Morrissey

Morrissey kemur til Íslands og spilar í Laugardalshöll 12. ágúst. Það, dömur mínar og herrar, er fokking snilld!

Og svo Sufjan í nóvember! Ef einhver getur reddað mér miðum á þá tónleika, þá væri ég verulega þakklátur.

Roger Waters í Egilshöll

Jæja, tónleikarnir í gærkvöld voru verulega góðir. Ég fór með [Jens](http://jenssigurdsson.com/) vini mínum og skemmtum við okkur vel. Prógrammið var ekki ósvipað því, sem ég sá í Texas fyrir nokkrum árum, þó með nokkrum skemmtilegum breytingum.

Fyrir það fyrsta var stórt tjald fyrir aftan hljómsveitina, sem var nýtt nokkuð vel með myndefni. Til dæmis kom Perfect Sense vel út með myndband í bakgrunni. Prógrammið var nokkuð svipað og í Texas fyrir utan að Waters tók auðvitað alla Dark Side of the Moon. Svo tók hann líka nýlegt (á mælikvarða Waters) lag, Leaving Beirut þar sem hann notaði líka skjáinn vel til að segja sögu.

Hápunktarnir voru líka svipaðir og síðast. Perfect Sense var frábært og svo var lokakaflinn í Dark Side verulega flottur. Við vorum nokkuð nálægt sviðinu og ég man ekki eftir að hafa upplifað betra hljóð í Egilshöll. Upplifunin mín var þó nokkuð öðruvísi en í Houston fyrir 6 árum. Að vissu leyti vegna þess að ég hef ekki hlustað svo mikið á Pink Floyd efni undanfarin ár. Þegar ég fór á tónleikana í Texas, þá var ég á tímabili þar sem ég hlustaði gríðarlega mikið á Pink Floyd og Waters og öll lögin virtust fersk. Núna hafði hins vegar liðið langur tími síðan ég hafði síðast hlustað á efnið. Var m.a.s. búinn að gleyma textanum að Set the controls… En þetta virkaði sem frábær upprifjun og ég er ekki frá því að það hafi kviknað í mér Pink Floyd áhugi aftur.


Fluginu til Osló hefur verið seinkað og því sit ég núna inná Saga Lounge í Keflavík. Það gerir biðina eftir flugina svo sannarlega bærilegri.

Roger Waters til Íslands!

Roger_Waters_09.09.1943.gifJess jess JESSSSSS!!!!!

[Roger Waters spilar í Egilshöll 12. júní](http://www.mbl.is/mm/folk/frett.html?nid=1185457)!!!

Fyrir þá, sem ekki vita þá var Roger Waters bassaleikari og aðallagahöfundur Pink Floyd á helsta blómaskeiði hljómsveitarinnar. Ég sá [Waters á tónleikum í Houston, Texas](https://www.eoe.is/gamalt/2000/06/11/21.41.13/) fyrir nokkrum árum og það eru sennilega aðrir af tveim bestu tónleikunum, sem ég hef séð á ævinni (ásamt Radiohead í Grant Park í Chicago).

Ég er reyndar forfallinn Pink Floyd aðdáandi, þrátt fyrir að ég hafi hlustað afskaplega lítið á þá síðustu 2-3 ár. Á nokkurra ára tímabili voru þeir mín uppáhaldshljómsveit og ég hef eytt óteljandi klukkustundum hlustandi á gamla diska með þeim. Ég veit ekki hvort að tónleikarnir í Egilshöllinni verða jafn stórkostlegir og þeir í Houston, en ég get allavegana látið mig dreyma.

Þetta verður æði!

Bow wow wow yippy yo yippy yay

Ég fór á Snoop Dogg með tveimur vinum mínum á sunnudag. Einn stakk reyndar af eftir smá stund, þannig að við vorum eiginlega bara tveir allan tímann, ég og [PR](http://www.jenssigurdsson.com/). Ég hef fílað Snoop nokkuð lengi. Uppgötvaði hann reyndar ekki þegar hann byrjaði, heldur var það ekki fyrr en 3-4 árum seinna. Þegar það gerðist varð hann strax í miklu uppáhaldi hjá mér.

Við komum inní höllina þegar að Hjálmar voru að klára sitt sett. Þeir voru nokkuð góðir. Frekar fyndin hljómsveit. Þeir líta út einsog Creedence Clearwater Revival, en spila nokkuð skemmtilega tónlist. Held einhvern veginn að tónlistin njóti sín jafnvel betur á tónleikum. Kannski að ég gefi þeim loksins sjens og kaupi plötuna.

