Tónleikar

Raekwon í kvöld og Damien Rice á morgun. Svona á þetta að vera! Þetta er dagur hinna stuttu færslna.

Og sem gamall Verzlingur: Takk Borgarholtsskóli!

Muse tónleikar

Ok, fór semsagt á Muse á miðvikudaginn. Ég og Friðrik vinur minn fengum boðsmiða í stúku og fengum við sæti á fínum stað. Mínus voru helvíti góðir í upphituninni. Sándið var ekki alveg nógu gott en þeir bættu það upp með sviðsframkomu og kröftugum flutningi.

Muse voru ótrúlega magnaðir. Matthew Bellamy er náttúrulega ótrúlegur snillingur. Magnaður píanó- og gítarleikari og frábær söngvari. Ég uppgötvaði þetta band ekki nema fyrir nokkrum vikum en síðan þá hef ég hlustað á fátt annað en diskana með þeim og ég verð að segja að þeir eru alveg frábært band.

Það er svo sem ekki mikið að segja um þetta. Absolution er uppáhaldsdiskurinn minn í dag og það er frábært að geta farið með hljómsveit og séð þá taka uppáhaldsdiskinn sinn hverju sinni. Það er ekki oft sem það gerist, sérstaklega á Íslandi. Man bara eftir Blur eftir Parklife, Rage Against the Machine og svo Coldplay eftir A Rush of Blood to the head.

En allavegna, þið sem hlustið ekki á Muse eða fenguð ekki miða, misstuð af frábærum tónleikum!

Bestu tónleikarnir

Einhvern veginn hef ég ekki haft þrek í mér að skrifa á þessa síðu undanfarna daga. það hefur nákvæmlega ekkert spennandi gerst. Líf mitt hefur snúist um mikla vinnu og það að leggja parket á íbúðina. Núna er ég hins vegar nokkurn veginn að klára þetta parket dæmi, svo að mig getur byrjað að dreyma um annað en gliðnandi parket.

Annars, þá fann ég nokkra vikna gamla færslu og ákvað að klára hana. Hérna eru sem sagt 10 bestu tónleikarnir, sem ég hef farið á. það var furðu erfitt að velja og hafna á þennan lista. Ég veit að lýsingarnar á tónleikunum eru ekki merkilegar. En ég meina hey.

