Chi-town

Jæja, ég er kominn aftur til Chicago. Að mörgu leyti er þetta ótrúlega líkt því þegar ég var hérna síðast, en það eru 3 ár síðan ég heimsótti þessa frábæru borg. Veðrið hérna er öllu bærilegra en það var í Texas, rétt yfir 20 gráður í stað 33 gráðu hita í Texas.

Ég og Birkir eyddum tæpri viku í Austin. Mestum tímanum eyddum við í að skoða mexíkóska veitingastaði, en við höfðum þó einhvern smá tíma í annað. Heimsóttum þetta safn, röltum um Austin, reyndum að sjá leðurblökur og eitthvað fleira.

Í gær keyrðum við svo upp til Dallas þaðan sem ég flaug í dag til Chicago. Í gærkvöldi fórum við svo á súrasta bar í Bandaríkjunum. Við vorum að borða á steikhúsi og einn þjónninn þar mælti með því að við færum á “Veterans of Foreign Wars” barinn, sem var hinum meginn við götuna. Þar var afskaplega skrautlegt samansafn af fólki.

Við spiluðum shuffleboard við tvo gaura, létum einhverjar hálf sjúskaðar gellur reyna við okkur, drukkum með risavöxnum fyrrverandi hermanni og svo fékk ég að heyra ævisögu fimmtugrar, 170 kílógramma þungrar konu, sem sagði að ég liti út einsog Matthew McConaghey á milli þess sem hún klappaði mér í framann og sagði mér átakanlega ævisögu sína.

* * *

Og svo kom ég hingað til Chicago í morgun. Tók lestina niðrí bæ og labbaði svo heim til Dan vinar míns. Horfði á restina af Cubs leik, sem mínir menn unnu (auðvitað!) – og er svo búinn að rölta um hverfið, bíðandi eftir því að Dan komi aftur heim úr vinnunni. Í kvöld ætlum við að kíkja út og á morgun er það Cubs leikur á Wrigley Field.

Bud Light-inn bíður kaldur eftir mér inní ísskáp. It’s good to be back!

Skrifað í Chicago, Illinois klukkan 17.53

Út til USA!

Jæja, ég er að fara til útlanda í fyrramálið.  Ferðinni er heitið til Bandaríkjanna í tæpar tvær vikur.  Fyrir utan millilendingu þá hef ég ekki verið í Bandaríkjunum síðan árið 2004, þannig að ég er orðinn verulega spenntur, enda er ég afskaplega hrifinn af þessu frábæra landi.

Þessi ferð er hugsuð að hluta til sem vinnuferð og að hluta til sem skemmtiferð.  Ég og yfirkokkur Serrano erum að fara til Austin í Texas, þar sem við ætlum að kynna okkur aðeins nokkra veitingastaði og sjá hvað er að gerast í veitingastaðamálum í Bandaríkjunum þessa dagana.  Ég hef aldrei komið til Austin, en ég hef heyrt góða hluti um borgina og hún býr yfir þeim kostum að innihalda mikið af veitingastöðum og mexíkóskum innflytjendum og svo er hún stutt frá þremur stórum borgum (Dallas, Houston og San Antonio).

Frá Austin ætla ég svo að fara einn til Chicago næsta föstudag.  Þar ætla ég að gista hjá Dan vini mínum og ætlum við að skemmta okkur í Chicago yfir helgina.  Er nú þegar kominn með miða á Cubs leik og svo ætlum við njóta borgarinnar í nokkra daga.  Frá Chicago ætla ég svo að fljúga til Washington DC, þar sem ég ætla að hitta Genna og Söndru vini mína og vera hjá þeim yfir þjóðhátíðardag Bandaríkjamanna, 4.júlí.  Daginn eftir á ég svo flug heim.

Ég er orðinn verulega spenntur.  Eftir að ég hætti í gamla starfinu mínu þá ferðast ég ekki nærri því jafn mikið til útlanda og því er ég aftur farinn að verða spenntur fyrir ferðalögum.  Það er gaman.

