Fór á tónleikana með vinum mínum í gær og endaði síðan á ansi hressu djammi.
Tónleikarnir voru fínir. Við vorum talsvert langt frá sviðinu og hljóðið var frekar slæmt, það virtist vera svo að vindar réðu því hvernig lagið hljómaði, þannig að hljóðið hækkaði og lækkaði eftir því hvernig vindar blésu.
Ég hafði rétt hlustað á nýju plötuna með Sigur Rós og við fyrstu hlustanir þá er ég aðallega að fíla hressu lögin af plötunni (sem þeir tóku í gær), en hægu lögin þurfa eflaust meiri tíma. Nýju lögin voru hápunkturinn hjá Sigur Rós, sérstaklega Gobbedigook og Við Spilum Endalaust. Klæmaxið í Popplaginu (sem ég var að sjá í fimmta skipti á tónleikum) klúðraðist eiginlega útaf hljóðinu. En Sigur Rós voru samt frábærir. Næst væri ég til í að sjá þá á aðeins minni tónleikum.
Björk var líka góð. Ég var að sjá hana í fyrsta skipti á tónleikum og þótt ég hafi ekki hlustað mikið á nýrri plöturnar hennar (eftir að hafa dýrkað fyrstu þrjár) þá þekkti ég flest lögin, sem hún tók. Hún var með hálsbólgu og gat því ekki sungið allra hæstu nóturnar. Hyper-Ballad (uppáhalds lagið mitt með henni) og Declare Independence voru bestu punktarnir. Ég tók [nokkrar myndir á tónleikunum](http://www.flickr.com/photos/einarorn/sets/72157605883824091/).
Eftir um klukkutíma spila svo Spánverjar til úrslita á EM og það er í fyrsta skipti í langan tíma sem að lið sem ég hef tilfinningar til spilar til úrslita á stórmóti. Ég segi að Spánverjar vinni 3-1 og Torres skori tvö.
Var það bara ég, eða var hljóðið meðan Sigurrós spilaði mun lélegra en þegar Björk var að spila?
Stóð þarna vel fyrir miðju og fannst hljóðið meðan Sigurrós var alveg skelfilegt, en skánaði allt þegar Björk kom.
Maður veit ekki.
Var ekki bara minna rok þegar að Björk spilaði?