Bestu tónleikarnir

Einhvern veginn hef ég ekki haft þrek í mér að skrifa á þessa síðu undanfarna daga. það hefur nákvæmlega ekkert spennandi gerst. Líf mitt hefur snúist um mikla vinnu og það að leggja parket á íbúðina. Núna er ég hins vegar nokkurn veginn að klára þetta parket dæmi, svo að mig getur byrjað að dreyma um annað en gliðnandi parket.

Annars, þá fann ég nokkra vikna gamla færslu og ákvað að klára hana. Hérna eru sem sagt 10 bestu tónleikarnir, sem ég hef farið á. það var furðu erfitt að velja og hafna á þennan lista. Ég veit að lýsingarnar á tónleikunum eru ekki merkilegar. En ég meina hey.

10. Blur – Laugardalshöll, Reykjavík – Fyrri Blur tónleikarnir voru frábærir. þetta var uppáhaldshljómsveitin mín á þeim tíma og ég og Friðrik vinur minn vorum í brjáluðu stuði. Parklife var hápunktur kvöldsins.
9. Metallica – All State Arena, Chicago. – Ég meina hey. Metallica varð að komast á listann. Ég og Dan vinur minn vorum á lélegum stað, en það skipti bara engu máli. Mig var búið að dreyma síðan ég var lítill krakki að heyra Master of Puppets á tónleikum.
8. U2 – United Center, Chicago – Meiriháttar tónleikar á Elevation túrnum. Ég fíla aldrei tónleika á íþróttavöllum en U2 er ein af fáum hljómsveitum, sem á auðvelt með að láta mann gleyma því að það séu 30.000 aðrir hræður í salnum.
7. Weezer – Aragon Theatre, Chicago – Ég fór á tvo skemmtilegustu tónleika ævi minnar í Aragon í Chicago, ásamt Hildi. þeir fyrri voru með Weezer. Þessir tónleikar voru partur af fyrstu tónleikaferðinni þeirra eftir Pinkerton. Salurinn var skreyttur einsog á Prom balli og áhorfendur voru komnir í brjálað stuðu löngu áður en að Weezer stigu á svið. Ég hef aldrei upplifað að áhorfendur hafi sungið með teipinu, sem var spilað fyrir tónleikana. Weezer voru frábærir.
6. Smashing Pumpkins – United Center, ChicagoLokatónleikar Smashing Pumpkins í heimaborginni Chicago voru frábærir. Þau tóku öll bestu lögin, þökkuðu innilega fyrir sig og stóðu svo öll saman og sungu 1979. Svo kom Billy og dásamaði Cubs. Hvað er hægt að biðja um meira?
5. Molotov – Aragon Theatre, Chicago – Seinni stuðtónleikarnir í Aragon voru algjörlega ógleymanlegir. Þegar ég varð 24 ára fórum við Hildur að sjá mexíkósku snillingana í Molotov.
þrem árum áður sáum við þá spila í Madrid, en á þeim tónleikum var ég fárveikur. Í Chicago var ég hins vegar í banastuði ásamt 8000 mexíkóum. Ógleymanlegt kvöld.
4. Sigurrós – Park West, Chicago – Ég hef séð Sigurrós spila tvisvar í Chicago en fyrra skiptið stóð upp úr. þar voru þeir með strengjasveit og voru hreint magnaðir. Þeir enduðu tónleikana á lokalagi (), sem ég hafði þá aldrei heyrt áður. Ótrúlega magnað lokalag.
3. Coldplay – Laugardalshöllin, Reykjavík – Frábærir tónleikar í Laugardalshöll í desember, 2002. Bestu tónleikar, sem ég hef farið á á Íslandi. Ekki skemmdi það að A Rush of Blood to the Head var án efa uppáhaldsplatan mín á þeim tíma, sem þeir héldu tónleikana. Everything’s not lost er eitt besta popplag síðustu ára, á því er enginn vafi.
2. Radiohead – Grant Park, ChicagoÞessir tónleikar voru haldnir í almenningsgarði í Chicago og þeim mun ég seint gleyma. Radiohead voru næstum því fullkomnir, þeir stóðu undir öllu, sem ég hafði vonast eftir og svo miklu meira. Thom Yorke var ógleymanlegur
1. Roger Waters – Woodlands Pavillion, HoustonAlgjörlega ógleymanlegir tónleikar. Þeir toppa Radiohead tónleikana einungis vegna þess að þetta er nú einu sinni fyrrverandi söngvarinn í minni uppáhaldshljómsveit, Pink Floyd. Tónleikarnir voru haldnir utandyra í gríðarlegum hita í Houston. Ég mun aldrei gleyma því hvernig hann flutti Comfortably Numb.