10. Blur – Laugardalshöll, Reykjavík – Fyrri Blur tónleikarnir voru frábærir. þetta var uppáhaldshljómsveitin mín á þeim tíma og ég og Friðrik vinur minn vorum í brjáluðu stuði. Parklife var hápunktur kvöldsins.
9. Metallica – All State Arena, Chicago. – Ég meina hey. Metallica varð að komast á listann. Ég og Dan vinur minn vorum á lélegum stað, en það skipti bara engu máli. Mig var búið að dreyma síðan ég var lítill krakki að heyra Master of Puppets á tónleikum.
8. U2 – United Center, Chicago – Meiriháttar tónleikar á Elevation túrnum. Ég fíla aldrei tónleika á íþróttavöllum en U2 er ein af fáum hljómsveitum, sem á auðvelt með að láta mann gleyma því að það séu 30.000 aðrir hræður í salnum.
7. Weezer – Aragon Theatre, Chicago – Ég fór á tvo skemmtilegustu tónleika ævi minnar í Aragon í Chicago, ásamt Hildi. þeir fyrri voru með Weezer. Þessir tónleikar voru partur af fyrstu tónleikaferðinni þeirra eftir Pinkerton. Salurinn var skreyttur einsog á Prom balli og áhorfendur voru komnir í brjálað stuðu löngu áður en að Weezer stigu á svið. Ég hef aldrei upplifað að áhorfendur hafi sungið með teipinu, sem var spilað fyrir tónleikana. Weezer voru frábærir.
6. Smashing Pumpkins – United Center, ChicagoLokatónleikar Smashing Pumpkins í heimaborginni Chicago voru frábærir. Þau tóku öll bestu lögin, þökkuðu innilega fyrir sig og stóðu svo öll saman og sungu 1979. Svo kom Billy og dásamaði Cubs. Hvað er hægt að biðja um meira?
5. Molotov – Aragon Theatre, Chicago – Seinni stuðtónleikarnir í Aragon voru algjörlega ógleymanlegir. Þegar ég varð 24 ára fórum við Hildur að sjá mexíkósku snillingana í Molotov.
þrem árum áður sáum við þá spila í Madrid, en á þeim tónleikum var ég fárveikur. Í Chicago var ég hins vegar í banastuði ásamt 8000 mexíkóum. Ógleymanlegt kvöld.
4. Sigurrós – Park West, Chicago – Ég hef séð Sigurrós spila tvisvar í Chicago en fyrra skiptið stóð upp úr. þar voru þeir með strengjasveit og voru hreint magnaðir. Þeir enduðu tónleikana á lokalagi (), sem ég hafði þá aldrei heyrt áður. Ótrúlega magnað lokalag.
3. Coldplay – Laugardalshöllin, Reykjavík – Frábærir tónleikar í Laugardalshöll í desember, 2002. Bestu tónleikar, sem ég hef farið á á Íslandi. Ekki skemmdi það að A Rush of Blood to the Head var án efa uppáhaldsplatan mín á þeim tíma, sem þeir héldu tónleikana. Everything’s not lost er eitt besta popplag síðustu ára, á því er enginn vafi.
2. Radiohead – Grant Park, ChicagoÞessir tónleikar voru haldnir í almenningsgarði í Chicago og þeim mun ég seint gleyma. Radiohead voru næstum því fullkomnir, þeir stóðu undir öllu, sem ég hafði vonast eftir og svo miklu meira. Thom Yorke var ógleymanlegur
1. Roger Waters – Woodlands Pavillion, HoustonAlgjörlega ógleymanlegir tónleikar. Þeir toppa Radiohead tónleikana einungis vegna þess að þetta er nú einu sinni fyrrverandi söngvarinn í minni uppáhaldshljómsveit, Pink Floyd. Tónleikarnir voru haldnir utandyra í gríðarlegum hita í Houston. Ég mun aldrei gleyma því hvernig hann flutti Comfortably Numb.

Annað, sem kom vel til greina: Ben Folds – Rosemont Theatre, Chicago. Oasis – Chicago Theatre, Chicago. Fugees – Laugardalshöll. Cypress Hill – Santiago, Chile. Eminem, All State Arena, Chicago. Soda Stereo – Caracas, Venezuela. Rage Against the Machine – Kaplakriki, Hafnarfirði.

Síðustu dagar, fyrsti hluti – Quarashi, Tenacious D

Þrátt fyrir mikla verkefnavinnu þá hefur ég gert sitthvað skemmtilegt undanfarið.

Um þarsíðustu helgi fórum við Hildur á Q101 Jamboree með þrem vinkonum okkar. Við vorum rétt mætt á staðinn þegar við heyrðum að Quarashi voru byrjaðir að spila á litla sviðinu og því hljópum við í þá átt. Quarashi voru helvíti góðir. Þeir tóku lög af bandarísku plötunni þeirra plús Switchstance. Þeir tóku meira að segja Tarfinn á íslensku, sem var nokkuð gaman að heyra.

Ég hef það á tilfinningunni að við Hildur höfum verið þau elstu í áhorfendahópnum. Þessi hópur var einsog nýkominn af Limp Bizkit tónleikum. Ég er miklu hrifnari af rólegri lögunum einsog Malone Lives og Xeneizes, frekar en rokk-rapp lögunum einsog Copycat. En þar sem fyrsta smáskífan þeirra hérna er Stick ‘Em Up, þá er kannski ekki nema von að þeir höfði helst til Limp Bizkit fan klúbbsins. Ég er þó viss um að það á eftir að breytast þegar næsta smáskífa kemur út, það er ef það er ekki Copycat. Allavegana, þá voru tónleikarnir frábærir enda eru Quarashi snillingar.