Næstir á svið voru Hæsta Höndin. Það atriði var frekar slappt. Til að byrja með heyrðist ekkert í Erp, því míkrafónninn hans var í rugli. Það heyrðist eiginlega bara í þeim, sem gerðu ekkert nema að hrópa með í chorus-num (Sesar A t.d.). Svo komu á svið nokkrir úr Rotweiler hundum. Það var ekki mikið betra, því ekkert heyrðist í Bent í því prógrammi. Það er með ólíkindum að svona klúðrist á svona tónleikum. Sama hversu góðir menn eru á sviði (og þeir voru jú ansi hressir), þá er lítið gaman þegar að það heyrist ekkert í neinum.


Eftir að það atriði klárast var sýnd snotur stuttmynd, þar sem að Snoop svaf hjá tveim gellum og skaut svo aðra þeirra. Í þeirri mynd var víst eitthvað plott, en textinn heyrðist illa sökum slaks hljóðs í höllinni. Snoop kom svo á svið og byrjaði á *Murder was the Case* í nokkuð slappri útgáfu, en eftir það var leiðin hiklaust uppá við. Snoop fór í gegnum mörg af sínum bestu lögum. Flest lögin voru af Doggystyle og svo nokkur af nýju lögunum, sem hann hefur sungið sem dúett með tónlistarmönnum, sem eru vinsælli en hann sjálfur meðal yngstu kynslóðarinnar, svosem *P.I.M.P.*, *Signs* og *Drop it Like It’s Hot*.

Við PR vorum þau auðvitað spenntastir fyrir gömlu Doggystyle og Chronic slögurunum, enda það bestu plöturnar hans Snoop. Hann tók mörg bestu lögin af þeim plötum, svo ég var nokkuð sáttur við prógrammið. Á milli laga gerði Snoop svo mikið úr því að fá salinn til að syngja með sér og hann virtist hafa alla í vasanum. Reyndar gerði hann eiginlega alltof mikið af þessu og þetta var alltof langt. Maður nennir bara að segja “Iceland is da best” og “We love you Snoop” visst mörgum sinnum áður en það verður þreytandi.


Þannig að tónleikarnir voru góðir, ég fékk það sem ég hafði búist við. Ekki síður skemmtilegt var að fylgjast með fólkinu á tónliekunum. Ég hata að hljóma einsog Íhaldsmaður og flestir sem þekkja mig vita að ég er mikill fylgismaður þess að stelpur klæði sig létt og gangi í pilsum, en ég verð hreinlega að vera sammála því sem [Ásgeir Helgi skrifar á Deiglunni í gær](http://www.deiglan.com/index.php?itemid=8860):

>Ég hafði aldrei tekið eftir þessu fyrr, en það er staðreynd að stúlkur, rétt um fermingaraldur klæða sig margar hverjar eins og mellur.

Vandamálið er ekki að fermingarstelpurnar klæði sig einsog þær séu fullorðnari en þær eru, heldur er vandamálið að þær klæðast fötum, sem að stelpur á framhaldsskóla-aldri og uppúr, myndu *aldrei* klæðast nema á grímuballi. Það er alveg ljóst að ef maður hefur sérstakan áhuga á að sjá léttklæddar fermingarstelpur, þá voru tónleikarnir í gær staðurinn til að vera á. Þetta var allavegana nóg til að breyta mér í íhaldsmann í fyrsta skiptið. Kannski er þetta bara aldurinn. Allavegana klæddust stelpurnar ekki svona í minni sveit þegar ég var á þessum aldri. Ég hefði þó sennilega verið alsæll með það ef svo hefði verið.

Aldursbilið var talsvert þrengra en á flestum tónleikum, sem ég hef séð. Þeir allra elstu virtust vera um þrítugt og svo náði þetta niður í um 12-13 ára krakka. Þeir elstu voru auðvitað þarna útaf Doggystyle, en þeir yngri hafa sennilega hrifist af Snoop í gegnum dúettana, sem hann hefur flutt að undanförnu. Allavegana var mest fagnað þegar *Drop it like it’s hot* var spilað, en minna fagnað þegar að *Wit Dre Day* og hans bestu lög komu. Sem er magnað.