Annað, sem kom vel til greina: Ben Folds – Rosemont Theatre, Chicago. Oasis – Chicago Theatre, Chicago. Fugees – Laugardalshöll. Cypress Hill – Santiago, Chile. Eminem, All State Arena, Chicago. Soda Stereo – Caracas, Venezuela. Rage Against the Machine – Kaplakriki, Hafnarfirði.

14 thoughts on “Bestu tónleikarnir”

  1. Ég er einmitt að velta því fyrir mér hvort við förum á Ben Folds tónleika hér á háskólasvæðinu í næstu viku. Mig grunar að ég viti hvað þú myndir gera.

    En fórstu aldrei á Chicago Jazz Festival ? Þeir eru oft með stórgóð númer.

  2. Jú, ég fór einhvern tímann á Jazz Fest og svo tvisvar á Blues fest í Grant Park.

    Annars áttu pottþétt að fara á Ben Folds. Hann er frábær á tónleikum!

  3. Ok, þetta er nátttúrlega hætt að vera fyndið. Ég finn alltaf þörf til að skrásetja eitthvað í kommentaboxið hjá þér.

    Hérna kemur minn pakki. Verð að hafa 13 tónleika. Gæti alveg trúað að ég sé að gleyma einhverri snilld.

    kv.
    bió

    #13
    Coldplay (02) Laugardalshöll í Reykjavík
    Væntingar miklar og staðið undir þeim. Miklu betri en Travis tónleikarnir sem óneitanlega verða bornir saman við þessa. Chris Martin er poppstjarna.

    #12
    Catatonia Hróarskelda í Danmörku (98)
    Óvænt gleði. Söngkonan er alveg frábær. Lagasmíðarnar nutu sín vel. Mest yfir væntingum af dóti á Hróarskelduhátðinni.

    #11
    Björk í þjóðleikhúsinu í Reykjavík (99)
    Tónleikar sem verða helst frægir fyrir að það komust mjög fáir á þá. Ótrúleg sérstök stemmning í tignarlegu þjóðleikhúsinu.

    #10
    Sigur Rós (01) Háskólabíó í Reykjavík
    Einfaldlega frábær góð plata í frábærum flutningi.

    #9
    Blur Laugardalshöll í Reykjavík (“96”)
    Hápunktur brit-pop bylgjunnar voru frábærir tónleikar Blur þegar þeir mættu fyrst – enda er fyrri hluti Blur æðislega skemmtilegur. vandamálið var að þegar litlar stelpur byrjuðu að fýla þetta þá gat maður varla viðurkennt að maður fýlaði þetta (sama gerðist með Smashing Pumpkins) – þeir urðu svoldið of frægir.

    #8
    David Byrne (94) Háskólabíó í Reykjavík
    Allir staðnir upp og allir í brjáluðum fíling. Einu tónleikarnir þar sem fólk hefur staðið upp á Íslandi í Háskólabíói og dansað með. Frábærir tónlistarmenn með honum.

    #7
    Björk í Laugardalshöll í Reykjavík (96)
    Algjörlega að tapa mér yfir því hvað mér fannst Debut mikil snilldarplata. Björk í algjöru snilldarformi.

    #6
    Foo Fighers Laugardalshöll í Reykjavík (03)
    Hvernig stendur á því að gamall trommari er einhver besti rokk performer í heiminum. Frábær söngvari hvort sem það var rólegt eða rokk. Kom ótrúlega á óvart. Brjáluð stemmning og stuð.