Á eftir þeim ætluðum við Hildur að fá okkur bjór og burrito en komumst að því að Miller Lite kostaði 8 dollara og Burrito 10 dollara. Ég veit ekki á hvaða plánetu þetta fólk býr en það að borga 8 dollara fyrir lítinn bjór er einfaldlega of mikið fyrir mig. Þannig að við skelltum okkur bara að stóra sviðinu, þar sem við hittum vinkonur okkar. Við sátum á grasinu fyrir aftan sætin. Það fyrsta, sem við sáum á sviðinu voru The Strokes, sem voru nokkuð góðir, þrátt fyrir að ég sé sammála því, sem Dr. Gunni sagði um The Strokes, það er að manni finnst einsog öll lögin renni í eitt eftir smá tíma.

Á eftir þeim kom einhver hljómsveit, sem ég nennti ekki að horfa á en síðan komu Tenacious D. Það var einsog fullt af fólki hefði bara komið til að sjá þá, því allt fylltist þegar þeir komu á svið. Þeir voru nokkurn veginn einsog ég bjóst við. Jack Black var nokkuð fyndinn og þeir tóku þau tvö lög, sem mér finnst skemmtilegust, það er Wonderboy og Tribute. Svo tóku þeir líka Fuck her Gently og nokkur önnur lög, sem ég þekkti ekki jafnvel.

Á eftir þeim kom svo Zwan, nýja Billy Corgan hljómsveitin. Sú sveit er alger snilld. Ég hafði ekki heyrt neitt með þeim en ég var rosalega hrifinn. Þetta er miklu betra en Corgan var að gera síðustu árin með Smashing Pumpkins. Ég get ekki beðið eftir fyrstu plötunni frá þeim. Lofar mjög góðu.

Á eftir Zwan var Kid Rock, þannig að við ákváðum að fara. Við keyrðum alveg frá Tinley Park, sem er í suðurhluta Chicago uppí Arlington Heights, sem er úthverfi fyrir norðan Chicago. Þar fórum við í ágætt partí til vinkonu Hildar og þar vorum við eitthvað fram á nótt.

Ben Folds – Annar hluti

Við Hildur fórum að sjá Ben Folds spila í The Vic í gær. Reyndar mættum við aðeins of seint, þar sem við þurftum að bíða nokkuð lengi eftir borði á Mia Francesca.

Tónleikaferðin hans Ben Folds heitir því viðeigandi nafni “ben folds and a piano”, þar sem hann var einn á sviðinu allan tímann með píanóið sitt. Tónleikarnir voru frábærir. Folds er alger snillingur, því honum tekst að koma lögunum sínum frábærlega til skila án þess að notast við trommur né bassa.

Hann tók flest bestu lögin af nýju plötunni sinni, svo sem “Still Fighting It”, “Fred Jones part 2” og “Rocking the Suburbs”, sem að hét upphaflega “Korn Sucks”. Svo tók hann líka gömul lög einsog “Philosophy” og “Best Imitation of Myself”

Ben Folds

Í kvöld erum við Hildur að fara að sjá snillinginn Ben Folds, en hann er að spila í The Vic, sem er sami staðurinn og við sáum Air og Sigurrós spila.

Við ætlum að kíkja á ítalskan stað þarna rétt hjá fyrir tónleikana og kíkja svo á einhverja bari á eftir.

Helgin – Sigurrós og fótbolti

Við Hildur fórum á tónleika með Sigurrós á fimmtudaginn. Ég lenti reyndar í einhverju fáránlegu veseni fyrir utan staðinn, þar sem tónleikarnir voru 18 og yfir (ég er 24 ára) og þeir vildu ekki hleypta mér inn án skilríkja (sem ég gleymdi). Það er tekið ótrúlega strangt á skilríkjamálum hér í Bandaríkjunum.

Allavegana þá voru tónleikarnir mjög góðir. Jens PR er með ágætislýsingu á Washington D.C. útgáfunni á sinni síðu. Mér fannst þó tónleikarnir í maí betri. Það var meira lagt í þá, með strengjasveitinni og öllu tilheyrandi. Þeir tóku svipaða dagskrá (allavegana, sömu gömlu lögin, fyrir utan það að þeir tóku svefn(g)engla núna). En allavegana þá voru þetta mjög góðir tónleikar.