FF Og QOTSA

Foo og Queens of the Stone Age tónleikarnir í gær voru fínir. Þetta var í fyrsta skipti, sem ég hef farið á tónleika í Egilshöll. Var þarna með vini mínum og við skemmtum okkur vel.

Ég hef gefið QOTSA nokkur tækifæri, hef hlustað oft á diskana þeirra og hef fílað þá sæmilega. Hef aldrei verið neitt brjálæðislega hrifinn. Ég átti alveg eins von á því að þeir myndu algjörlega heilla mig á tónleikunum, kannski líkt og Dismemberment Plan gerðu um árið. En það tókst ekki alveg. Þeir voru góðir, en ekki frábærir. Ég er bara ekki að fíla nógu mörg lög með þeim. Þeir gerðu allt rétt og spilamennskan var frábær, en ég er einfaldlega ekki að fíla nógu mörg lög með þeim. En *Little Sister* og *No One Knows* voru skemmtileg.

Foo Fighters voru frábærir. Eða réttara sagt, Dave Grohl var frábær. Hann (og trommuleikarinn að smá leyti) á alveg þetta band. Hann var skemmtilegur á sviði, öskurtaktarnir hans fannst mér fyndnir og lífga uppá flutninginn. Þeir keyrðu í gegnum skemmtilegt prógramm, þar sem maður þekkti öll lögin. Best voru *Everlong* og *Stacked Actors*.

Allavegana, ég var mjög sáttur við kvöldið.

Útgáfutónleikar

Fór áðan með vini mínum á útgáfutónleika Maus. Einhvern veginn hafði ég ekki séð neitt um tónleikana fyrr en Björgvin Ingi benti mér á þetta á MSN í dag.

Jæja, tónleikarnir voru haldnir í Austurbæ og voru snilld. Bestu tónleikar, sem ég hef verið á með Maus. Þeir renndu í gegnum öll sín bestu lög, alveg frá Músíktilraunum til “Life in a Fishbowl”. Tóku m.a. 3 lög “acoustic”, þar á meðal frábæra rólega útgáfu af Kerfisbundinni Þrá.

Fyrir utan þann rólega kafla var þetta bara eðalrokk. Eftir svona tónleika finnst manni í raun grátlegt að þeir skuli ekki vera heimsfrægir. Þetta er ekki tónlist, sem að allir fíla, en það ætti að vera nægur markaður fyrir svona frábært popp-rokk. Allavegana, þið sem eruð enn með fordóma gagnvart Maus, gefið þeim sjens. Íslenskt rokk gerist ekki betra.

Svo eru líður manni líka alltaf svo vel á tónleikum með Maus. Í raun einsog allir þarna inni séu nánir vinir hljómsveitarinnar. Veit ekki hvað það er, en ég fæ alltaf þá tilfinningu. Já, og svo tóku þeir líka 3 ný lög, sem hljómuðu öll nokkuð vel. Ég bíð allavegana spenntur eftir næstu alvöru plötu.

Damien aftur æði

Svei mér þá, tónleikarnir með Damien Rice í gær voru betri en þeir [síðustu](https://www.eoe.is/gamalt/2004/03/24/22.59.24/). Munurinn var kannski sá að ég var með mun meiri væntingar núna heldur en síðast, þannig að upplifunin var ekki jafn stórkostleg og síðast.

Síðast þegar Damien byrjaði að rokka var maður alveg “hólí sjitt, þetta er snilld” en núna bjóst maður við snilld. Lisa, söngkonan, sem var með honum var frábær og bætti tónleikana enn frekar. Einnig var það frábært að það voru engir plebbar að panta kokteila á barnum líkt og síðast.

Fór með fjórum vinum mínum á tónleikana, þar af einum, sem fór á fyrri tónleikana og þau voru öll jafn hrifin. Ég var reyndar orðinn þokkalegar þreyttur í löppunum í endan á tónleikunum enda búinn að standa í þrjá klukkutíma án þess að hreyfa mig.

En semsagt snilld. Ykkur, sem misstuð af báðum tónleikunum, er ekki við bjargandi. Damien Rice er snillingur.

Já, og svo skemmir ekki fyrir því að hann virkar svo innilega einlægur þegar hann lýsir yfir aðdáun sinni á Íslandi. Bestu lögin voru “I Remember” og “Women like a man”.