Síðustu dagar

  • Ég fór á Air tónleikana á þriðjudaginn. Upphitunin var ekki góð. Air voru ágætir, en samt ekki nógu góðir. Ég hafði ekki ætlað að fara á tónleikana, en vinur minn veiktist þannig að ég fór með konunni hans og vinum hennar. Þetta var fínt, en samt ekkert ofboðslega gott. Frábær útgáfa af La Femme d’Argent bjargaði þessu fyrir horn. Snillingurinn Dr. Gunni tók lagið upp og dreifir á síðunni sinni.
  • Tekið skal fram að ég svaf ekki hjá eiginkonu vinar míns eftir tónleikana.
  • Í gær fór ég að borða á Reykjavík Pizza Company með vinkonu minni. Við sváfum ekki saman eftir matinn, heldur fórum bara á Kaffibarinn, þar sem við spjölluðum um fulltaf skemmtilegum og spennandi málum. Ég var harðákveðinn að skrifa blogg um stelpumál eftir þetta spjall, en svo hef ég bara verið of latur. RPC er verulega góður staður. Þarna fást pizzur sem eru eiginlega alveg einsog á Eldsmiðjunni.
  • Í kvöld fór ég með vinum mínum útað borða á Rosso Pomodoro. Það er ekki nógu góður staður. Eða þá að ég er ekki nógu góður að panta réttu réttina þar. Vinir mínir eru hins vegar góðir gæjar, þrátt fyrir að þeir þurfi að fara að sofa snemma, sem sést á því að ég er að blogga núna klukkan 10.
  • Við spiluðum pool. Ég hef aldrei gert mér neinar hugmyndir um það að ég sé sérlega góður í pool. En jedúddafokkingmía hvað ég var lélegur í kvöld. Þetta var pínlegt.
  • Ég er að fara til útlanda á laugardaginn og ég er að deyja úr spenningi. Skrifa meira um það á morgun.
  • Apple eru búnir að uppfæra iPhone heimasíðuna.  Ég þrái þennan síma!  Ég held að mig hafi aldrei langað jafn mikið í nokkurt tæki án þess að hafa séð það “live”.  Ég fæ vonandi tækifæri til að prófa símann í utanlandsferðinni minni.

Whitney, Couchsurfing, djamm, Ólíver og Ölstofan

Punktablogg:

