – en lög einsog 21 guns eru frábær.

Þessir tónleikar voru allavegana allt sem ég hafði vonast eftir

* * *

Annars er haustið komið hérna í Stokkhólmi, það var verulega kalt í síðustu viku en það hefur lagast um þessa helgi og núna er úti sól og ekki svo mikill kuldi. Við eigum svo von á slatta af fólki í heimsókn frá Íslandi. Mamma Margrétar og litli bróðir hennar koma í næstu viku og svo Eva María vinkona hennar þar á eftir – sömu helgi og Emil & Ella koma líka í heimsókn. Það verður fjör.

Neil Young, Pixies, Duffy og Nick Cave

Í kvöld er annar hluti af tónleikaröðinni “Margrét og Einar fara á útitónleika í fáránlega leiðinlegu veðri”. Við erum að fara á Where the action is útihátíðina, sem er haldin hérna í Stokkhólmi í dag og á morgun.

Helstu númer kvöldsins í kvöld eru Pixies og Neil Young. Ég hef verið Neil Young aðdáandi lengi lengi og ef ekki hefði verið fyrir Bruce Springsteen tónleikana fyrir viku þá hefði ég sennilega skrifað mun meira um þessa tónleika hér á bloggið. Set-listinn sem Young hefur spilað undanfarnar vikur er svakalega góður með slatta af gömlum slögurum (Heart of Gold, Hey Hey, Pocahontas, Rockin in the Free World, Cinnamon girl, Like a Hurricane, etc).

Gallinn við kvöldið í kvöld er að hér er rigning og skítaveður. Nánast alveg eins og á Springsteen tónleikunum. Hátíðin heldur svo áfram á morgun þar sem að aðalnúmerin eru Duffy, The Magic Numbers og Nick Cave, sem ég hef einmitt aldrei hlustað á.

En í kvöld er hápunkturinn sennilega þegar að Neil Young tekur þetta lag.

Jamm, það verður gaman í rigningunni.

Bruce Springsteen í Stokkhólmi

Einsog ég talaði um fyrir viku, þá fórum við Margrét á tónleika með Bruce Springsteen á Stockholm Stadion síðasta fimmtudag. Stadion er Ólympíuvöllurinn hérna í Stokkhólmi og er ekki með sæti fyrir nema um 13.000 manns á íþróttaviðburðum. Hins vegar þá var á þessum tónleikum nánast allt grasið nýtt undir stæði fyrir tónleikagesti, þannig að alls voru um 30.000 manns á staðnum. Springsteen hélt þrjá tónleika hérna í Stokkhólmi um síðustu helgi og þessir voru þeir fyrstu.

Við vorum eiginlega eins óheppin með veður og hægt er að vera í júní í Stokkhólmi. Það var kalt og rigning á tónleikunum. Það þýddi þó að við fengum þann bónus að Springsteen byrjaði tónleikana á gamla Creedence Clearwater slagaranum “Who’ll stop the rain”. Ég tók nokkrar myndir, sem eru hérna.

Annars leit set-listinn svona út:

Who’ll Stop The Rain
Badlands
My Lucky Day
Prove It All Night
Outlaw Pete
Out In The Street
Working On A Dream
Seeds
Johnny 99
The Ghost of Tom Joad
Raise Your Hand
I’m Goin’ Down
Cadillac Ranch
Because The Night
Wild Thing
Waiting On A Sunny Day
The Promised Land
The Wrestler
Kingdom Of Days
Lonesome Day
The Rising
Born To Run

Uppklapp
Hard Times
Bobby Jean
Land of Hope and Dreams
American Land
Glory Days
Twist And Shout
Dancing In The Dark

Þetta voru einfaldlega stórkostlegir tónleikar. Springsteen verður sextugur í september, en hann er hreint fáránlega góður á tónleikum. Hann virðist hafa gaman af því að koma fram og lagalistinn hans er frábær blanda af nýjum lögum og gömlum slögurum. Ég var búinn að kynna mér set-listana vel fyrir tónleikana, þannig að ég vissi nokkurn veginn við hverju mátti búast. Það má segja að einu vonbrigðin hafi verið þau að hann tók ekki Thunder Road.