Helgin er búin að fara í fótbolta. Tímabilið hjá okkur byrjaði um helgina og spiluðum við þrjá leiki. Við töpuðum fyrir University of Illinois en unnum Purdue og Ohio State. Við lékum ágætlega þrátt fyrir að við höfum bara æft nokkrum sinnum saman. Eina slæma við boltann var að það var svo mikil sól að ég kom skaðbrenndur heim.

Fjölbreytt helgi – NFL og Destiny's Child

Helgin var mjög fín hjá okkur Hildi. Á föstudag gerðum við reyndar lítið. Við höfðum ætlað á djammið, en ég var orðinn eitthvað hálf veikur, þannig að eftir að ég hafði horft á Liverpool vinna Super Cup fórum við bara út að borða á Olive Garden.

Á laugardag skelltum við okkur yfir í Woodfield, sem er stærsta mall-ið hérna á Chicago svæðinu. Þaðan brunuðum við svo niður á Soldier Field, þar sem við sáum NFL-preseason leik á milli Chicago Bears og Arizona Cardinals. Þetta var fínn leikur, en þetta er í fyrsta skipti, sem ég fer á NFL leik. Reyndar töpuðu Bears leiknum á síðustu sekúndunum, enda eru þeir með hrikalegt lið. Stemningin var þó góð og flestir vel ölvaðir á leiknum.

Á sunnudag hafði ég svo ákveðið að koma Hildi á óvart. Ég hafði nefnilega keypt tvo miða á tónleika með Destiny’s Child um kvöldið, en Hildur heldur mikið uppá þá hljómsveit og ég verð að viðurkenna að ég fíla tónlistina þeirra bara nokkuð vel (kannski er maður orðinn gamall, tónlistarsmekkurinn er eitthvað að mýkjast).

Allavegana þá voru tónleikarnir haldnir í Tweeter Center, sem er fyrir sunnan Chicago. Þetta er svið, sem er yfirbyggt, en samt nokkuð opið, þannig að maður situr í raun úti en hefur samt þak yfir höfuðið. Tónleikarnir, sem eru partur af TRL túr, byrjuðu á því að rapparinn Eve kom á svið og var hún nokkuð góð. Á eftir henni kom Nelly og tóku sín þekktustu lög, sem hafa verið spiluð sundur og saman á MTV undanfarið.

Síðast komu svo Destiny’s Child. Þeir, sem hafa horft á eitthvað af þessum tónlistarverðlaunaafhendingum undanfarið (Grammy’s, MTV, o.s.frv.) vita sennilega hvernig þær eru á sviði. Sviðsmyndin var alveg einsog hún var á Grammy verðlaununum. Allavegana þá eru þær stelpurnar nokkuð góðar á sviði. Þær eru mjög góðar söngkonur og flest lögin þeirrra eru mjög grípandi. Þær voru einnig duglega við að skipta um föt, ég held alls 5 sinnum (sem er einmitt 5 sinnum oftar en Thom Yorke gerði á Radiohead tónleikunum).

Þær byrjuðu á Independent Women part 1, tóku svo Bills Bills Bills og svo rúlluðu þær í gegnlum öll vinsælustu lögin sín. Þessir tónleikar voru vissulega mjög frábrugðnir þeim tónleikum, sem ég er vanur að fara á, en þeir voru þó skemmtileg tilbreyting og ég skemmti mér bara nokkuð vel

Afmælishelgi

Ég átti afmæli um helgina. Er orðinn 24 ára gamall. Helgin var alveg meiriháttar skemmtileg.

Á afmælisdaginn sjálfan (föstudag, 17.ágúst) bauð Hildur mér út að borða og fórum við á The Stained Glass, sem er í miðbæ Evanston. Þar fengum við alveg geggjaðan mat og vín og sátum við þar heillengi og borðuðum. Síðar um kvöldið röltum við svo yfir á Kaffein, sem er kaffihús, sem er mjög vinsælt hjá Northwestern nemendum, og þar fengum við okkur æðislegan desert.