  • Þriðju helgina í röð var ég með Couchsurfing gest hjá mér. Í þetta skiptið var það bandarísk stelpa (Jena), sem var mjög skemmtileg. Við djömmuðum m.a. saman bæði kvöldin og skemmti ég mér ótrúlega vel í bæði skiptin. Ég ætla þó að hvíla mig aðeins á þessu Couchsurfing dæmi á næstunni.
  • Á föstudaginn fórum við milli bara í miðbænum. Borðuðum á Vegamótum, fórum svo á Boston, Kúltúra, Prikið, svo aftur á Ólíver og enduðum á Vegamótum. Ég fór síðan eftir það í partí uppá Reykjavíkurflugvelli.
  • Á Ólíver kynntumst við bandarísku pari og áströlskum strák. Þar rifjaðist líka upp fyrir mér af hverju ég hef ekki farið á Ólíver í hálft ár. Samkvæmt Mogganum er Ólíver lang vinsælasti staður landsins með um 2300 gesti á laugardagskvöldi. Það er nokkuð magnað. Allavegana, tvær ástæður fyrir því að Ólíver er ekki í náðinni hjá mér: Fyrir það fyrsta eru það allir þessir gaurar sem panta sér borð fyrir kvöldið og sitja þar með vodkaflösku og Magic og láta einsog kóngar. Á föstudaginn virtust þetta aðallega vera útlendingar, Bretar í steggjapartíum svona svipað einsog á vinsælasta staðnum í Prag. Ólíver virðist vera orðinn staðurinn sem útlendingum slefandi á eftir íslenskum stelpum er beint inná. Hin ástæðan: Jena dró mig útá dansgólfið þegar að eitthvað skemmtilegt lag var í spilun. Það tók okkur smá tíma að komast á gólfið og þegar við loksins komumst þangað var næsta lag byrjað. Hvaða lag var það? Jú, I wanna dance with somebody með Whitney Houston.
  • Við héldum því á Vegamót. Ástralski strákurinn nánast faðmaði mig fyrir að beina honum á þann stað. Ég skildi þau svo eftir þar og fór uppá flugvöll.
  • Í gær fórum við svo í matarboð til vina minna og kíktum svo örstutt í útskriftarpartí.
  • Fórum svo í bæinn. Fyrst á Vegamót, svo á Barinn og fengum okkur svo drykk á Kúltúra. Komum aftur á Vegamót og þá var komin fáránleg biðröð þar. Þar héngum við í um hálftíma-45 mín í algjörri stöppu og ég var nánast kominn með keðjufar á rassinn eftir þetta allt. Að lokum gáfumst við upp og fórum á Ölstofuna.
  • Þetta er í síðasta skiptið sem ég fer í þessa biðröð á Vegamótum. Annaðhvort redda ég mér einhverju korti (sem er reyndar í vinnslu) eða ég fer eitthvað annað. Það er ekki hægt að bjóða manni uppá þetta. Ég er of gamall fyrir svona kjaftæði.
  • Á Ölstofunni var hins vegar gaman. Sátum þarna með afskaplega góðu fólki í mjög langan tíma. Hitti fólk sem ég bara hitt á netinu áður og fulltaf öðru skemmtilegu fólki. Tókst að biðjast afsökunnar á því hvað ég var mikið fífl fyrir einhverjum vikum við eina manneskju og eitthvað fleira. Mjög gott kvöld.
  • Enduðum svo á einhverjum Habibi stað, sem er þar sem Purple Onion var einu sinni. Sé ekki alveg hver munurinn á þessum stað og Purple Onion er. Borðuðum því samloku á meðan við löbbuðum heim.
  • Tveir staðir sem eru 100 sinnum meira heillandi eftir að reykingabannið tók gildi: Ölstofan og Boston. Ég sat í gærkvöldi á Ölstofunni í einhverja 3 tíma og skemmti mér ljómandi vel. Fyrir bannið gat ég varla setið þar í meira en hálftíma.
  • Jena er farinn heim til sín og ég sit hérna heima og er að bíða eftir því að lokaumferðin í spænsku deildinni byrji. Ég nenni ekki niður í bæ. Í fyrra var ég allur í fjölskyldustemningunni á 17.júní, en aðstæður hafa breyst í ár.
  • Mér líður hálf skringilega. Einsog ég hafi gert eitthvað vitlaust í gær, en samt var þetta í alla staði gott kvöld. Ég er ekki einu sinni þunnur, sem er skemmtileg tilbreyting frá gærdeginum.

Helgin

Á föstudaginn fór ég í fyrsta skipti í bæinn eftir að reykingabannið tók gildi. Ég ætla nú ekki að lesa of mikið í þetta, en þetta var föstudagskvöld viku eftir mánaðarmót og Ölstofan og Vegamót voru hálftóm. Klukkan 3 var ekkert mál að fá sæti á báðum þessum stöðum, en hellingur af fólki var í portinu á milli staðanna.

Ég drakk bjór í, sem veldur vanalega þynnku – og ég verð að segja að ég get ekki séð að þetta reykingabann hafi dregið úr þynnkunni að neinu leyti.

* * *

Í gærkvöldi ákvað ég hins vegar að láta ekki plata mig útúr húsi, horfði á fulltaf spænskum fótbolta og svaf svo í 14 klukkutíma. Himneskt segi ég, himneskt. Ég sá fyrir mér heilan dag af sjónvarpsglápi og svo fjölskyldumatarboð í kvöld, en því miður er það mikið af veikindum uppá Serrano að ég þarf að vinna þar til lokunnar.

* * *

Er samt búinn að eyða megninu af deginum í að horfa á bresku útgáfuna af The Office, sem ég hef ekki horft á í nokkur ár. Hjá mér eru núna tveir bandarískir strákar, sem koma í gegnum Couchsurfing og eru búnir að gista hérna um helgina.

Ég er farinn að fá það mikið af Couchsurfing fyrirspurnum að ég hef varla tíma í að svara öllum. Er strax búinn að lenda í því að fá óþolandi leiðinlegan gaur, en öll hin skiptin hafa verið gríðarlega jákvæð. Er að spá í að nýta mér þetta að verulegu leyti þegar ég fer vonandi á eitthvað ferðalag í haust.