**Uppfært**: Hér er ágætis pistill um tónleikana ásamt set-lista.

*Gummijóh er með [set-listann](http://www.gummijoh.net/archives/007946.php#007946) á sinni síðu.*

Bandaríkjaferð 6: "Okkar kynslóð á Dylan, ykkar ekki neitt!"

*(Kominn á betri tölvu, þannig að ég held áfram á því, sem ég byrjaði á [í gær](https://www.eoe.is/gamalt/2004/09/06/03.12.20/))*

Fullkomið!

Það er eina orðið, sem getur lýst tónleikunum á laugardaginn. 30 stiga hiti og sól á baseball leikvangi í Kansas. 15.000 aðdáendur á tónleikum, sem löngu var uppselt á. Og tveir snillingar, Bob Dylan og Willie Nelson í banastuði. Þvílík og önnur eins snilld! Ég fór á þessa tónleika sem Bob Dylan aðdáandi og fór heim af þeim, sem ennþá meiri Dylan aðdáandi og auk þess mikill Willie Nelson aðdáandi.

Willie kom fyrstur á svið með 7 manna sveit og bandaríska fánann í bakgrunni (sem var svo skipt út fyrir ríkisfána Texas eftir nokkur lög). Willie var æði. ÆÐI! Hann sýnir okkur öllum að kántrí er ekki bara rusl. Kallinn er 71 árs gamall, en samt var hann brosandi allan tímann og söng og spilaði einsog engill öll sín frægustu lög. Allt frá “On the Road Again”, “Bobby McGee”, “Beer for my horses” og svo stórkostlega útgáfu af “Always on my mind”. Þvílíkur snillingur!

Dylan kom svo á svið með 4 manna hljómsveit og hann var frábær. Magnaður! Stórkostlegur! Tónleikarnir voru mjög rokkaðir og hljómsveitin tók fullan þátt í öllum lögunum. Hann fór listilega í gegnum nokkur [frábær lög](http://bobdylan.com/live/summer2004setlists.html#20040904). Byrjaði á “Maggie’s Farm”, tók svo “Stuck inside of Mobile”, Highway 61″, “Trying to get to heaven” og fullt af fleiri lögum. Hann endaði svo auðvitað á “Like a Rolling Stone” og Hendrix-legri útgáfu af “All along the watchtower”. Auðvitað sleppti hann fullt af lögum, sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér, en maðurinn hefur líka samið svo endalaust mikið af lögum að það var varla við öðru að búast. Ég hefði ekki slegið hendinni á móti því að fá nokkur róleg lög, einsog Forever Young, Simple Twist of Fate og fleiri. En allt, sem hann spilaði var snilld.

Dylan og Willie komu svo saman á svið og sungu saman “Heartland”, sem var algjörlega ógleymanlegt. Ef þetta eru ekki bestu tónleikar, sem ég hef farið á, þá eru þeir allavegana helvíti nálægt því.

Eftir tónleikana lenti ég svo með [Luke Wilson](http://www.imdb.com/name/nm0005561/) í leigubíl! Málið var að það voru engir leigubílar á tónleikasvæðinu, þannig að ég plataði leigubílstjóra, sem var að bíða eftir tveim strákum, til að taka mig með líka. Svo þegar strákarnir komu, þá voru það Luke Wilson og vinur hans, sem höfðu komið frá L.A. gagngert til að horfa á tónleikana. Við spjölluðum aðeins um tónleikana og voru þeir álíka hrifnir og ég.

*How does it feeeeeeel*

p.s. Já, og titillinn er kvót í pabba vinar míns, sem sagði þessu fleygu orð á góðri stund. Það er eiginlega honum að þakka að ég varð svona forvitinn yfir Dylan til að byrja með 🙂


Einhvern veginn fannst mér tilhugsunin við 22 tíma lestarferð ekki vera svo galin. Ég veit ekki alveg hvað ég var að hugsa, en þó var þessi 24 tíma lestarferð frá Kansas til Flagstaff í Arizona alls ekki svo slæm. Þetta er þó langt frá metinu mínu, sem er 30 tímar í rútu í Chile.

Ferðin var bara nokkuð fín. Ég svaf í gegnum Kansas en eyddi tímanum mínum í útsýnisvagninum í gegnum Colorado, Nýju Mexíkó og Arizona. Við fórum í gegnum Indjána byggðir, stoppuðum í Albaquerque og sáum mikið af mögnuðu landslagi. 24 tímar var þó fullmikið, sérstaklega þar sem mér tókst herfilega illa að sofna við hliðiná sveittri og leiðinlegri kellingu, sem leit alltaf á mig með illu augnaráði.