En á móti því kom að hann tók hreint stórkostlega útgáfu af “The Wrestler”, sem hann hefur ekki tekið alltaf (og þetta var í eina skiptið sem hann tók það lag í Stokkhólmi). Einsog ég sagði áður þá byrjaði Springsteen á Who’ll stop the rain og svo keyrði hann inní Badlands, sem er nánast alltaf hans upphafslag. Í næstum því þrjá tíma fór hann svo á kostum. Hann tók ótrúlega góðar útgáfur af nýjum lögum (þar sem Outlaw Pete og The Wrestler báru af) ásamt gömlum slögurum inná milli – auk þess sem hann tók óskalög frá áhorfendum, sem að báðu um þau með því að halda uppi skiltum.

Hann endaði svo prógrammið á Born To Run, sem hefur verið eitt af mínum uppáhaldslögum í mörg ár. Í hreint stórkostlegri uppklappsseríu tók hann æðislega útgáfu af American Land (sem ég elska) áður en hann endaði á tveimur vinsældaslögurum, Glory Days og Dancing in the Dark. Allan tímann var hann á fullu um sviðið og slakaði aldrei á. Hápunktarnir: Wrestler, Ghost of Tom Joad, Born to Run og American Land.

Ég er búinn að bíða í mörg ár eftir að sjá Springsteen og ólíkt mörgum eldri tónlistarmönnum sem ég hef séð, þá stóð Springsteen 100% undir öllum þeim væntingum, sem ég gerði mér fyrir tónleikana. Að horfa á tónleika á íþróttavöllum er auðvitað aldrei jafn skemmtilegt og í minni sal, en þessir tónleikar eru samt klárlega meðal þeirra 5 bestu sem ég hef séð á ævinni.

Springsteen er einfaldlega meistari.

Springsteen á morgun

Ég og Margrét erum á leið á Bruce Springsteen tónleika á morgun og ég er um það bil að tryllast úr spenningi. Ég hef ekki verið svona spenntur fyrir tónleikum í mörg, mörg ár.

Springsteen er búinn með tvo tónleika á evrópska túrnum, á hátíð í Hollandi og svo í Finnlandi í gær. Set-listinn af þeim tónleikum lítur stórkostlega út.

Badlands
Radio Nowhere
Prove It All Night
Outlaw Pete
Out in the Street
Hungry Heart
Working on a Dream
Seeds
Johnny 99
The Ghost of Tom Joad
Raise Your Hand
Cover Me
Because the Night
Thunder Road
Waitin’ on a Sunny Day
The Promised Land
The Dark End of the Street
Kingdom of Days
Lonesome Day
The Rising
Born to Run

Uppklapp:
Hard Times
Bobby Jean
Land of Hope and Dreams
American Land
Glory Days
Dancing in the Dark

Eigum við eitthvað að ræða þessa snilld? Jú jú, þetta yrði eitthvað smá öðruvísi ef að ég myndi velja þetta sjálfur (vantar uppáhaldslagið mitt, River) en vá hvað þetta er samt mikið æði.

Eini gallinn er að það er spáð riginingu og við erum í stæðum, þannig að við munum blotna. En hvað gerir maður ekki fyrir Bruce Springsteen tónleika?

Tónleikar á næstunni

Í morgun keypti ég tvo miða á Green Day, sem munu spila í Globen í Stokkhólmi í október. Það er hreinasta snilld. Ég er verulega spenntur fyrir nýju plötunni þeirra, en sú síðasta American Idiot var hreint ótrúlega góð. Einnig hef ég heyrt að þeir séu frábært tónleikaband.

Við sjáum myndband:

Næstu mánuðir líta því hreint ótrúlega vel út: Bruce fokking Springsteen í byrjun júní. Svo Where the action is – Hátíð hérna í Stokkhólmi með Neil Young, Pixies, Duffy og Nick Cave. Og svo Green Day í október.