Nýjar æfingar, þreyta og Manic Street Preachers

Tvær síðustu vikur hef ég verið að fylgja nýju æfingaplani, sem að er hreinlega að gera út við félagslíf mitt. Planið byggist á því að ég mæti klukkan 7 inní Laugar (sjáiði hvað ég er lúmskur að koma því að hvar ég er staddur ), hleyp þar í sirka klukkutíma, fer svo í vinnuna og er mættur aftur klukkan 12 og lyfti þá lóðum.

Þetta er í fínu lagi…

… nema fyrir þá staðreynd að þegar ég kem heim á daginn úr vinnu, sem er vanalega um 5-6 leytið, þá gjörsamlega slökknar á allri líkamsstarfsemi. Ég á til dæmis í alvarlegum erfiðleikum núna með það eitt að halda augunum opnum. Ég geri mér nú grein fyrir því að fótaæfingar draga úr manni það mikla orku að augnlok hafa ekki einu sinni lengur kraft til að halda sér opnum.

Því hefur áhugi minn á því að gera eitthvað annað á kvöldin en að sofa eða horfa á sjónvarp minnkað umtalsvert. Tvö síðustu kvöld hefur fólk gert heiðarlegar tilraunir til að draga mig af sófanum og útúr húsi. Þær tilraunir hafa mistekist hrapallega. Ég vona þó að fólk hætti ekki að reyna, þetta getur varla haldið svona áfram.

Opinbert takmark þessa átaks er að líta út einsog forsíðumódel á Men’s Fitness blaði. Ef það tekst ekki með þessu prógrammi, þá tekst það aldrei.

* * *

Þessi landsleikur er svo ekki beinlínis að blása í mig krafti.

Það sama má segja um þetta veður.

* * *

Hins vegar er nýja Manic Street Preachers platan afskaplega hressandi. Til að sýna hversu ömurlegur Manics aðdáandi ég er, þá vissi ég ekki einu sinni að þeir væru komnir með nýja plötu fyrr en ég las þessa færslu hjá Palla. Allavegana, á nýju plötunni þá syngja þeir m.a.s. með NÍNU minni, sem er uppáhaldssöngkonan mín! Pæliði í því (sjá myndband á Yotube með því lagi)! Fyrsta lagið á plötunni er líka skuggalega svalt!

Manic Street Preachers hafa lengi verið ein af mínum uppáhaldssveitum. Ein platan þeirra inniheldur til að mynda fullkomnustu byrjun í rokksögunni (að mínu mati auðvitað), en það er This is My truth, tell me Yours, sem byrjar á The Everlasting, sem ég hef alltaf tengt ákveðnum sambandsslitum í mínu lífi og svo If you tolerate this, then your children will be next, en ég efast um að ég hafi hlustað á mörg lög oftar á ævinni.

Og víst ég er farinn að Youtube-ast með Manic Street Preachers, þá er hérna mynband með þeirra besta lagi, Motorcycle Emptiness.

Frábær hljómsveit!

Eyðsla

Partur af vinnu kvöldsins var að fara í gegnum alla pappíra hérna heima. Ég fæ bæði reikninga fyrir Serrano og mína eigin hingað heim í Vesturbæinn.

Allavegana, ég var að fara í gegnum VISA reikninginn minn. Það er athyglisvert plagg. Ég er með helstu reikninga einsog afborganir af lánum, húsfélagi og slíku í heimabankanum, en **allt annað** borga ég með kreditkortinu mínu. Því get ég auðveldlega tekið saman hvaða fyrirtæki njóta minna viðskipta og í hvað peningarnir mínir fara.

Þegar ég tek þetta saman, þá sé ég að ég eyði peningum beisiklí í mat, djamm og bensín. That’s it! Nota bene, þetta er semsagt yfir mánaðartímabil og ég er ungur karlmaður á lausu og bý í eigin húsnæði í Vesturbænum. Þetta eru hæstu útgjöldin.  (þess ber auðvitað að geta að ég fæ matinn á Serrano ókeypis, en verðmæti þess matar myndi sennilega fara yfir innkaupin úr Melabúðinni).

