Við Hildur fórum á tónleika með Sigurrós á fimmtudaginn. Ég lenti reyndar í einhverju fáránlegu veseni fyrir utan staðinn, þar sem tónleikarnir voru 18 og yfir (ég er 24 ára) og þeir vildu ekki hleypta mér inn án skilríkja (sem ég gleymdi). Það er tekið ótrúlega strangt á skilríkjamálum hér í Bandaríkjunum.
Allavegana þá voru tónleikarnir mjög góðir. Jens PR er með ágætislýsingu á Washington D.C. útgáfunni á sinni síðu. Mér fannst þó tónleikarnir í maí betri. Það var meira lagt í þá, með strengjasveitinni og öllu tilheyrandi. Þeir tóku svipaða dagskrá (allavegana, sömu gömlu lögin, fyrir utan það að þeir tóku svefn(g)engla núna). En allavegana þá voru þetta mjög góðir tónleikar.
Helgin er búin að fara í fótbolta. Tímabilið hjá okkur byrjaði um helgina og spiluðum við þrjá leiki. Við töpuðum fyrir University of Illinois en unnum Purdue og Ohio State. Við lékum ágætlega þrátt fyrir að við höfum bara æft nokkrum sinnum saman. Eina slæma við boltann var að það var svo mikil sól að ég kom skaðbrenndur heim.