    #5
    Flaming Lips Laugardalshöll í Reykjavík (02)
    Ótrúleg snjallt pródöxsjón. Ótrúlega góð sviðsframkoma. Yfir væntingum.

    #4
    Sykurmolarnir Fellahellir í Reykjavík (8X)
    Er ekki viss um árið en ég er viss um áhrifin. Nýbylgjan var mögnuð. Sérstaklega ef maður var 8-12 ára.

    #3
    Moby í T-Mobile Arena í Prag (03)
    Frábær gaur Moby. Var enginn brjálaður aðdáandi fyrir tónleikanna en þetta heillaði mig alveg. Stuðið á mér og Mexíkóunum þremur sem voru með mér var óendanlegt. Victor kominn úr að ofan og Blanca, aka litli mexíkóinn, sá eitthvað af því að við tókum hana á háhest nokkrum sinnum. Svarta söngkonan var mögnuð, bassabeibið skemmtilegt og Moby langflottastur. Að enda á 18 mínútna útgáfu af Whole Lotta Love var til að kóróna þetta. Algjör snilld!

    #2
    Kim Larsen Einhver skemma í Kaupmannahöfn (84)
    Syng með í stuði sex ára. Ákveðin tímamót þegar ein gella fór úr öllu á sviðinu í góðum fíling undir Susan Himmelblå.

    #1
    Tori Amos Hótel Borg í Reykjavík (92)
    Mætti snemma. Sat með Tori, pabba og tónleikahöldurum á tjatti fyrir tónleika. Sat á fremsta bekk. Þeir sem vita hvernig Tori situr við píanóið skilja af hverju það er upplifun. Fór heim og reyndi að spila útsendingu Tori á smells like teen spirit. Það gekk vægas sagt illa. Tónlistarleg upplifun!

    Annað sem kom til greina:
    Ramstein Hróarskelda í Danmörku (98)
    Sigur Rós og fleiri – Hrafnagaldur Óðins í Laugardalshöll (02)
    Skunk Anansie í Laugardalshöll(96)
    David Bowie í Laugardalshöll (96)
    Pulp í Laugardalshöll (96)
    Coldplay í Laugardalshöll (03)

    Ágætir tónleikar:
    Suzanne Vega í ráðstefnuhöllinni í Prag (03)
    Ramstein á Hróarskeldu (98)
    Donovan í Þjóðleikhúskjallaranum (99)
    Saint Etienne (97?)
    Sting í Laugardalshöll (98)
    Travis í Laugardalshöll (02)

    Mestu vonbrigðin:
    Primal Scream Hróarskelda í Danmörku (98)
    Bernard Butler Hróarskelda í Danmörku (98)

    Ég missti af:
    Nick Cave
    Sigur Rós á galdrahátíð
    Cardigans
    Led Zeppelin í Laugardalshöll (1970)

    Væri mest til í að sjá:
    Manics ári 1997
    U2 árið 1994
    Muse árið 2003
    Radiohead 1998 (eða seint 97)

  4. Ja hérna, ég gleymdi David Byrne! Það voru snilldar tónleikar. Ég reyndi í tvær vikur að sannfæra vini mína um að koma með mér, en enginn trúði sögum mínum um snilligáfu þessa manns. Ég var held ég í fjórðu röð og man svoooo vel þegar allir stóðu upp og dönsuðu við Life During Wartime og fleiri slagara. Alger snilld!!

    Mestu vonbrigðin hjá mér (og eflaust honum sjálfum) voru Richard Aschroft, Verve söngvari á Double Door í Chicago. Hann söng 5 lög, tók sér svo pásu og mætti aldrei aftur. Sennilega fúll yfir því að vera að syngja fyrir einhverja fulla Kana, sem höfðu ekki hugmynd um hver hann væri.

    Ég sá reyndar líka Moby og fannst hann fínn. Sáum held ég Macy Gray og Moby sömu helgina. Helsti kosturinn við Macy var að Black Eyed Peas hituðu upp.