1. N1. Sjitt hvað þetta safnast saman. Núna keyri ég ekkert sérstaklega mikið (eða finnst það allavegana ekki). Ég man ekki eftir að hafa keypt neitt annað en bensín hjá N1, þannig að þetta er bensínkostnaðurinn minn þennan mánuðinn. Ég fékk sjokk þegar ég tók töluna saman.
2. Melabúðin. Fyrri hluti matarkostnaðarins.
3. Nóatún. Ég versla semsagt í tveim dýrustu búðunum í hverfinu. Myndi eflaust spara eitthvað með því að kaupa í Bónus, en ég er einfaldlega svo latur við að versla að ég nenni því ekki. Þetta myndi eflaust breytast ef ég væri að kaupa fyrir fleiri en einn.
4. Vegamót. Þetta er nú ekki svo slæmt. Upphæðin á Vegamótum hefur oft verið hærri en þennan mánuð.
6. Hreyfill / BSR. Úfffff! Ég sem hleyp oftast heim úr bænum. Held örugglega að parturinn af þessu sé vegna þess að ég var í partíum í Kópavogi.
7. Kaffitár. Nokkuð góður árangur það. Ég sinni mjög mikið af skrifstofustörfum mínum á Kaffitári, þannig að þetta er í góðu lagi.
8. Players. Já, það er dýrt að fylgjast með fótbolta! Hægt að bæta við þetta Sýn og Enska boltanum. Þetta er furðu dýrt áhugamál
9. Ölstofan
10. Eldsmiðjan

Aðrir á listanum: Sólon (matur), McDonald’s, Barinn, Nasa, Hamborgarabúllan, Krua Thai, Hlölli, Kaffibarinn, Café París, Kaffi Róma og Bæjarins Bestu.

Líf mitt snýst semsagt officially um mat og djamm.

Viernes (uppfært)

Punktablogg aftur!

  • Þessu föstudagskvöldi verður eytt í vinnu. Miðað við það sem ég er búinn að púsla saman frá síðasta laugardagskvöldi úr sms-um, MySpace skilaboðum og fleiru, þá held ég að það sé ágætis hugmynd.
  • Þessi England-Brasilíu leikur er svo leiðinlegur að ég verð að blogga líka til þess að sofna ekki.
  • Sýn fær hrós dagsins fyrir að ætla að sýna frá Wimbledon í beinni. Þá fá Íslendingar loksins tækifæri til að sjá besta íþróttamann heims í dag.
  • Hvaða snillingur velur Alan Smith í enska landsliðið? Er þessi maður á lyfjum?
  • Af hverju í andskotanum er Jermaine Pennant ekki í hópnum?
  • Þetta er afleit byrjun hjá Jóhönnu og ríkisstjórninni!
  • Ég eyði orðið alveg óhóflegum tíma á MySpace. Þetta er mest ávanabindandi vefsíða í heimi. Stelpan sem ég sendi skilaboð á MySpace – og skrifaði svo um – svaraði mér að lokum. Sem er gott.
  • Þetta veður er ömurlegt. ÖMURLEGT!
  • Ég held að Peter Crouch hafi sofið hjá eiginkonu Steve McClaren.
  • Vó vó vó! Er Wes Brown í hópnum? Er þetta grín? Ooooog hann er inná í eina mínútu og er næstum því búinn að gefa mark.
  • “Wake me up lower the feeever, Walking in a straight line” – NÆ.ÞESSU.EKKI.ÚR.HAUSNUM.Á.MÉR!
  • (uppfært):  Vá!  Sjónvarpsefni kvöldsins er án efa sýning LeBron James á Sýn.  Það eina skemmtilegra en að horfa á þá snilld er að hlusta á lýsendurna tapa sér yfir James.  Af hverju eru fótboltalýsingar aldrei svona skemmtilegar?  Þeir eiga hrós skilið!  Og LeBron er ekki mannlegur.

Ok, þetta blogg er ekki nóg. Ég þarf líka grænt te til að sofna ekki yfir þessum leik.

Ó

Er þessi þynnka eitthvað grín?