Lífið í Stokkhólmi, Oasis tónleikar og fleira

Lífið í Stokkhólmi er gott. Við Margrét erum búin að gera margt skemmtilegt, en ég hef einhvern veginn ekki haft kraft í að skrifa blogg eða email til vina heima.

Vinnan gengur fínt og opnunin í Vallingby hefur heppnast vel. Ég er smám saman að læra á það sem virkar og það sem virkar ekki í sænska viðskiptavini. Þótt að Svíar séu líkir Íslendingum, þá getur maður ekki notað alveg sömu aðferðir og við notuðum heima. En þetta kemur smám saman. Við erum meðal annars að fara í samstarf með stærstu líkamsræktarkeðjunni í Svíþjóð, sem ætti að stimpla okkur inn meðal fólks sem hugsar um heilsuna.

* * *

Við fórum á Oasis tónleika í síðustu vik í Globen íþróttahöllinni. Við keyptum miðana mjög seint og fengum því sæti á ekkert spes stað. Ég sá Oasis fyrir 8 árum í Chicago á mjög góðum tónleikum í Chicago Theatre, sem er um 3.000 manna leikhús sem hentaði frábærlega sem tónleikastaður. Ég var þar á fremsta bekk og þrátt fyrir að Noel hefði sungið nánast öll lögin, þá voru það frábærir tónleikar. Eini gallinn var alltof hröð útgáfa af Wonderwall.

Tónleikarnir í Globen voru ágætir. Ég sagði það eftir tónleikana að Noel væri eiginlega tragísk persóna. Hann samdi efni á tvær stórkostlegar plötur þegar hann var 27 og 28 ára en hefur aldrei náð slíkum hæðum aftur. Meira að segja B-hliðar á smáskífum (Talk Tonight, Masterplan) á þeim tíma voru stórkostleg lög, mun betri en það sem hann hefur samið síðustu ár.

Núna er hann í hljómsveit með bróður sínum, sem virðist engan áhuga hafa á þessu. Þessi sviðsframkoma Liams var sniðug fyrir 15 árum, en varla lengur í dag. Hann var alltaf að fara af sviðinu, virtist ekki leggja mikið á sig og stóð einsog álfur og starði á áhorferndur þess á milli. Auk þess sem hann virtist vera mjög ölvaður eða á öðrum vímugjöfum og ekkert skildist af því sem hann sagði. Það vantaði rosalega mikið aukinn kraft frá honum til að gera lögin betri.

Að því sögðu, þá tóku þeir Wonderwall, Don’t look back in anger, Masterplan, Morning Glory og Champagne Supernova. Og það er nóg fyrir mig. Þetta eru lög sem ég algjörlega dýrkaði sem unglingur og geri enn í dag. Oasis áttu ásamt Blur, Radiohead, Weezer, Sude, Pulp og einhverjum öðrum sveitum þær plötur sem að höfðu mest áhrif á mig á unglingsárunum. Ætli þeir verði því ekki alltaf í miklum metum hjá mér. Wonderwall er sennilega það lag sem ég hef hlustað oftast á, og Don’t Look back in anger er eitthvað besta gítarlag í heimi. Það að sjá þessi lög flutt af Oasis á sviði í annað skiptið á ævinni gerir kvöldið þess virði.

Þeir tóku líka nokkur lög af nýju plötunum og þar fannst mér I’m Outta Time vera hápunkturinn.

* * *

Ég hef svo borðað ofboðslega góðan mat, unnið mikið, séð tvær myndir í bíó (nýjustu Lukas Moodyson myndina Mammut – sem er góð og Benjamin Button, sem er la la) og skoðað óheyrilegt magn af íbúðum. Við höfum bara leiguíbúðina fram til loka apríl, þannig að við höfum flakkað mikið um Vasastan og Södermalm í leit að íbúð. Það er ekki auðvelt verk. Jú, og við djömmuðum með gestum frá Íslandi í kringum Stureplan, sem var mjög skemmtilegt.

