Green Day og fleira

Ég var að fatta það að ég hef nánast ekkert skrifað hingað inn af viti síðan að ég kom frá Íslandi. Þar sem að ég er einn heima þá ætla ég að reyna að bæta úr því. Ég var að koma inn eftir hausthreingerningu hérna í húsinu þar sem við gengum frá sumarhúsgögnunum, settum grillið niður og ég reytti ósköpin öll af arfa á milli þess sem ég spjallaði við nágrannana.

Helgin er annars búin að vera róleg. Ég og Margrét fórum útað borða á litlu argentísku steikhúsi hérna á Söder í gærkvöldi, þar sem við fengum fínan mat. Ég var furðu hress miðað við hversu leiðinlegur Liverpool leikurinn fyrr um daginn hafði verið.

Síðasta helgi var nokkuð skemmtilegt. Emil var hérna í heimsókn í fyrsta skipti síðan í vor. Við eyddum slatta tíma á flakki um borgina til að skoða þær staðsetningar sem koma til greina fyrir nýja Serrano staði. Á laugardagskvöldinu fórum við svo útað borða með nokkrum vinkonum Margrétar á East. Við höfum farið áður á þann stað og verið gríðarlega ánægð, en vorum óheppin í þetta skiptið. Eftir það fórum við svo á djammið á Ambassadeur, sem er fínn klúbbur sem er ólíkur flestum klúbbum í Stokkhólmi að þar er (ótrúlegt en satt) stundum góð tónlist spiluð. Margrét og ég vorum reyndar tvö á djammi á þessum sama klúbbi helgina áður þar sem var meiriháttar gaman.

* * *

Við Margrét fórum svo á Green Day tónleika í Globen á sunnudaginn. Margrét gerir tónleikunum ágæt skil á síðunni sinni. Þetta voru frábærir tónleikar. Síðustu tónleikar sem ég fór á í Globen voru með Oasis og munurinn á þessum tveim hljómsveitum var gríðarlegur. Oasis nenntu þessu varla og virtust bara vilja klára settið sem fyrst. Green Day höfðu hins vegar gaman af þessu. Þeir spiluðu öll sín bestu lög (hérna er hægt að sjá set-listann (26 lög – geri aðrir betur) – ég hefði í raun bara bætt Jesus of Suburbia við) og þeir virtust njóta hverrar mínútu. Spilamennskan var frábær og Billie Joe gerði allt sem hann gat gert til að ná stemningunni upp eins mikið og hægt er í Globen, sem er ekki auðveldasti staður í heimi til að halda tónleika á.

Það eru sennilega einhver 14 ár síðan að ég heyrði fyrst í Green Day þegar að Björn Arnar, sem var samferða mér í Verzló flesta daga spilaði diskinn fyrir mig. Ég hlustaði gríðarlega mikið á þann disk og svo á Insomniac, sem kom á eftir. En svo missti ég áhugann og í fleiri ár hlustaði ég lítið á sveitina. Alveg þangað til að ég keypti mér American Idiot nokkrum mánuðum eftir að sú plata kom út. Hún er í miklu uppáhaldi hjá mér enda algjörlega frábær plata. Nýja platan, 21st century breakdown er svo líka fín, þótt hún nái ekki sömu hæðum og American Idiot – en lög einsog 21 guns eru frábær.

Þessir tónleikar voru allavegana allt sem ég hafði vonast eftir

* * *

Annars er haustið komið hérna í Stokkhólmi, það var verulega kalt í síðustu viku en það hefur lagast um þessa helgi og núna er úti sól og ekki svo mikill kuldi. Við eigum svo von á slatta af fólki í heimsókn frá Íslandi. Mamma Margrétar og litli bróðir hennar koma í næstu viku og svo Eva María vinkona hennar þar á eftir – sömu helgi og Emil & Ella koma líka í heimsókn. Það verður fjör.