Ég er rétt núna klukkan 8 um kvöld að jafna mig á þynnku dagsins. Rétt náði að koma oní mig hamborgara af McDonald’s. Sannfærðist endanlega um að munurinn á McDonald’s á Íslandi og í útlöndum er gríðarlega mikill. Ég fer afar sjaldan hérna heima, en í síðustu tvö skipti sem ég hef farið þá hef ég einfaldlega fengið gamla hamborgara. Útí Svíþjóð þurfti ég að bíða aðeins eftir hamborgaranum mínum, en þá voru þeir líka nýeldaðir og æðislega góðir (ég er mikill aðdáandi McDonald’s nota bene) en hérna heima hef ég borðað McBeikon og nú BigMac og í bæði skiptin hafa þeir greinilega staðið nokkuð lengi. Skamm skamm!

* * *

Allavegana, ég var á djamminu í gær. Á föstudaginn var ég í þrítugsafmæli hjá vini mínum, sem endaði frekar snemma og enginn fór í bæinn. Ég varð því að gera betur í gær. Mætti á Kaffi Kúltúra þar sem UJ var með eitthvað dæmi. Þar sat ég að drykkju með góðu fólki, gerði þau reginmistök að ræða um Ísrael en skemmti mér almennt séð mjög vel.

Við ákváðum svo að fara á annan stað. Við tók fáránlegasta biðraðakjaftæði sem ég hef lent í lengi. Beisiklí þá stóðum við í biðröð fyrir framan eftirfarandi staði: Ólíver, Hverfisbarinn, 11, Kaffibarinn, Boston, Dillon, Vegamót og Ölstofuna. Við vorum á fyrstu tveim stöðunum af því að okkur fannst það á einhverjum tímapunkti fyndið, en allavegana þá komumst við ekki inná neinn stað nema 11. Við enduðum þó á Ölstofunni, sem var þó lokað klukkan 4.

Guði sé lof fyrir að sá staður lokaði klukkan 4, því nógu andskoti mikið hafði ég nú drukkið þrátt fyrir það. Þegar ég vaknaði um 9 leytið í morgun var ég með svakalegasta hausverk, sem ég held að ég hafi á ævinni fengið.

* * *

Vinkona mín sem stóð með mér í röðinni á Vegamótum sagði að ef einhver ætti að vera með VIP kort á Vegamótum þá væri það ég. Ég hefði stundað staðinn í mörg ár, væri alltaf að auglýsa staðinn hérna á þessari nokkuð vinsælu bloggsíðu, ég væri þarna nánast hverja helgi og ég borðaði þarna nokkrum sinnum í mánuði.

Ég er sammála henni. Ég þyrfti bara að sýna eigendum staðarins kreditkorta yfirlitið mitt til þess að þeir sannfærðust. Veit einhver hvernig ég get reddað mér slíku? Ég nenni ekki þessu biðraðadæmi lengur.

* * *

Þetta er dálítið fyndin færsla. Ég verð þó að játa að ég man ekki eftir þessu samtali inná klósettinu á Vegamótum.

* * *

Lagaði aðeins til síðuna, kláraði í raun loksins að gera hana einsog hún var áður en ég flutti mig yfir í WordPress. Núna sjást nýjustu ummælin hérna hægra megin. Held að ég sé sæmilega sáttur við skiptin yfir í WordPress. Þetta kerfi er alls ekki gallalaust og ég sakna nokkurra hluta úr Movable Type, en ég held samt að þetta hafi verið rétt ákvörðun.

* * *

Byltingin hans Chavez heldur áfram í Venezuela.  Magnað.

Helgi í Stokkhólmi

Jæja jæja, ég eyddi helginni í Stokkhólmi með Emil vini mínum. Ég hef svo sem áður lýst aðdáun minni á Stokkhólmi. Það er eitthvað við þessa borg, sem hefur heillað mig uppúr skónum. Ég fíla Kaupmannahöfn, en það er eitthvað við Stokkhólm sem er svo miklu meira spennandi og skemmtilegt.