Á laugardag vaknaði ég eitthvað um hálf átta og keyrði niður í miðbæ Chicago yfir á Fado, þar sem ég horfði á Liverpool-West Ham ásamt nokkrum öðrum gallhörðum Liverpool mönnum. Við Hildur höfðum ætlað að horfa á “Air & Water Show”, sem átti að vera við vatnið, en veðrið var leiðinlegt, þannig að við kíktum bara aðeins í búðir.

Um kvöldið voru það svo tónleikar með Molotov. Þeir voru alveg ótrúleg snilld. Við vorum sennilega eina ljóshærða fólkið meðal 5000 mexíkóskra innflytjenda, enda var starað á okkur og nokkrir spurðu okkur hvaðan við værum, því þeir skildu ekkert í að við skildum fíla þessa tónlist. Allavegana þá komu La Ley fyrst á sviðið og tóku nokkur af sínum bestu lögum og voru þeir mjög góðir, sérstaklega söngvarinn, sem fær 10 fyrir sviðsframkomu.

Svo um hálftíma eftir að La Ley höfðu klárað komu Molotov fram á svið. Þeir byrjuðu fyrst á sinni útgáfu af Bohemian Rapsody, sem er hreinasta snilld. Síðan tóku þeir flest sín bestu lög, einsog Parasito, Voto Latino, Matate-te-te, Gimme Tha Power og enduðu svo á Puto.

Ég hef ekki farið á eins brjálaða tónleika hérna í Bandaríkjunum. Svei mér þá, ég held að ég hafi ekki svitnað eins mikið síðan ég fór á Rage Against the Machine í Kaplakrika. Þetta var alger snilld. Maður hoppaði og söng við tónlistina og stemningin var ótrúleg. Sérstaklega eftirminnilegt var þegar þeir tóku Gimme Tha Power. Það er skrítið að vera meðal 5000 mexíkanskra innflytjenda í Chicago og hrópa “Viva Mexico cabrones“.

Radiohead

Tónleikarnir í Grant Park í gær voru ótrúlegir.

Aðstæður voru frábærar. Veðrið var gott og um 25000 manns fylltu hluta af Grant Park, sem er stærsti almenningsgarðurinn í Chicago og liggur við Michigan vatn. Umhverfið er líka mjög skemmtilegt því í austur er vatnið en í vestri blasa við skýjakljúfar, þar sem Sears Tower rís hæst.

Radiohead tók mikið af efni af nýju plötunum og er ekkert nema gott um það að segja. Þeir byrjuðu á National Anthem, tóku svo Knives Out og svo Karma Police. Allt í allt held ég að þeir hafi tekið um 10 lög af nýju plötunum. Af þeim fannst mér án efa You and whose army? vera best. Það má í raun segja að í því lagi hafi Yorke notið sín best. Hann sat einn fyrir framan píanóið með andlitið alveg ofan í myndavélinni og rödd hans fékk alveg að njóta sín.

Ég held því fram, eftir þessa tónleika, að Tom Yourke sé besti rokksöngvari í heimi. Þvílíkur snillingur. Það er í raun lygilegt að hlusta á hann syngja lög einsog t.d. Fake Plastic Trees, sem þeir tóku eftir að þeir höfðu verið klappaðir upp.

Radiohead tóku, í viðbót við nýju login, flest af sínum þekktustu lögum, einsog Lucky, Airbag, Iron Lung, Fake Plastic Trees, No Surprises, Karma Police og Paranoid Android.

Alls voru þeir klappaðir upp þrisvar. Í fyrst skiptið tóku þeir fjögur lög, þar á meðal stórkostlega útgáfu af IDIOTEQUE. Í annað skiptið tóku þeir tvö lög, annað af Pablo Honey og hitt You and Whose army?, sem var ótrúlegt. Í síðasta skiptið tóku þeir svo Street Spirit (Fade away).

Ég var í raun orðlaus eftir tónleikana. Ég hef nú farið á talsvert mikið af tónleikum með flestum mínum uppáhaldssveitum, en ég man varla eftir betri tónleikum. Það er einna helst Roger Waters, sem stendur uppúr. Fyrir utan þá tónleika, þá hef ég ekki séð betri tónleika.