Helgin var mjög fín hjá okkur Hildi. Á föstudag gerðum við reyndar lítið. Við höfðum ætlað á djammið, en ég var orðinn eitthvað hálf veikur, þannig að eftir að ég hafði horft á Liverpool vinna Super Cup fórum við bara út að borða á Olive Garden.
Á laugardag skelltum við okkur yfir í Woodfield, sem er stærsta mall-ið hérna á Chicago svæðinu. Þaðan brunuðum við svo niður á Soldier Field, þar sem við sáum NFL-preseason leik á milli Chicago Bears og Arizona Cardinals. Þetta var fínn leikur, en þetta er í fyrsta skipti, sem ég fer á NFL leik. Reyndar töpuðu Bears leiknum á síðustu sekúndunum, enda eru þeir með hrikalegt lið. Stemningin var þó góð og flestir vel ölvaðir á leiknum.
Á sunnudag hafði ég svo ákveðið að koma Hildi á óvart. Ég hafði nefnilega keypt tvo miða á tónleika með Destiny’s Child um kvöldið, en Hildur heldur mikið uppá þá hljómsveit og ég verð að viðurkenna að ég fíla tónlistina þeirra bara nokkuð vel (kannski er maður orðinn gamall, tónlistarsmekkurinn er eitthvað að mýkjast).
Allavegana þá voru tónleikarnir haldnir í Tweeter Center, sem er fyrir sunnan Chicago. Þetta er svið, sem er yfirbyggt, en samt nokkuð opið, þannig að maður situr í raun úti en hefur samt þak yfir höfuðið. Tónleikarnir, sem eru partur af TRL túr, byrjuðu á því að rapparinn Eve kom á svið og var hún nokkuð góð. Á eftir henni kom Nelly og tóku sín þekktustu lög, sem hafa verið spiluð sundur og saman á MTV undanfarið.
Síðast komu svo Destiny’s Child. Þeir, sem hafa horft á eitthvað af þessum tónlistarverðlaunaafhendingum undanfarið (Grammy’s, MTV, o.s.frv.) vita sennilega hvernig þær eru á sviði. Sviðsmyndin var alveg einsog hún var á Grammy verðlaununum. Allavegana þá eru þær stelpurnar nokkuð góðar á sviði. Þær eru mjög góðar söngkonur og flest lögin þeirrra eru mjög grípandi. Þær voru einnig duglega við að skipta um föt, ég held alls 5 sinnum (sem er einmitt 5 sinnum oftar en Thom Yorke gerði á Radiohead tónleikunum).
Þær byrjuðu á Independent Women part 1, tóku svo Bills Bills Bills og svo rúlluðu þær í gegnlum öll vinsælustu lögin sín. Þessir tónleikar voru vissulega mjög frábrugðnir þeim tónleikum, sem ég er vanur að fara á, en þeir voru þó skemmtileg tilbreyting og ég skemmti mér bara nokkuð vel