    Efst á óskalistanum hjá mér eru: Beastie Boys og svo auðvitað að Pink Floyd komi saman aftur, Roger og David fallist í faðma og þeir syngi svo saman Comfortably Numb. Þá yrði ég glaður 🙂

    Já og svo hefði ég alveg verið til í að sjá Bowie í Ziggy Stardust gervinu og Bítlana eftir Revolver.

    Og vá, ég er sammála þér með Blur, það er erfitt að viðurkenna það að maður fíli tónlist, sem 10 ára stelpur fíla líka. Þess vegna var það stórt skref fyrir mig að viðurkenna aðdáun mína á Justin Timberlake :biggrin2:

  5. Ég er viss um að 16 ára Einar hefði átt erfiðara með að gúddera Justin en 26 ára Einar – þroski félagi þroski.

  6. 10 bestu ferðirnar mínar á Serrano:

    1-10 Ferðin í GÆR! Ekki nóg með að afsláttarkortin séu komin (hef verið að boycotta í soldinn tíma) heldur fékk maður 2 miða í bíó (s.s. kvikmyndahús, ekki Björgvin).

    Nýtti mér reyndar ekki boðið, en litla PR var ánægð (þeas systirin ekki konan) -held hún hafi farið fyrir okkar hönd!

    Bónus, komnar heitar gular …why that´s just super!

    Hasta la Victoria Siempre!

  7. Mér finnst alltaf ótrúlegt ad sjá thegar adilar geta rada upp svona listum, ég get valid eina tónleika. Violent Femmes i Köben (02)

  8. Ég er ekki fjarri því að ég hefði viljað sjá nokkra af þessum tónleikum sem þú ert búinn að sjá. Til dæmis Smashing pumpkins, Radiohead (ekki spurning um að maður á eftir að sjá þá en er sammála bió að ég hefði viljað sjá þá á bends og jú líka OK tímanum), Sigur Rós þeir voru góðir í Háskólabíói en í des í fyrra en meira meira meira eftir að hafa hlustað á allar þessar MÖGNUÐU upptökur. Weezer, U2 og Metalicca, hljómgæðin á Orange stage í sumar sökkuðu miðað við Arena held ég þar sem Sigur rós var. Það voru já helvíti góðir tónleikar. Bæði M og S tja eða S og M
    En já tónleikar blíva sko! 🙂
    kv. Bjarni :biggrin:

  9. Ég er nú ekki alveg í lagi ég gleymi nú alveg tónleikum sem fara þarna upp á toppinn hjá mér eða þar um bil, Muse í danmörk í október. Þeir eru verulega verulega góðir á tónleikum, mæli með þeim fyrir alla núna í des, já líka fyrir þig strumpur 🙂

  10. Eg má líka monta mig af góðum tónleikum.
    10.Pink Floyd i Globen Stockholm 1990
    09 Van Morrison Heden Gautaborg 1990
    08.Megas í Stubinen 1989 Gautaborg
    07.ERic Clapton 1993 Globen.
    06.Rolling Stones 1990 Ericsberg Gautaborg.
    05.Uriah Heep 1988 Hotel Island.
    04.Van Morrison 1993 á Rondo Gautaborg 3 tíma orgia.
    03.Megas í Austurbæjarbíó 198? Endurkoman.
    02.Megas =Drög að sjálfsmorði 1978
    01.Peter Hammill .2003 í Fabrik Hamborg.Ekkert jafnast á við þann kall .Hvað sem hver segir.

  11. ég var svona að spá… þar sem ég var að skoða á tónleikana sem þú hefur farið á… lifir þú DRAUMA LÍFI shit… ég myndi drepa fyrir radiohead tónleika og smashing pumkins!!!

  12. Ehm, ég veit ekki alveg þetta með draumalífið, en ég var vissulega heppinn að vera í háskóla í Chicago akkúrat á þeim tíma, sem að Smashing Pumpkins héldu lokatónleikana. 🙂

Comments are closed.