Ég elska þessa borg.

Björk og Sigur Rósar-tónleikarnir

Fór á tónleikana með vinum mínum í gær og endaði síðan á ansi hressu djammi.

Tónleikarnir voru fínir. Við vorum talsvert langt frá sviðinu og hljóðið var frekar slæmt, það virtist vera svo að vindar réðu því hvernig lagið hljómaði, þannig að hljóðið hækkaði og lækkaði eftir því hvernig vindar blésu.

Ég hafði rétt hlustað á nýju plötuna með Sigur Rós og við fyrstu hlustanir þá er ég aðallega að fíla hressu lögin af plötunni (sem þeir tóku í gær), en hægu lögin þurfa eflaust meiri tíma. Nýju lögin voru hápunkturinn hjá Sigur Rós, sérstaklega Gobbedigook og Við Spilum Endalaust. Klæmaxið í Popplaginu (sem ég var að sjá í fimmta skipti á tónleikum) klúðraðist eiginlega útaf hljóðinu. En Sigur Rós voru samt frábærir. Næst væri ég til í að sjá þá á aðeins minni tónleikum.

Björk var líka góð. Ég var að sjá hana í fyrsta skipti á tónleikum og þótt ég hafi ekki hlustað mikið á nýrri plöturnar hennar (eftir að hafa dýrkað fyrstu þrjár) þá þekkti ég flest lögin, sem hún tók. Hún var með hálsbólgu og gat því ekki sungið allra hæstu nóturnar. Hyper-Ballad (uppáhalds lagið mitt með henni) og Declare Independence voru bestu punktarnir. Ég tók [nokkrar myndir á tónleikunum](http://www.flickr.com/photos/einarorn/sets/72157605883824091/).

Eftir um klukkutíma spila svo Spánverjar til úrslita á EM og það er í fyrsta skipti í langan tíma sem að lið sem ég hef tilfinningar til spilar til úrslita á stórmóti. Ég segi að Spánverjar vinni 3-1 og Torres skori tvö.

Cornell

Tónleikarnir með Chris Cornell í gær voru góðir. Fyrir tónleikana hitti ég nokkra vini mína í kvöldmat, sem átti upphaflega að vera á Aski (sem var fullur), svo á Trocadero (sem var lokaður), svo á Ruby Tuesday, Red Chilli og Pizza Hut (sem voru allir fullir) og endaði svo á McDonald’s. Mjög hressandi.

Það var engin upphitun, sem mér fannst fínt því Cornell var full fær um að halda kvöldinu uppi. Hann tók mörg af sínum bestu lögum og það er með ólíkindum að hlusta á manninn á tónleikum, því það er vandfundinn sá söngvari, sem hefur jafn kraftmikla rödd og hann.

Hápunktur kvöldsins var hans [besta lag](http://youtube.com/watch?v=mML2NhjyLyU), sem mér fannst fólkið taka furðu lítið undir. Mér finnst þó alltaf hálf skrýtið að sitja í stúku á svona rokktónleikum.

p.s. Veit einhver af hverju [þetta blogg](http://zumann.blog.is/blog/zumann/) er vinsælasta bloggið á blogg gáttinni? Er ég að missa af einhverjum skemmtilegheitum, sem að allir aðrir sjá?

Pétur, Björn og Jón!

Hvaða guðdómlegi snillingur skipulagði [þetta](http://nasa.is/index.php?option=com_n-nasa-ticket&Itemid=24&do=view_event&event_id=104)? Peter, Bjorn og John á Nasa 13.apríl!!!

* * *

Hérna eru 1. apríl spurningar af MeFi

>Hi, I want my girlfriend to dress up like a Wookie in bed but she will not do it. How can I change her mind?

og

>I have a crazy friend who says it’s wrong to eat meat. Is he crazy?

Meira [hér](http://ask.metafilter.com/april1.mefi).