Núna er ég kominn til Flagstaff í Arizona og er á mjög fínu gistiheimili í herbergi með 4 strákum frá Englandi. Ætla að eyða næstu dögum í Grand Canyon og nágrenni.


Auk tónleikanna gerði ég lítið af viti í Kansas. Labbaði um, skoðaði gosbrunna (sem borgin er víst fræg fyrir) og las [bók](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/0805073396/qid=1094536009/sr=8-1/ref=sr_8_xs_ap_i1_xgl14/103-3882271-9826214?v=glance&s=books&n=507846), sem ég ætla að skrifa um síðar.

Síðustu klukkutímarnir í Chicago voru erfiðir, mjög erfiðir. Fannst ég þurf að klára ákveðin mál, sem ég hafði kannski ekki klárað nógu vel áður. En ég tala af reynslu þegar ég segi að það er auðveldara að vera særður heldur en að særa þá, sem manni þykir vænt um. Allavegana voru síðustu tímarnir með þeim erfiðari, sem ég hef upplifað á ævinni. En svona er þetta…

*Skrifað í Flagstaff, Arizona klukkan 22:42*

Ó, Lou!

Veit ekki. Fór á Lou Reed í gær. Einn vinur minn hafði svikið mig á því að fara útaf einhverju stjórnmálabrölti, en mér tókst að redda boðsmiðum fyrir tvo vini mína og fór með þeim.

Æi, ég veit ekki. Er eiginlega nokkuð sammála þessu hjá [Dr. Gunna](http://www.this.is/drgunni/gerast.html). Ég þekkti ekki fyrstu 10 lögin, sem voru öll einsog þau væru spiluð af Phish, eða einhverri djammsveit. Voða gaman eflaust með fimm mínútna gítarsólóum, en mér leiddist og ég bað til Guðs um að hann myndi fara að spila eitthvað af Velvet Underground lögunum.

En þau komu bara aldrei. Jú, hann tók Venus in Furs og svo gjörsamlega kraftlausa útgáfu af Sweet Jane. Hef sjaldan verið eins fúll yfir tónleikaútgáfu af lagi einsog Sweet Jane. Það var einsog einhver hefði miðað skammbyssu á hausinn á honum og neytt hann til að taka lagið.

Ok, gaurinn var allt í öllu í einni bestu rokkhljómsveit allra tíma, en samt tekur hann bara tvö lög með þeirri hljómsveit á sínum fyrstu tónleikum í nýju landi. Það fannst mér verulega slappt. Ég get nefnt svona 15 Underground lög, sem ég hefði viljað heyra.

Allavegana, uppklappið var það skásta, hann tók þá Satellite of Love, Perfect Day og Walk on the Wild Side. Samt alls ekki nógu gott í heildina.


En ok, á víst flug seinna í dag. Ætla að reyna að uppfæra nokkrum sinnum frá Bandaríkjunum. Ok, bæ.

Damien Rice

Ég og [PR](http://www.grodur.is/jens/) fórum á Damien Rice á Nasa síðasta föstudag. [Gummijóh](http://www.gummijoh.net/archives/007030.php#007030) og hagfræðingurinn, sem má ekki linka á, hafa fjallað ágætlega um tónleikana.

Ég verð að viðurkenna að þetta var svo miklu miklu betra en ég átti von á. Vissulega er “O” fínn diskur með sæmilega grípandi lögum, en ég bjóst ekki við neinni flugeldasýningu.

Þess vegna var svo ótrúlega gaman að upplifa þessa mögnuðu tónleika. Rice setti gríðarlegan kraft í lögin með því meðal annars að nota hljóðeffekta á frábæran hátt. Það var bara eitthvað við framkomuna, sönginn og kraftinn sem var alveg magnað. Það er auðvitað hneyksli að líkja “O” við “Grace” með Buckley en hins vegar hefur maður á tilfinningunni að Rice geti átt eitthvað í Buckley með árunum.

Eina sem skemmdi fyrir þessu voru glamgellurnar á barnum, sem voru símalandi og pantandi kokteila. Lögin eru sum hver það róleg að það þurfti algjöra þögn á staðnum.

En það skemmdi þó ekki fyrir þessum tónleikum. Sannarlega með bestu tónleikum, sem ég hef farið á. Damien Rice er sko rétt að byrja.