Helgin var blanda af skemmtun og skipulögðum fundum og slíku. Veðrið var frábært mestallan tímann og því frábær tími til að labba um borgina. Við vorum ekkert voðalega mikið að túristast um borgina, heldur eyddum við mestum tímanum á götunum í kringum Sergels Torg og Kunstradsgarden, löbbuðum um, borðuðum góðan mat og nutum veðursins.—

Djammið í Stokkhólmi var ljómandi skemmtilegt. Á föstudaginn fórum við saman útað borða á Hotellet, sem er verulega flottur veitinga- og skemmtistaður. Í raun alveg fáránlega flottur. Ólíver lítur út einsog Skipperinn í samanburði við Hotellet einsog ég sagði víst í einhverju fylleríis sms-i. Við borðuðum þar alveg fáránlega góða máltíð, ég drakk Bud Light og eftir matinn kíktum við niður á klúbbhluta staðarins. Af Hotellet héldum við áfram túr um trendí staði Stokkhólms (sem að vinalegur verslunarstjóri gaf okkur leiðbeiningar um) og héldum á East. Sá staður var ekki eins skemmtilegur og stelpurnar ekki jafn sætar á Hotellet.

Við ákváðum því að færa okkur yfir á SpyBar. Fyrir þrem árum var sá staður heitur og ég eyddi þar kvöldi í BlackJack, sem var nokkuð skemmtilegt. Eitthvað hefur SpyBar þó misst niður sjarmann. Fyrir það fyrsta lentum við í leiðinlegasta dyraverði allra tíma. Hann neitaði mér um inngöngu þar sem að ég “væri of fullur”. Ég hef aðeins einu sinni heyrt þessa afsökun og var það á næturklúbbi í New Orleans. Þá stóð ég fyllilega undir nafnbótinni, en það átti alls ekki við um föstudagskvöldið. Emil, sem var víst ekki “of fullur” tókst hins vegar af sinnum alkunna sjarma að fá dyravörðinn til að hleypa okkur inn, með þeim varnarorðum að ég ætti að taka því rólega inná staðnum.

Allavegana, SpyBar var hálf tómur og því lítið annað að gera en að spila BlackJack, sem við og gerðum. Emil tókst að tapa 200 sænskum á sirka 5 mínútum, en það tók mig um klukkutíma, þannig að ég skemmti mér vel. Tími þessa staðar er þó liðinn.

* * *

Á laugardagskvöldið fórum við svo útað borða á Braserie Godot, sem var fínn veitingastaður. Þaðan löbbuðum við niðrá Stureplan og vegna þess að Emil þurfti að pissa römbuðum við inná næsta næturklúbb. Sá reyndist vera StureCompagniert. Við vorum mættir þar nokkuð snemma, um 11 að mig minnir og flugum því inn (röðin var orðin óheyrilega löng þegar við fórum) án þess að rekast á dyraverði, sem eiga að sögn að vera verri en á SpyBar. Allavegana, þegar við vorum komnir inn var frekar lítið af fólki, svo við fengum okkur bara sæti og byrjuðum að styrkja eigendur klúbbsins með screwdriver og cuba libre kaupum.

Það er skemmst frá því að segja að kvenfólkið á StureCompagniet var æðislegt. Þvílíkt og annað eins! Þetta var blanda af skandinavískum ljóskum (sem ég er jú nokkuð veikur fyrir) og svarthærðum stelpum, sem virtust vera frá Mið-Austurlöndum! Semsagt, í mínum heimi nokkurn veginn hin fullkomna blanda af kvenfólki.

Restin af ferðinni er kannski ekki mikið efni í merkilega ferðasögu.

* * *

MySpace er fyndinn miðill. Ég fæ nokkuð oft bréf frá stelpum, sem ég þekki ekki og finnst ekkert nema virkilega gott um það að segja. Ég prófaði hins vegar um helgina að senda stelpu, sem ég þekki ekki neitt, bréf. Ekkert merkilegt, bara stutt bréf. Núna einhverjum dögum síðar hefur hún ekki svarað. Og fyrir vikið líður mér einsog einstaklega asnalega – finnst það allt í einu geðveikt skrýtið og kjánalegt að hafa sent einhverri ókunnugri stelpu bréf.

Þannig að það, sem mér finnst fullkomlega eðlilegt að aðrir geri, finnst mér vera alveg ferlega skrýtið að ég geri. Ég er skrýtinn.

* * *

Já, og mér líst vel á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Ég væri nú ekki mikill hægri krati ef ég væri ekki sáttur. Skrifa kannski meira um þetta þegar að málefnasamningurinn verður birtur.